Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Munnmælasögur | 21.12.2008 | Kristján Jónsson
Bolvískar munnmælasögur nr. 7

 

Fyrir mörgum árum var Trausti Salvar Kristjánsson, frændi minn, í vinnu hjá Hagkaup, og var hann settur í karladeildina í verslun þeirra í Kringlunni, enda maðurinn mikill smekkmaður. Fór hann fljótlega að afgreiða í skódeildinni, en Trausti hefur um dagana verið þekktur fyrir allt annað en táfýlu. Hins vegar er Trausti ekkert sérlega mannglöggur, en hefur þó nokkra trú á sjálfum sér í þeim efnum sem öðrum. Á hann það því til að giska á hverjir hinir og þessir eru sem á vegi hans verða. Einn daginn bar það til, að Trausta fannst hann þekkja gráhærðan mann, er gekk framhjá skódeildinni þar sem Trausti var við afgreiðslu. Braut hann nokkuð heilann um það hver maðurinn væri, en hann taldi sig nokkuð öruggann um að þetta væri andlit úr heimabæ hans Bolungarvík. Eitthvað stóð þetta samt í honum, en Trausti hafði flutt frá Bolungarvík einhverjum 2 árum áður. Eftir stutta umhugsun taldi Trausti sig vita að þarna væri á ferðinni Sverrir sem lengi var verkstjóri hjá bænum. Trausti telur í sig kjark og vindur sér upp að þessum manni, og spyr hvellhátt: "Ert þú ekki maðurinn hennar Stínu gangó"? Ekki vildi þessi maður kannast við það, og því næst spurði Trausti: "En þú ert frá Bolungarvík, er það ekki"? Maðurinn fullyrti hins vegar að þaðan væri hann ekki og þar hefði hann aldrei búið. Þá verður Trausti undrandi og spyr manninn að nafni, sem svarar: "Ég heiti Pámi Gunnarsson"!! Var þar poppstjarnan sjálf ljóslifandi kominn og var hann ekki parhrifinn af þessari uppákomu, enda ógleymanlegur öllum sem fylgdust með sigurför Gleðibankans hér um árið.

 


 

Sagnahefðin hefur í gegnum tíðina verið rík á meðal Víkara sem og annara Vestfirðinga. Kristján Jónsson hefur á undanförnum árum skrifað sögur á bloggsíðu sína sem hann hefur kallað Munnmælasögur. Víkari.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta nokkrar af þessum sögum hér á síðunni en þær hafa allar birst áður á www.bolviskastalid.blogspot.com og eru merktar eins og þær heita á bloggsíðu Kristjáns. Vonandi hafa lesendur Víkara ánægju af þessu enda er þetta einungis til gamans gert. Lifi sagnahefðin!
Ef einhverjar athugasemdir vakna vegna þessa er hægt að senda Kristjáni póst á kris@vikari.is .


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.