Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Gamalt og gott | 4.6.2008 | Morgunblaðið
Fóru aldrei til sængur nema byssan væri við rúmstokkinn

Víð lifðum í eitt ár á því sem náttúran gaf af sér, einu utanaðkomandi aðföngin voru, rúgmjöl, hveiti o.þ.h. Undir vorið var aðeins súrmatur og smávegis af saltfiski eftir. Ég man enn óbragðið í munni mér, ég gat alls ekki haldið þessari einhliða fæðu niðri lengur. Ég skil líka vel nú, hversu móður minni leið illa, vitandi af okkur hér aleinum og mér bálóléttri, aðeins 17 ára gamalli.- Síðari hluta vetrar var hafís landfastur. Við fórum aldrei til sængur, án þess að fullvissa okkur um að byssan væri fullhlaðin við rúmstokkinn. Við óttuðumst komur vágestsins, ísbjarnarins.

Sú sem þetta mælir er Hulda Eggertsdóttir frá Bolungarvík, en hún og eiginmaður hennar, Þorkell Sigmundsson, voru síðustu ábúendur í Hornvík, nyrst á Hornströndum. Þau bjuggu þar alein í eitt ár, 1951-52, en það var nokkrum árum eftir að allir fyrrverandi ábúendur í þessari afskekktu sveit höfðu flust á brott. Einu beinu tengsl þeirra við siðmenntaðan heim voru í gegnum rafhlöðu-útvarpstæki, því ekkert var rafmagnið og aðeins einn lampi á heimilinu til birtugjafa á köldum og myrkum vetrarkvöldum. Hulda gekk ekki kona einsömul þennan vetur og fæddist þeim hjónum sonur um vorið, rúmum mánuði fyrir áætlaðan tíma. Kynding íverustaðarins var frá eldavél, sem hituð var upp með rekavið.

Morgunblaðið hitti þau hjón í Frímannshúsi að Horni í lok júlímánaðar sl., en þau bjuggu einmitt í því sama húsi þetta ár fyrir tæpum 30 árum. Húsið keyptu þau af Hallfríði, dóttur Frímanns Haraldssonar, en hann byggði það sjálfur árið 1935 af stórhug miðað við þann tíma. Frímann var sonur Haraldar Stígssonar, en hann var sonur athafnamannsins og listasmiðsins Stíg Stígssonar sem oftast var nefndur Stígur á Horni. Siðustu ábúendur að Horni, áður en Hulda og Þorkell komu þangað, voru Stígur bróðir Frímanns og fjölskylda hans, en þau bjuggu í svonefndu Stígshúsi sem er við hlið Frímannshúss. Stígur Haraldsson og fjölskylda hans fluttu frá Horni 1946.

Hulda og Þorkell dvelja nú í Frímannshúsi eins oft og þau geta, þó mest á sumrin af skiljanlegum ástæðum, og segja þau, að dvölin þar gefi þeim meira en nokkur utanlandsferð. “ Við förum miklu fremur hingað en til Spánar”.

Trúði þessu ekki
-En hver var ástæðan fyrir þessari ársdvöl ykkar hér?
“ Við vorum ástfangin,- var nákvæmlega sama hvar við vorum niðurkomin og við áttum okkar drauma,” sagði Hulda. Það hummaði eitthvað í Þorkeli- þó var tónninn ekki óánægjulegur, og Hulda hélt áfram: “ Þó var þetta einnig hálfgert veðmál. Við höfðum haft á orði, að okkur langaði að búa í víkinni, og látið að því liggja að við myndum gera alvöru úr því , þó byggð hefði lagst hér niður. Bróðir Þorkels trúði þessu ekki, þ.e. að við myndum nokkru sinni gera alvöru úr þessu og hann sagði einhverju sinni við mig, að ef við færum að búa að Horni mætti ég velja mér fallegustu gimbrina hans.- Það gerði ég þegar ég kom, og ég valdi þá bestu.

Þorkell rifjar upp sem með sjálfum sér: “ við höfðum í búinu þetta ár eina kú,- kött og fimmtán rollur, og fengum 25 lömb um vorið,” og segir síðan ákveðið, eins og hann þyrfi að sannfæra viðmælanda sinn:” Hér á Hornströndum er í reynd gott að búa, sannkölluð matarkista, og búpeningur - alla vega rollur - hefur ætíð fengið æti úti við allt árið um kring, það gerir fjörubeitin. Þegar við vorum hér veiddum við fugl, ég fór niður á handvaði í bjargið.- Nei, ég var aldrei fyglingur hér áður fyrr, enda of ungur þá til slíkra verka. Við tókum einnig mikið af eggjum, sem við súrsuðum. – Þá fengum við fisk úr sjó- já, af nægu er að taka” Hulda hélt áfram:, Við söfnuðum líka svartfuglsfiðri í sængur handa okkur báðum, það þurfti fiður af um 150 fuglum í hvora sæng. Við hefðum getað nýtt betur. Í gamla daga þurfti allt að nýta á stórum heimilum og voru þá hjörtu og lifur og jafnvel hausarnir af fuglinum notað til fæðu, en það er önnur saga.

Átti barnið mánuði fyrir tímann

-Funduð þið ekki fyrir einmanaleika- og hvernig gátuð þið látið vita af ykkur?
“Einmana, nei alls ekki- Þetta var erfitt en ágætt,” svöruðu þau til. Þau sögðust hafa farið reglulega að Hornbjargsvita í Látravík til að láta vita af sér, en þaðan var samband við umheiminn. “ Það voru oft erfiðar og seinfarnar ferðir að vetrarlagi, við fórum á skíðum. Í brekkunum varð Þorkell stundum að skríða á undan með skíðin á hjarninu og koma síðan til baka og hjálpa mér. Mamma var orðin svo taugaveikluð út af okkur um vorið, að ég fékk þau skilaboð frá henni, þegar ég átti eftir tvo mánuði af meðgöngutímanum, að ef ég kæmi mér ekki strax til byggða myndi hún láta ná í mig með valdi. Ég ætlaði mér ekki að fara fyrr en að mánuði liðnum, en lét þetta eftir henni til að róa hana,- já, og vissi reyndar að hún myndi gera alvöru úr hótun sinni. Ég var heppin, því á leiðinni fékk ég mjög slæmt í sjóinn og hvort sem þar var af því eða ekki þá átti ég barnið mánuði fyrir tímann, en slapp heim í Bolungarvík áður.”
- Nú er sagt að harðvítugustu galdramenn landsins hafi búið hér áður fyrr á Hornströndum og mögnuðustu sendingar allra tíma hafi komið héðan. Er draugagangur hér og urðuð þið ekki vör við eitthvað óvenjulegt á sveimi?
“ Hér er ekki reimt,” svraði Þorkell að bragði- “ en það er sagt að það sér reimt Látravík. Þar fyrirfór sér maður ekki fyrir svo ýkjalöngu.

Líktist geysiháu orgi – eða hvissi

Nokkur þögn var í kjölfar þessa svars en samt var eins og sjálfgefið, að þetta umræðuefni yrði ekki látið niður falla. “ Það var reyndar í eitt skipti um veturinn, sem við urðum áþreifanlega vör og það svo um munaði,” sagði Hulda síðan. “ Þetta var um háveturinn, ísinn var svo til landfastur og við óttuðumst komu ísbjarna. Ég sat inni í eldhúsi og Þorkell var hér hinum megin við þilið að mjólka kúna. Kötturinn hafði hringað sig í kjöltu minni og ég man, að ég var að hlusta á framhaldssöguna “ Ferðin til Eldorado” mig minnir m.a.s að Helgi Hjörvar hafi lesið hana. Þá heyrðist allt í einu gífurlegt hljóð að utan – og hvernig á að lýsa því veit ég ekki – þó var það líkast geysiháu orgi – eða hvissi eða einhverju þvílíku. Mér datt fyrst í hug öskur í ísbirni, þá flaug mér í hug skriðufall. Við rukum bæði út á hlað, hann út um fjósdyrnar en ég um bæjardyrnar. Við huguðum síðan vel að, en sáum ekkert. Um kvöldið var okkur báðum mjög umhugað um að byssan væri vel hlaðin og á sínum stað við rúmstokkinn. Við höfum aldrei getað fundið út hvað þetta var, en ekki var það hugarburður, því kötturinn stökk margfalda hæð sína upp úr kjöltu mér og kýrin fór í keng, þar sem Þorkell sat hjá henni.
- Voruð þið þá ekki oft hrædd, eftir þennan atburð?
“ Nei, nei,” svöruðu þau samhljóða. “ Hulda var stundum ein heima, er ég fór í Látravík”.
“ Og þú varst hér aleinn í þrjár vikur um haustið”.

Sjóræningaskip


Þorkell er ættaður og bjó á æskuárum sínum í Hornvík og sagðist aldrei hafa orðið fyrir neinu um ævina, sem ekki fannst skýring á , að undanskildu ofangreindu, sem hann sagðist þó fullviss um að skýring væri fyrir. – En aðeins síðar sagði hann: “ Nema jú einu sinni. Það var þegar ég var drengur. Það gengu á þeim tíma margar sögur af sjóræningum og eitt sinn, er ég var sendur að reka hesta hér hinum megin við víkina, sá ég kolsvart skip undir þöndum seglum sigla inn víkina og hverfa sjónum fyrir leiti. Ég var skelfingu lostinn og þorði mig ekki að hreyfa. Það varð mér til láns að húsbóndi minn kom þar að skömmu síðar og ég sagði honum frá því sem ég sá. Hann reyndi að róa mig og sagði að við skyldum ganga inn víkina og rannsaka málið og ég féllst á það að lokum. Er við komum þar sem sást inn víkina var ekkert að sjá, hvorki skip né nokkuð það sem mér hefði getað glapið sýn. Eflaust hefur þetta verið hugarburður barns vegna umræðna um sjóræninga og sjóræningaskip, en mér er sýnin minnisstæð. – Ég man meira að segja vel, að ég sá menn ganga um á þilfarinu.

Afkoman enn tengd þessum stað

- En síðan hættið þið búskap. Var þetta vonlaust?
“Við urðum að hætta, við vorum með ungabarn og áttum fjölskyldur og auðvitað var ertitt að vera hér án eðlilegs sambands við umheiminn. Við fluttum heim til Bolungarvíkur og höfum búið þar síðan,” sagði Hulda.

Þau rifjuðu upp sín á milli, hvernig þau höfðu rekið kindurnar yfir í Lónafjörð, en þangað höfðu þau fengið bát til að flytja þær yfir í Bolungarvík. “ Ég man enn,” sagði Þorkell,” að báturinn kostaði 1.400 kr. – það voru miklir peningar þá.”

Þau eiga nú fimm börn og Þorkell hefur stundað sjóinn frá Bolungarvík síðan. “ Afkoma okkar var enn tengd þessum stað” sagði hann. “ Það var um 1956 að ég eignaðist trilluna mína. Hún er 50 ára, eða aðeins fimm árum yngri en ég sjálfur. Á henni hef ég aflað okkur lífsviðurværis. Það sem er merkilegt við trilluna er að hún var smíðuð í sama pakkhúsi, sem var hér rétt fyrir ofan og til hliðar við Frímannshús. Þegar hún var tilbúin var henni rennt niður í skafli út í sjó – Þaf hefur hún verið síðan og gert það gott.” – Það örlaði fyrir stolti í rödd Þorkels.” Þessi trilla var smíðuð af Frímanni sjálfum, snillingnum – handbragðið leynir sér heldur ekki. Hún heitir Fákur og ber einkennisstafina ÍS 5,” og hann bendir út um eldhúsgluggann á Frímannshúsi á trilluna, sem togar glatt í festar á víkinni fyrir utan.

Tók ofan fyrir björgunum

“Ég gerði það fyrir hana að leyfa henni með í þessa ferð – hún er orðin svo gömul. Auðvitað brást hún ekki venju sinni og bætti við sig þegar við komum fyrir björgin. – Þá stóð ég upp og tók ofan fyrir björgunum – henni til samlætis.” Stolt eiganda góðs fleys leynir sér nú alls ekki í rödd Þorkels.
- Hvað um framtíðina, - hyggið þið á endurtekningu ævintýrsins?
Þorkell svaraði strax og sagðist aldeilis geta hugsað sér að endurtaka þetta. “ Ég gæti t.d. vel hugsað me´r að taka við af honum Jóhanni á Hornbjargsvita. Faðir minn var þar vitavörður frá 1935 til stríðsloka og ég veit a.m.k. af eigin reynslu héðan hvað ég væri þá að fara út í.” Hulda tók undir orð manns síns og sagðist vel geta hugsað sér eitthvað slíkt.
Hvort þau hjónin verða ábúendur á Hornströndum á ný kemur í ljós, en er ég kvaddi þau í hlaði Frímannshúss, sagði Hulda: “ Ég hef oft hugsað um hversu heimskulegt það var af mér að halda ekki dagbók þarna um árið. Ef ég hefði gert það hefði ég áreiðanlega getað sagt þér miklu meira. Það gerðist svo margt á einu ári.

“ Eitt sem oss bindur”

Fróðlegt hefði áreiðanlega verið að glugga í þá dagbók ef rituð hefði verið, og þá eflaust fengist nánari skýring á órjúfanlegu sambandi þessara ágætu hjóna við afskekkt landsvæði og þau sjálfráðu öfl, sem fylgja ægifagurri náttúru Hornstranda. Náttúruunnandinn og stórskáldið Einar Benediktsson tjáði tilfinningar sínar til Fróns í samnefndu kvæði og segir þar m.a:” Það er eitt sem oss bindur – að elska vort land.” Ódulda lotningu mátti skynja í orðum og lýsingum þetta sumarkvöld í eldhúsi Frímannshúss að Horni. Þó var enga eftirgjöf að finna – aðeins ákveðni í að takast á við og lifa í sátt við það, sem sambúð við slík náttúruröfl hlýtur að hafa í för með sér.

Morgunblaðið 24. ágúst 1980
Texti og myndir: Fríða Proppé


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.