Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 22.3.2014 12:06:41 | Trausti Hafliðason / Viðskiptablaðið
Viðtal við vitlausan Guðmund

Þegar ég vann á Mogganum um aldamótin bað Matthías Jóhannessen ritstjóri mig að fara vestur á firði til að taka viðtal við Guðmund Einarsson smábátasjómann. Í sömu ferð átti ég að taka viðtal við fólk sem bjó í húsunum við Dísarland undir Traðarhyrnu en þar var gríðarleg snjóflóðahætta og er, þó snjóflóðavarnargarðar séu þar núna.

 

Eins og oft í blaðamennsku var fyrirvarinn skammur. Matthías hafði verið í sambandi við Guðmund og hann átti því von á mér. Matthías lét mig samt fá símanúmerið og bað mig að hringja hann þegar ég væri kominn vestur. Ég og Árni Sæberg ljósmyndari fórum saman.

 

Við fórum með flugi en okkar beið bílaleigubíll á Ísafirði. Þar sem við ókum af stað frá Ísafirði reyndi ég að hringja í Guðmund en hann svaraði ekki. Ég reyndi nokkrum sinnum en án árangurs. Það var svo sem allt í lagi þar sem ég og Árni höfðum fyrst mælt okkur mót vð fólkið sem bjó undir Traðarhyrnu. Við hugðumst hitta Guðmund daginn eftir.

 

Viðtalið við íbúana í Dísarlandi gekk vel. Þegar við kvöddum spurði ein konan mig hvort við værum á leiðinni beint í bæinn aftur. Ég sagði svo ekki vera því við stefndum að því að hitta Guðmund Einarsson smábátasjómann í bítið. Hún sagði það aldeilis tilviljun því Guðmundur væri einmitt eiginmaður hennar. Hún bauð okkur því að koma morguninn eftir og hitta hann. Eftir góðan svefn mættum ég og Árni galvaskir og Guðmundur tók vel á móti okkur. Við eyddum stórum hluta dagsins með honum og hann sýndi okkur smábátana, fiskvinnsluna og beitningaskúrana. Eftir afbragðsgóðan dag héldum við félagarnir í bæinn og var ég bara nokkuð ánægður með mig.

 

Þegar í Moggahúsið var komið hófust skrifin. Miðopna blaðsins hafði verið eyrnamerkt Guðmundi og smábátunum. Eftir að hafa hamrað síðasta stafinn á lyklaborðið tók ég upp símann og hringdi vestur. Ég vildi bara að þetta yrði allt kórrétt. Sæll Guðmundur, Trausti blaðamaður hér. Já sæll, ég er einmitt búinn að vera að bíða eftir þér hérna, ertu á leiðinni? Ég fann vanlíðanina magnast inni í mér. Ég kannaðist ekkert við röddina enda hafði ég alls ekki hitt og tekið viðtal við þennan Guðmund heldur allt annan Guðmund.

 

Eftir að hafa safnað smá kjarki gekk ég inn á skrifstofu til Matthíasar og sagði honum frá þessu. Hann sagðist á sínum ritstjóraferli aldrei hafa heyrt annað eins en mér létti aðeins þegar ég sá að hann brosti aðeins út í annað. Úr varð að ég skrifaði Guðmund Einarsson, smábátasjómann frá Bolungarvík inn í viðtalið við Guðmund Einarsson, smábátasjómann frá Bolungarvík. Enn þann dag í dag hef ég ekki þorað að fletta þessu viðtali upp.

 

Grein úr Viðskiptablaðinu  - höfundur: Trausti Hafliðason blaðamaður


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.