Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Munnmælasögur | 23.6.2009 | Kristján Jónsson
Bolvískar munnmælasögur nr. 36

 

Þessi saga átti sér stað í Reykjavík fyrir tæpum áratug síðan og er af Einari Kristni frænda mínum. Einhverju sinni voru Einar og Sigrún á leið í sund í Laugardalslaugina þegar þau verða fyrir því að bílaleigubíll keyrir aftan á þau. Þau stíga út úr bílnum og ræða við manninn sem talaði engilsaxnesku og var afskaplega afslappaður yfir þessu. Spurði bara hvort þau nenntu ekki að segja bílaleigunni frá þessu fyrir sig. Einari féll þessi framkoma nokkuð þungt og spurði manninn á sinni lærðu Essex-ensku af hverju í ósköpunum hann ætti að gera slíkt. Hann þekkti hvorki haus né sporð á manninum. Á þessum tímapunkti finnur Einar að Sigrún gefur honum blíðlegt olnbogaskot eins og hún gerir gjarnan þegar henni finnst Einar ekki vera að haga sér skikkanlega. Einar lét sér fátt um finnast og hugsaði sem svo að hann væri búinn að vera manna kurteisastur alla sína ævi, og ætlaði ekki að láta þennan útlending komast upp með neinn moðreyk. Hann skipaði því Bretanum að hitta sig á bílaleigunni sem hann hefði leigt bílinn hjá. Á leiðinni þangað spyr Sigrún hvort Einar hafi virkilega ekki þekkt manninn. "Nei" svaraði Einar. "Kannaðistu ekkert við hann?" spurði hún. Einar vildi ekki láta svipta sig stoltinu og muldraði eitthvað að hann hefði kannast eitthvað við sauðasvipinn á honum. "Þessi maður er uppi um alla veggi í herberginu hjá honum Guðfinni," benti Sigrún honum á. Var þá þarna kominn enginn annar en söngvari Blur, Damon Albarn, sem Guðfinnur sonur þeirra hafði tekið í dýrðlingatölu í Hvassaleitinu nokkru fyrr. Það var víst fremur lágt risið á þingmanninum þegar á bílaleiguna var komið og hann hrökklaðist til Bretans til þess að biðja hann um eiginhandaráritun fyrir frumburðinn. Þess einnig geta að Guðfinnur var náttúrulega lukkulegur með eiginhandaráritunina en þar hafði Damon skrifað: ,,To Gudfinnur. Sorry about your dads car. Cheers Damon.“

 

 


 

Sagnahefðin hefur í gegnum tíðina verið rík á meðal Víkara sem og annara Vestfirðinga. Kristján Jónsson hefur á undanförnum árum skrifað sögur á bloggsíðu sína sem hann hefur kallað Munnmælasögur. Víkari.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta nokkrar af þessum sögum hér á síðunni en þær hafa allar birst áður á www.bolviskastalid.blogspot.com og eru merktar eins og þær heita á bloggsíðu Kristjáns. Vonandi hafa lesendur Víkara ánægju af þessu enda er þetta einungis til gamans gert. Lifi sagnahefðin!
Ef einhverjar athugasemdir vakna vegna þessa er hægt að senda Kristjáni póst á kris@vikari.is .

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.