Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 21.8.2013 11:00:33 | Guðný Hildur Magnúsdóttir
Baráttan gegn einelti

Baráttan gegn einelti er verkefni sem lýkur aldrei. Ég ætla að leyfa mér að vitna í athugasemd Bolvískrar konu sem hún skrifaði við frétt á bb.is um einelti í síðustu viku. Hún skrifaði: „það er eins með eineltið og lúsina, það er erfitt að eiga við hana, hún blossar alltaf upp aftur og það þarf að vera stöðugt á vaktinni.“ Mér finnst þetta ekki svo galinn samanburður. Við getum ekki útilokað að lúsin eða eineltið komi upp, en við getum þekkt einkennin og leiðirnar til að bregðast við og losna við óværuna.  En þar með lýkur samanburðinum kannski, því auðvitað er einelti mikið alvarlegra mál en lús. En sem betur fer hefur mikið breyst undanfarin ár hvað varðar vitund fólks um einelti og viðbrögð við einelti.  Fræðsla, eineltisáætlanir, reglugerðir og skipuleg vinnubrögð hafa litið dagsins ljós bæði í skólum og á vinnustöðum, sem er mikill munur frá því að einelti var nánast óþekkt hugtak fyrir ekki svo löngum tíma.  En auðvitað erum við enn að læra, því einelti er ekki einfalt mál.

Ég hef sinnt ráðgjöf inní Grunnskóla Bolungarvíkur síðastliðin 4-5 ár, við nemendur, kennara og skólastjórnendur. Hluti af ráðgjöf minni hefur verið aðstoð við að takast á við eineltismál. Á hverjum vetri koma upp mál þar sem einelti er í gangi eða einelti er í uppsiglingu eða samskipti milli nemenda eru erfið og særandi. Oft eru þetta flókin mál með margar hliðar. En við höfum reynt að gera okkar besta að fara ofaní saumana á hverju máli, ræða við alla aðila og finna leiðir til að stoppa þá hegðun sem hefur átt sér stað. Oft þarf talsverða eftirfylgni og stuðning, bæði við þolendur og gerendur, m.a. í formi viðtala. Og við reynum að hafa sem mest og best samskipti við foreldra. En auðvitað erum við ekki fullkomin og við erum sífellt að læra af reynslunni. En það er skýr vilji hjá öllum starfsmönnum skólans að taka ákveðið á eineltismálum.

Best er þegar hægt er að taka á málum snemma, áður en vandinn er búinn að festast í sessi. Þess vegna er mikilvægt að bæði börnin og foreldrarnir láti vita um leið og þau hafa áhyggjur af því að eitthvað barn sé lagt í einelti eða að eitthvað barn sé að leggja aðra í einelti.

Í skólanum hefur einnig verið talsverð fræðsla til nemenda um hvað er einelti og hvernig á að bregðast við því. Það hafa verið haldnir sérstakir þemadagar þar sem kennarar vinna með nemendum í forvörnum gegn einelti, auk þess sem kennarar flétta umræðu um einelti inní aðra kennslu sína.  Ég hef farið inní bekki og fjallað um einelti og samskipti og það hafa verið haldnir fundir með foreldrum einstakra bekkja þegar eineltismál hafa komið upp. 

Ég sagði áðan að eineltismál eru oft flókin og hafa margar hliðar. Sami aðilinn getur verið bæði þolandi og gerandi í einelti á sama tíma. Og mörg börn eru að glíma við einhverja erfiðleika eða frávik sem getur haft þau áhrif að þau eru líklegri til að vera gerendur eða þolendur í einelti. Þið hafið heyrt nöfn á frávikum eins og athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) eða mótþróaþrjóskuröskun. Börn með þessi frávik eru líklegri til að vera bæði gerendur og þolendur í einelti.  En oft eru það líka börn sem eru ekki að glíma við nein sérstök frávik sem eru gerendur og/eða þolendur í einelti.  En hvort heldur sem er þá er það hlutverk okkar fullorðna fólksins, foreldra og starfsmanna skólans, að kenna börnunum að einelti er eitthvað sem er alvarlegt og að við viljum stoppa það strax.  Samvinna foreldra og starfsmanan skólans er afar mikilvæg þegar við erum að takast á við eineltismál. Það sem er allra mikilvægast er að við tölum saman, látum vita ef eitthvað alvarlegt kemur upp og að við lítum á þetta sem verkefni sem við vinnum sameiginlega að. 

Fyrr í dag átti ég fund með skólastjórnendum Grunnskóla Bolungarvíkur.  Á fundinum var ákveðið að ég myndi útbúa fræðsluefni og fara með inní alla bekki skólans nú í haust.  Í þessu fræðsluefni myndi ég fjalla um einelti, góð og slæm samskipti og að kenna börnunum hvernig á að bregðast við þegar einhver kemur illa fram við þau (eða þau sjá að það er komið illa fram við aðra).  Þetta síðast nefnda kalla ég að læra að setja öðrum mörk.  Að setja mörk þýðir að maður láti aðra vita hvernig maður vill láta koma fram við sig og hvernig maður vill ekki láta koma fram við sig.  Að barn læri að segja „mér finnst þetta óþægilegt“ eða „ég vil þetta ekki“ eða „hættu þessu“. Og ef að hinn aðilinn tekur ekki mark á því sem barnið segir að það taki þá næsta skref og tali við einhvern fullorðinn um málið.  Með þessu viljum við kenna börnum að umbera ekki þegar einhver kemur illa fram við þau og hjálpa þeim að finna leiðir við að takast á við það ef það gerist. Við munum kynna þetta fræðsluefni fyrir foreldrum þegar það verður tilbúið. 

Áfram munum við að sjálfsögðu halda áfram að bregðast við þeim málum sem koma upp og gera okkar besta að stoppa einelti og óæskilega hegðun og styðja alla aðila sem koma að þeim málum. Ég óska eftir sem mestri og bestri samvinnu við ykkur, bæði foreldrar og börn.  Baráttan gegn einelti er verkefni sem heldur áfram og vonandi verðum við alltaf flinkari og flinkari að takast á við það. 

Guðný Hildur Magnúsdóttir, félagsmálastjóri.

Erindi sem frá skólasetningu Grunnskóla Bolungarvíkur 20. ágúst 2013


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.