Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 13.11.2014 00:51:22 | Jónas Guðmundsson
Eflum bæjarbraginn og aukum samheldni

Þessi fyrirsögn er fengin úr grein Einars K. Guðfinnssonar, sem birtist á dögunum á vef hans www.ekg.is  og víðar, um mikið gildi hverfiskráa (pöbba) fyrir bresk þorp. Að minni hyggju gat fyrirsögnin allt eins átt við um gildi þess fyrir Bolungarvík og aðra svipaða staði að þar væri góður samastaður og vettvangur fyrir fólk til að eiga samfundi og auðga þannig samfélagið.  Betri vettvangur fyrir slíkt í Bolungarvík en Lionsklúbbur Bolungarvíkur er vandfundinn líkt og raunar aðrir Lionsklúbbar vítt og breitt um landsbyggðirnar.

 

Það leit illa út með starf klúbbsins þegar fyrir lá að Ragna og Jón Bjarni, vertar í Einarshúsi, ætluðu að færa sig um set og hafa vetursetu á Reykjavíkursvæðinu og loka Einarshúsi á meðan. Sem betur björguðu þau Sigurbjörg og Halldór málum og ætla að halda starfseminni  gangandi.  Um leið og þeim er óskað velfarnaðar minnir Lionsklúbbur Bolungarvíkur á sig og starf sitt en fyrsti fundur vetrarins verður í Einarshúsi  laugardaginn 15. nóvember nk.  Að jafnaði hafa fundir í klúbbnum verið haldnir  einu sinni í mánuði yfir vetrartímann í hádeginu á laugardögum og eru flestir opnir þeim sem áhuga hafa.

 

Nú þarf klúbburinn að spýta í lófana ef hann á að ná að dafna og leitar að nýjum félögum, körlum og ekki síður konum, á öllum aldri til að halda starfinu áfram. Klúbburinn er ekki lokaður fyrir sérvalda heldur opinn öllum sem áhuga hafa og vilja láta gott af sér leiða. Hann er kjörinn vettvangur fyrir alla með jákvætt hugarfar til að blanda geði við gott fólk, vera afl til góðra hluta, stuðningur og hvatning við þá sem hafa eitthvað að segja eða gera sem á erindi við aðra og síðast en ekki síst að þroska menn til félagsstarfa í þágu samfélagsins, allt eftir því sem hentar hverjum og einum. Á vegum Lionsklúbbsins hefur í gegn um tíðina verið unnið að ýmsum góðum málum í þágu samfélagsins hér, sem ekki hafa öll farið hátt.

 

Fjölmargir Lionsklúbbar eru um landið, hver með sín sérkenni. Auk klúbbsins í Bolungarvík eru þrír klúbbar á Vestfjörðum, þ.e. á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík.  Á vettvangi Lions má skapa tengslanet  um nánast allan heim. Héðan hafa ungmenni átt kost á ferðum til útlanda þar sem allt upphald og oftast einnig ferðir eru þeim að kostnaðarlausu. Nú í sumar fór t.d. 17 ára Bolungarvíkurmær til Finnlands í þrjár vikur. Var hún afar  ánægð með ferðina og kynntist fjölskyldu þar og ungmennum hvaðanæva að frá öðrum löndum Evrópu sem hún heldur enn góðum tengslum við.

 

Allir eru velkomnir á fundinn á laugardag en þar verður boðið upp á kjötsúpu að hætti hússins gegn vægu gjaldi. Auk stuttra almennra fundarstarfa koma Anna Sigríður Jörundsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir og segja frá uppbyggingu verksmiðju fyrir fiskiolíu hér í Bolungarvík og að því loknu verður skrafað og skeggrætt einhverja stund og spáð í starfið framundan.

 

Ég vil hvetja alla til að vera í sambandi og ekki væri verra að vita fyrirfram ef einhver vill koma, en það má tilkynna í netfangið samgongur@samgongur.is , sem er netfang Samgöngufélagsins.

 

 

Jónas Guðmundsson, formaður.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.