Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Pistlar | 16.10.2015 07:00:00 |
Að lifa með lesblindu

Ásgerður Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur í Bolungarvík flutti áhrifamikið erindi á málþinginu "Allir læsir" sem haldið var í Grunnskóla Bolungarvíkur fyrir ári síðan eða þann 18. október 2014.

 - - - - - - - - - - - 

Komið þið sæl.

 

Ég heiti Ásgerður Magnúsdóttir og ég er lesblind. 

 

Þegar ég var beðin um að koma hingað og segja frá reynslu minni af því að fara í gegn um skólakerfið með lesblindu þá fannst mér ég nú ekki vera rétta manneskjan til þess, það er svo langt síðan ég var í Grunnskóla og svo margt hefur breyst síðan þá.

 

Ég tók þó ákvörðun um að koma hingað og segja sögu mína ef það gæti hjálpað einhverjum. Hvort sem það væri hvatning fyrir kennara eða foreldra að afla sér frekari upplýsinga um lesblindu, eða það gæti hjálpað lesblindum nemendum. Ef það opnar hug eða hjarta einhvers sem byrgir inni erfiða reynslu vegna lesblindu eða annarra erfiðleika í skóla. Já ef saga mín getur orðið til að hjálpa einum einstakling með lesblindu til frekari dáða þá er árangri náð. 

 

Hvað er annars  lesblinda?

 

Þegar talað er um lesblindu eru ýmist notuð orðin lesblinda, dyslexia eða sértækir námsörðugleikar.  Ég ákvað þó að nota mest orðið lesblinda.

Skilgreining lesblindu:

Dyslexia er sértækur námsörðugleiki af taugalíffræðilegum uppruna. Einkennin birtast í erfiðleikum með nákvæman, sjálfvirkan lestur og slakri færni í stafsetningu og umskráningu. Erfiðleikana má í flestum tilfellum rekja til vanda við úrvinnslu málhljóða sem er ekki í samræmi við aðra vitsmunalega hæfni einstaklingsins og koma fram þrátt fyrir vandaða lestrarkennslu. Dyslexía getur leitt til erfiðleika með lesskilning og ónógrar lestrarreynslu, sem aftur getur komið niður á þróun orðaforða og öflun þekkingar í gegnum lestur (http://lesvefurinn.hi.is/lesblinda ).

 

Lesblinda var fyrst uppgötvuð árið 1896 af breskum eðlisfræðing að nafni James Kerr. Hann tók eftir því að sumir nemendur áttu í erfiðleikum með lestur þótt þeir hefðu fulla sjón (Björgvin Ólafsson, e.d.). Einkenni lesblindu geta verið margvísleg en birtingarmynd hennar kemur fram við lestur, skrift, talnavinnu, stjórn fín- og grófhreyfinga, tímastjórnun og samskipti við annað fólk. Veikleikar tengdir einbeitingu, athygli, úthaldi og skipulagi, ákveðnir minniserfiðleikar, t.d. hvað snertir minni á margföldunartöfluna og skammtímaminni á tölur, sjónrænir úrvinnslu- og áttunarerfiðleikar og fínhreyfi-, samhæfingar- og skipulagserfiðleikar í meðferð skriffæris. Um er að ræða að öðru leyti eðlilega einstaklinga sem sýna engin önnur merki huglægrar eða líkamlegrar fötlunar sem skýrt gæti afmarkaða námsörðugleika (Björgvin Ólafsson, e.d.; doktor.is, e.d.: Jónas G. Halldórsson, e.d. a; Þóra Ingimundardóttir, 2009).

 

Það er talið að þeir sem haldnir eru lesblindu séu í flestum tilfellum með meðalgreind eða yfir. Þeir búa gjarnan yfir sérstökum hæfileikum, hafa hæfileika til að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, eru skapandi í hugsun. Þeir virðast búa yfir meiri verklagni, eru listrænni, músíkalskari og hafa hæfileika til að sjá heildarmynd hlutanna (Björgvin Ólafsson, e.d.; Jónas G. Halldórsson, e.d. b).

 

Árið 1999 voru birtar niðurstöður rannsóknar sem sýndi ótvírætt að heili lesblindra starfaði öðruvísi en annarra. Rannsóknin gekk út á það að mældar voru svaranir í heilabylgjum nýfæddra barna við mismunandi hljóðum og með þessum mælingum þóttust vísindamenn geta sagt til um hvort barnið myndi verða lesblint þegar það stækkaði. Rannsóknin var gerð á 186 börnum og vísindamennirnir gátu sagt til um lesblindu í 22 tilfellum af 24. Börnin voru mæld 36 klukkustunda gömul og síðan var fylgst með þeim þar til þau voru átta ára. Þá var hægt að sjá hverjir urðu lesblindir. Á sama ári tókst norsku rannsóknarteymi að einangra litning sem stjórnar lesblindu. Mönnum hafði lengi grunað að lesblinda væri á einhvern hátt arfgeng og með þessari rannsókn virðist enginn vafi leika á því (Björgvin Ólafsson, e.d.).

 

En ef við skoðum nú mína reynslu:

Þegar ég var að verða sex ára eða haustið 1979 hófst skólaganga mín í Grunnskólanum í Bolungarvík, mamma fylgdi mér í skólann fyrsta daginn. Ég var spennt eins og gengur og gerist, í nýjum fötum og með nýja skólatösku, alveg grunlaus um það sem á eftir kom. 

 

Mamma hafði aðeins reynt að kenna mér stafina árið áður, það hafði ekki gengið sérlega vel og henni ráðlagt að vera ekki að kenna mér, þar sem öðrum aðferðum væri beitt í lestrarnám þá en hún hafði lært. Eftir að í skólann kom gekk mér áfram illa að læra að lesa, fyrst var því haldið fram að það væri vegna þess að ég væri ringluð vegna misjafnra aðferða sem verið var að beita við lestrarnám mitt heima og í skólanum. 

 

Ég var mjög hljóðvillt og átti mjög erfitt með að læra t.d. muninn á b og d, o og ö, g og k og svona get ég haldið áfram að telja. Mér gekk ylla að skilja þetta fyrirbæri sem lestu er og komst engan vegin upp á lag með það, stafsetning og skrift var þó enn verra, og ég víxlaði oft tölunum í stærðfræðinni.  Þess vegna fékk ég á mig stimpil, já ég var tossi, eða heimsk eða a.m.k. ómöguleg. Ég var oft tekin út úr bekknum og send í sérkennslu þar sem ég stóðst ekki samanburð við jafnaldra og mér fannst það hræðilega niðurlægjandi, sérstaklega þar sem það var ekkert leyndarmál í bekknum hvers vegna. Eins var ég gerð öðruvísi þegar kom að lestrarprófum, þegar aðrir nemendur fengu blað til að æfa sig að lesa fallega fékk ég ekkert, þar sem ég átti að taka öðruvísi próf. Þetta var í 6. bekk og þá hafði ég ekki  enn náð þeim hraða sem þurfti til að taka próf eins og hinir.  Ég sat og horfði upp í loftið á meðan hinir æfðu sig með blaðið sitt, síðan fór einn og einn nemandi inn í prófið í öfugri stafrófsröð, ó hvað ég óskaði þess þá að heita Þóra.  Við fengum að heyra í foreldraviðtölum „hún er bara heimsk og gerir eins og hún getur“,  „Hún er bara tossi eins og svo margir í hennar ætt“ eða „hún er draumóramanneskja og eyðir allri orkunni í dagdrauma“.

 

Skoðum þetta aðeins; það eru komin 30 ár síðan þetta var. Þekkingin var ekki fyrir hendi, það einfaldlega vissi engin hvað fyrirbærið Lesblinda var á þessum tíma. Mamma spurði reyndar einhvern tíman í skólanum hvort það gæti verið að ég væri með lesblindu eins og Bubbi Morteins, hún hafði lesið um það. En nei það var ekki til, það hafði enginn annar heyrt um það.  Ég varð síðan krakkinn sem tíndist í skólakerfinu, ég varð ósýnileg – stillta stelpan sem sat út í horni og enginn sá. Ég lærði ekki neitt og komst upp með það, nema í smíði og myndmennt. Þar storkaði ég kennurunum mínum, því þar lá áhugi minn og hæfileikar.  Ég reyndar lærði líka ung að nota eyrun þar sem ég ólst upp við að mamma og amma sögðu okkur krökkunum mikið af sögum, svo ég þjálfaðist í að hlusta. Þannig lærði ég reyndar í skólanum það sem sagt var. Ég var til dæmis mjög góð í íslenskri málfræði og hafði góðan orðskilning, þó ég væri afleit í lestri og stafsetningu. 

 

Ég er sú sem sér myndrænt og í þrívídd og vinn með höndunum, þar liggja hæfilekar mínir eins og svo margra „tossana“ í ættinni minni. Ég er nefnilega komin af miklu handverksfólki og listamönnum sem jafnvel hafa einnig verið lesblindir. Þar sem lesblinda er ættgeng. 

 

Síðasta árið mitt í grunnskólanum fór mér þó að ganga eitthvað betur og áhuginn vaknaði aðeins fyrir náminu. Þá hafði ég líka fengið mikla æfingu í lestri þar sem ég var vinalaus og gerði mjög lítið annað á unglingsárunum en að lesa „sorglegar sögur“(ástasögur).  Ég náði samræmdu prófunum og ákvað að fara í Menntaskólann á Ísfirði.  Ég ætlaði mér samt aldrei að taka stúdentspróf heldur aðeins taka grunnnámið og fara í sjúkraliðanám eða eitthvað iðnám sem ekki var í boði hér.   

 

Í Menntaskólanum gekk mér bara nokkuð vel, ég var kominn í nýtt umhverfi með nýju fólki og leið bara ágætlega. Þangað til liðið var á fyrstu önnina, þá var stöðupróf í stafsetningu – ég féll illa. Kennarinn sem kenndi mér þarna lét mig nú vita það fyrir framan allan bekkinn að „manneskja eins og ég“ hefði ekkert í skóla að gera og hún skildi sjá til þess að ég næði ekki áfanganum. Ég fór grenjandi heim þennan dag og sagði mömmu að ég ætlaði aldrei í skólann aftur. Mamma hringdi í skólameistara menntaskólans og lét hann vita af þessu og spurði hvort ekki væri hægt að fá gert lesblindupróf. Hann taldi ekki þörf á því þar sem ég hefði ekki komist inn í skólann ef um slíka fötlun væri að ræða. Ég fékk þá það tiltal frá móður minni sem breytti hugarfari mínu;

 

Já ég skildi sko sýna þessum kennara og skólameistara að ég gæti þetta. Ég skildi sýna þeim öllum, öllum sem höfðu einhvern tíman sagt mig heimska, að ég gæti það sko víst, ég væri ekki heimsk eða ómöguleg.

 

Ég fékk fleira en lesblindu og listræna hæfileka í vöggugjöf, ég fékk líka óhóflegan skammt af þrjósku. Ég nýtti þá þrjósku, lagði mig fram og lærði þegar ég var ekki að vinna.  Ég náði öllum prófum, og þessi tiltekni kennari átti frekar bágt þegar kom að prófsýningu og málfræðihluti íslenskuprófsins var upp á 10 og ritgerðin bara nokkuð góð – leiðrétt að sjálfsögðu. Já ég náði áfanganum þrátt fyrir stafsetninguna.

 

Ég stóð mig nokkuð vel í menntaskólanum án nokkurra sérúrræða frá skólanum. Ég átti að vísu kennara í nánasta umhverfi sem ég gat leitað til ef ég þurfti aðstoð.  Ég tók að vísu hlé frá námi og flutti til Keflavíkur og síðan til Bandaríkjanna, kom svo heim og kláraði sjúkraliðaprófið og stúdentsprófið á sama tíma. Við það var ég komin á rangt ról miðað við bekkjakerfið og þurfti þess vegna að taka það sem kallaðist P-áfanga, ég þurfti ekki að mæta í alla tíma þar sem stundum þurfti ég að vera í tveimur kennslustundum í einu. Þetta krafðist mikils skipulags að minni hálfu og það hef ég viðhaft í mínu námi síðan. Vinkona mín gerir stundum grín að mér fyrir skipulagið mitt á námsefninu en þannig virkar það betur fyrir mig.

 

Eftir menntaskóla fór ég beint í Háskóla íslands og hugðist læra sálfræði. Það var dálítið sjokk fyrir mig, við vorum um 150 skráð í námið og kennt var í stærsta salnum í háskólabíó.  Eftir um það bil 2 mánuði í skólanum sá ég ekki fram á að ég gæti komist í gegn um þetta, ég var og er enn seinlæs, ég les í hljóði á sama hraða og flestir lesa upphátt. Námsefnið hrúgaðist upp og ég komst ekki yfir það. Það var mikið talað um að prófin yrðu erfið til að fella sem flesta þar sem þessi fjöldi gæti ekki haldið áfram, skólin réði ekki við það. Það var síað út með þungum prófum. Það kom að því að ég gafst upp. En áður en ég hætti fór ég til námsráðgjafa í háskólanum, hún ráðlagði mér ef ég hefði grun um að ég væri lesblind ætti ég að fara í greiningu og fá úr því skorið. Hún mælti með að ég færi til Jónasar G. Halldórssonar sálfræðings. Ég fór að ráðum hennar og fór til hans í greiningu  og það var peningum vel eitt. 

 

Ég mætti á skrifstofu Jónasar seinnipart dags í lok nóvember árið 1995, þá 22 ára gömul. Fyrst tók hann alls konar próf sem tók um það bil tvo klukkutíma, tveimur dögum seinna var síðan skilafundur.  Þar opnuðust augu mín og ég fékk góða útskýringu á svo mörgum hlutum. Fyrst og fremst fékk ég staðfestingu á að ég væri ekki heimsk, reyndar var ég með greind í efstu mörkum meðalkúrfunar.  Það komu útskýringar á af hverju ég rugla saman stöfum, les jafnhratt í hljóði og upphátt, get ekki lært muninn á hægri og vinstri, villist auðveldlega og næ illa innihaldi erfiðs texta þegar ég les hann sjálf. Það fer einfaldlega of mikil orka í að lesa. Ég víxla stöfum hvort sem er bókstöfum eða tölustöfum. 

 

Þegar þarna var komið var ég hætt í skólanum, fór að vinna og lífið tók við. Ég hugðist fara aftur í skóla og reyna að læra hjúkrunarfræði næsta vetur. Það varð þó breyting á því, ég gerði það 8 árum seinna.

 

Í millitíðinni tók ég einn vetur í grunndeild tréiðna við framhaldsskóla Vestfjarða, þar blómstraði ég. Ég var bara í verklegum áfanga með örlitlu bóklegu, þar sem ég var búinn með stúdentsprófið og þess vegna flest það bóklega sem krafist var. Þetta var ég bara að gera fyrir sjálfa mig, ekki af því að ég ætlaði að fá neitt út úr því. Ég var að vinna á kvöldin og einkasonurinn kominn í skóla svo ég var ein heima á morgnana og dreif mig því í þetta nám. Þetta var góður skóli, ég hafði frábæran kennara sem hvatti mig mikið og fussaði þegar ég sagðist ætla að læra hjúkrunarfræði. Hann vildi sjá mig í hönnun. Þetta var yndislegur vetur. Því miður var ekki áframhald á þessari kennslu fyrr en nokkrum árum seinna þegar þeir fóru aftur af stað með grundeildina á Ísafirði. 

 

Snemma ársins 2003 fór ég ásamt hópi kvenna hér fyrir vestan, að reyna að fá Háskólann á Akureyri til að vera með fjarnám í hjúkrunarfræði á Ísafirði. Það hafði einn hópur útskrifast hér fyrir vestan árið áður. Við vorum 18 konur sem sendum undirskriftalista og í kjölfarið umsóknir og einkunnir til Háskólans og úr varð að fjarkennt yrði til Ísafjarðar haustið 2004. Það heltist nú eitthvað úr lestinni áður en námið hófst. Við byrjuðum 8 þetta haust og sátum tíma í fræðslumiðstöð vestfarða á Ísafirði í gamla íshúsfélaginu. Ég fékk fjögra mánaða launalaust leyfi í vinnunni til að reyna við langþráðan draum.

 

 Fyrstu vikuna í náminu var nýnemavika þar sem við þurftum að mæta  norður. Ég notaði tækifærið og pantaði tíma hjá námsráðgjafa og fór með skýrsluna mína um greininguna. Í þessum tíma skoðaði konan skýrsluna mína, horfði á mig og sagði „hvernig ætlar þú að fara að þessu, þú getur þetta aldrei“.  Jæja það kom upp í mér gamla þrjóskan, „ég skal sko sýna henni...“.  Ég fékk þó lengri prófatíma eða 10 mínútna viðbót við hvern klukkutíma sem próftíminn átti að vera.

 

Ég viðurkenni að það kom stundum upp efi í huga mínum um að ég gæti þetta. Það voru um 90 manns sem hófu námið en aðeins þeir 34 sem fengu hæðstu einkunnirnar fengu að halda áfram eftir áramótin. Í einni kennslustundinni voru allir nemendurnir látnir kynna sig og segja af hverju þeir völdu hjúkrunarfræði. Mér fannst annar hver einstaklingur segjast vera að reyna í annað og sumir í þriðja sinn. Ég fékk áfall og hugsaði með sjálfri mér hvað er ég að gera hér, er ég að undirbúa mig fyrir að reyna aftur næsta vetur?

 

 Ég er vel gift og maðurinn minn tók á sig nánast alla ábyrgð á heimili og barni, ég svo gott sem flutti inn í fræðslumiðstöð. Maðurinn minn var mjög hvetjandi og studdi vel við bakið á mér. Ég lærði og lærði. Byrjaði alltaf kl 8 á morgnana og lærði fram á kvöld. Ég get ekki sagt að ég hafi átt neinn frítíma þessa fyrstu önn. Ég lagði allt í þetta, hópurinn hér fyrir vestan var mjög góður og við héldum vel hópinn og hjálpuðumst mikið að. Við ætluðum allar í gegn.

 

Ég eignaðist nýjan vin, já tækninni hefur fleygt fram á þeim tíma síðan ég fór fyrst í háskóla, ég eignaðist lítið upptökutæki. Ég tók upp hvern einasta fyrirlestur og hlustaði á hann aftur og pikkaði upp í tölvuna mína. Þannig lærði ég best með því að hlusta og hlusta aftur. Einnig átti ég tölvu með stafsetningapúka, sem benti mér á stafsetningavillurnar mínar. Ég var með orðabók í tölvunni sem einfaldaði og flýtti fyrir lestri námsefnisins.  Ég náði öllum prófum með góðri einkunn þennan örlagaríka desembermánuð, ég fékk að vísu taugaáfall í síðasta prófinu þar sem ég fór út úr miðju prófi og ældi eins og múkki, en fékk að fara aftur inn og klára prófið. Ég hafði þá líka varla sofið í heilan mánuð.

 

Ég fékk að vita það 31. desember að ég var ein af þeim 34 sem fengu sæti áfram í hjúkrunarfræðináminu við Háskólann á Akureyri þetta árið. Ég fékk síðar að vita að ég var númer 26 inn í námið og gat ekki verið annað en stolt. Það hafði að vísu fækkað aðeins í hópnum okkar hér fyrir vestan og það fannst mér leitt, en við héldum áfram sex.

 

 Í gegn um þetta fjögurra ára nám fór ég síðan með þrotlausri vinnu, féll aldrei í nokkru prófi og útskrifaðist vorið 2008 með það sem kallað er fyrstu einkunn þ.e. yfir 7,5 í meðaleinkunn. Nú kann einhver að segja – hún er ekkert lesblind fyrst hún getur þetta.

 

En jú lesblind er ég og verð alltaf en með mikilli og góðri þjálfun er hægt að komast áfram þrátt fyrir lesblindu. Ef maður er vinnusamur og æfir sig þá þjálfast maður og nær betri tökum á lestrinum, ég geri enn stafsetningarvillur og þá sérstaklega ef ég er þreytt.  Með því að nýta mér tæknina og þekkja styrkleika mína eins og það að meira situr eftir af því sem ég heyri en ég les. Þá hef ég komist þokkalega frá því sem ég hef tekið mér fyrir hendur.  Ég hef ekki nýtt neitt af þeim úræðum sem talin eru góð fyrir lesblinda, eins og leir, litaðan pappír eða filmu, hljóðbækur eða hvað það nú allt er, en ég fékk lengri próftíma og það hjálpaði mér mikið. Ég passa að námsefnið mitt sé skipulagt og ég sé fljót að finna það sem ég leita að, nota upptökur og leiðréttingarforrit.

 

Nú er ég kominn í meistaranám í hjúkrunarfræði með áherslu á sálræn áföll, ofbeldi og áfallastreitu. Tækni í fjarnámi hefur orðið enn betri en hún var þegar ég var að læra hjúkrun og við mættum í tíma í fræðslumiðstöðinni og fylgdumst með kennslunni á sjónvarpsskjá á sama tíma og kennt var á Akureyri. Núna er kennslustundin tekin upp og ég hef aðgang að upptökunum í tölvunni minni og get hlustað á þær þegar það hentar mér. Námið er fróðlegt en það er vinna og ég er enn að komast vel af stað og finna agann minn. Ég hef góðan stuðning heima sem er svo mikilvægur, maðurinn minn hefur tekið við uppvaskinu og að lesa kvöldsöguna fyrir dætur okkar. Ég nefnilega tók þá afstöðu áður en ég eignaðist mitt fyrsta barn að ég skildi lesa fyrir þau á hverju kvöldi og það höfum við hjónin gert síðan elsta barnið var 3. mánaða. Nú sér maðurinn minn um þetta svo ég hef kvöldin til að læra.

 

Já ég er lesblind eins og áður sagði en ég hef hinsvegar komist að því að ég get það sem ég ætla mér, það er BARA VINNA.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.