Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Munnmælasögur | 31.3.2008 | Kristján Jónsson
Bolvískar munnmælasögur nr. 3

 

Þessai ágæta bolvíska munnmælasaga átti sér stað í Víkinni fyrir mörgum árum síðan þegar faðir minn, Jón Friðgeir, var formaður sóknarnefndar. Gunnar Hallsson, faðir Gumma vinar míns, var um tíma meðhjálpari í kirkjunni og vann auk þess í búðinni hjá pabba. Einhverju sinni háttar svo til að foreldrar mínir ákáðu að skella sér út fyrir landsteinana og var þeim sem þetta ritar kippt með. Systkini mín Magga og Einar bjuggu fyrir sunnan og því var Ásgeiri Þór ekkert að vandbúnaði að halda eina af sínum margfrægu Gleðipinnaveislum á Traðarstígnum. Ásgeir var að vinna með Gunnari í búðinni og tók meðhjálparinn eftir því hvernig lundin léttist hjá Ásgeiri eftir því sem nær dró helginni. Þegar laugardagskvöldið rann upp er Ásgeir í þann mun að fylla húsið af fólki þegar Gunnar hringir bjöllunni hjá honum um tíu leytið. Gunnar segir Ásgeiri að hann sé bara að afhenta honum lyklana að kirkjunni, því hann sé að fara úr bænum og að Jón Friðgeir hefði sagt sér að Ásgeir myndi hlaupa í skarðið fyrir hann í messunni morguninn eftir. Ekki var mjög hátt risið á Ásgeiri við þessar fréttir og umlaði hann við Gunnar að gamla rörið hefði nú ekki minnst á þetta við hann. Gunnar sagði hins vegar að málið væri úr sínum höndum og að presturinn reiknaði með Ásgeiri við fyrsta hanagal morguninn eftir. Eftir þetta samtal fer Ásgeir í snarhasti í símann til þess að reyna að ná sambandi við föður okkar en gekk illa þar sem hann var ekki staddur á hótelinu (þetta er vitaskuld fyrir tíma GSM). Síðar um kvöldið, náði Ásgeir loks sambandi við pabba. Pabbi kannaðist að sjálfsögðu ekkert við málið enda var Gunnar ekkert á leiðinni úr bænum heldur hafði einungis séð sér leik á borði til þess að hrista aðeins upp í Ásgeiri. Er partyhaldarinn hringdi í meðhjálparann til þess að fá þetta staðfest, þá mun Gunnari hafa verið mun betur skemmt yfir þessu spaugi en Ásgeiri.

 

 


 

Sagnahefðin hefur í gegnum tíðina verið rík á meðal Víkara sem og annara Vestfirðinga. Kristján Jónsson hefur á undanförnum árum skrifað sögur á bloggsíðu sína sem hann hefur kallað Munnmælasögur. Víkari.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta nokkrar af þessum sögum hér á síðunni en þær hafa allar birst áður á www.bolviskastalid.blogspot.com og eru merktar eins og þær heita á bloggsíðu Kristjáns. Vonandi hafa lesendur Víkara ánægju af þessu enda er þetta einungis til gamans gert. Lifi sagnahefðin!
Ef einhverjar athugasemdir vakna vegna þessa er hægt að senda Kristjáni póst á kris@vikari.is .


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.