Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Munnmælasögur | 2.3.2010 | Kristján Jónsson
Bolvískar munnmælasögur nr. 60

Maður er nefndur Viktor Hólm Jónmundsson og er fermingarbróðir síðuhaldara. Viktor er reyndar aukaleikari í sögunni þó skemmtilegur sé. Viktor var um tíma einn dáðasti sveitaballarótari landsins en þegar meiri ró færðist yfir hann fór hann að taka að sér rólegri tónleikagigg. Á einhverju tímabili var hann bandinu Nýrri danskri innan handar og er þessi saga gerðist, stóðu tónleikar í Þjóðleikhúskjallaranum fyrir dyrum. Þá var ungur frændi hans, Aron Þórarinsson, staddur í bænum og taldi Viktor að stráksi myndi hafa gaman að því að hanga utan í sér um kvöldið. Fara þeir frændur út í bæ og sækja Björn Jörund Friðbjörnsson, bassaleika bandsins, sem er annálaður spéfugl. Björn fer fljótlega að spjalla við Aron og innir Björn hann eftir því hvað hann sé að vinna við. ,,Ég er að beita“ svarar Aron. Björn þagði um stund og vissi ekki alveg hvernig hann ætti að haga næstu spurningu en lét ekki slá sig út af laginu: ,,Og hvernig gengur það?“ spyr Björn. ,,Ja ég er kominn í sjö bala á dag“ svarar Aron stoltur. Aftur líður smástund án þess að Björn svari en sýnir engin svipbrigði. Að svo búnu spyr Björn: ,,Það mætti þá segja að þú sért alveg sjö bala maður“ ? Á þessum tímapunkti fór Viktori að verða verulega skemmt yfir þessu forvitnilega spjalli.

Næst segir frá þremmenningunum þegar þeir þramma inn í leikhúskjallarann. Þar hitta þeir fyrir hljómborðsleikarann Jón Góða Ólafsson. ,,Hver ert þú“? spyr hann Aron. Björn er hins vegar fyrstur til svars og segir ákveðið: ,,Þetta er sjö bala maðurinn“ !! Jón verður á svipinn eins og hann hafi séð gönguskíðamann í Sahara og kom ekki upp orði. Björn bætir þá við: ,,Hann er að beita maður“ ! Jón hugsar sig um góða stund en segir svo: ,,Beita ??? Bjössi, ég er frá Reykjavík.“

 


 

Sagnahefðin hefur í gegnum tíðina verið rík á meðal Víkara sem og annara Vestfirðinga. Kristján Jónsson hefur á undanförnum árum skrifað sögur á bloggsíðu sína sem hann hefur kallað Munnmælasögur. Víkari.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta nokkrar af þessum sögum hér á síðunni en þær hafa allar birst áður á www.bolviskastalid.blogspot.com og eru merktar eins og þær heita á bloggsíðu Kristjáns. Vonandi hafa lesendur Víkara ánægju af þessu enda er þetta einungis til gamans gert. Lifi sagnahefðin!

Ef einhverjar athugasemdir vakna vegna þessa er hægt að senda Kristjáni póst á kris@vikari.is

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.