Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Gamalt og gott | 11.2.2009 |
Veröld sem var

Á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum eru Jökulfirðir og þar var blómleg byggð í gegnum aldirnar eða allt fram til ársins 1952 er síðustu ábúendurnir fluttust frá Hesteyri og Aðalvík, stærstu byggðarkjörnum á svæðinu. Þessi landshluti féll að miklu leyti í gleymskunnar dá fyrstu þrjá áratugina eftir að byggð eyddist en með auknum ferðalögum um hálendi og afskekkt svæði landsins hafa Jökulfirðir hlotið athygli að nýju fyrir friðsæld og óspillta náttúrurfegurð. Sjónvarpsmenn hafa fært okkur myndir af fagurgrænum hvannabreiðum sem minna meira á gróður á suðrænum slóðum en það gróðurfar sem vænta má að fyrirfinnist á hjara veraldar. Þeir sem sáu kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, gleyma seint hlutverki landslagsins þar en ferð gamalmennanna í myndinni var einmitt heitið í þessa týndu perlu íslenskrar náttúru.

Miðað við það sem þessar myndir gefa til kynna er erfitt að henda reiður á hvað það var sem varð til þess að fólkið fór burt. Flestir eru þó sammála um að þar hafi verið um að ræða samvirkni ýmissa félagslegra og menningarlegra þátta, óhjákvæmilegra fylgifiska nútíma lifnaðarhátta og breytinga á atvinnulífi þjóðarinnar.

Sölvi Betúelsson, oddviti á Hesteyri og Sigrún Bjarnadóttir kona hans voru seinustu ábúendur Hesteyrar. Sölvi er látinn fyrir nokkru en Sigrún eða Rúna, eins og hún er kölluð, hefur verið búsett í Bolungarvík þessi fjörutíu ár sem liðin eru frá því að þau kvöddu Jökulfirði í hinsta sinn. Rúna er komin hátt á níræðisaldur en er engu að síður ern og heilsugóð. Hún er sein til að kvarta og ber fyrir sig leti frekar en annað ef hún “nennir” ekki fram úr rúminu einhvern daginn, eins og hún orðar það.

Blaðamaður Vikunnar var á ferð í Bolungarvík og féllst Rúna á að opna rifu á glugga fortíðarinnar og leyfa lesendum blaðsins að skyggnast um stund í heim sem nú er genginn á braut eilífðarinnar.

“ Ég er fædd í Aðalvík en var komið í fóstur á Hesteyri þegar ég var fimm ára gömul. Pabbi og mamma voru bæði tvígift. Mamma átti þrjár dætur frá fyrra hjónabandi og pabbi tvíbura með fyrri konu sinni. Þau eignuðust síðan tíu börn saman, þar af eina tvíbura, þannig að þetta urðu fimmtán börn alls. Annar tvíburanna lést snemma og sömuleiðis misstu foreldrar mínir tvo unga drengi. Þá fórst einn bræðra minna af slysförum fimmtán ára, þannig að við vorum sjö sem komumst upp af alsystkynunum. Fóstri minn og mamma voru systkinabörn en fósturforeldrar mínir áttu bara eina fimmtán ára dóttur. Ég man ennþá eftir ferðinni til Hesteyrar en þetta var annaðhvort þrítugasta eða þrítugasta og fyrsta október 1910. Mamma fór með mig inneftir og Magnús föðurbróðir minn var með í ferð. Við vorum fótgangandi og hann bar mig mikinn hluta leiðarinnar. Ég gekk nú samt spotta og spotta og hann sagði mér síðar að sér hefði þótt ég furðu dugleg að labba þetta”.

Móttaka og kvöldvökur
-Var einhver kennsla fyrir börn á Hesteyri á þessum tíma?
“Já, það var fljótlega farið að kenna mér að stafa og síðan að lesa. Mér fannst nú mesta puð að læra stafina en var sagt að þegar ég væri búin að því gæti ég farið að lesa bækurnar sem hann fóstri minn las upp úr á kvöldvökunum. Þá var fóstra mín að spinna og prjóna og fannst gaman að heyra lesið á meðan. Kvöldvökurnar voru hafðar að loknum verkum þegar hann var heima og búið var að kveikja upp.

Húsnæðið var ósköp lítið og í fyrstu var látið nægja að hita með kamínu en síðar komu ofnar. Það var náttúrulega ekkert rafmagn en mór var notaður fyrir eldsneyti. Hann var stunginn á vorin og hnausunum kastað upp úr gröfinni. Þeir voru síðan reiddir í hripum á hesti á holtin þar sem þurrkvöllinn var að finna. Þar voru hnausarnir höggnir með spaða eða skóflu í flögur sem reistar voru upp á rönd hlið við hlið og gustaði vindurinn um opin sem mynduðust á milli þeirra. Verkið var kallað að grinda því þessar breiður náðu yfir töluvert stórt svæði og mynduðu nokkurs konar grindur. Þegar mestur rakinn var gufaður upp var mónum raðað upp í hrauka sem á haustin voru reiddir fram á bæina en sumir biðu fram á vetur og drógu þá heim á sleðum”.

-Þannig að þú hefur alist upp við mikla þátttöku í atvinnulífinu?

“Já, já, um leið og börnin fóru eitthvað að geta voru þau látin hjálpa til. Ég elst þarna að mestu upp með fullorðnu fólki því engin voru börnin á bænum. Tvær telpur voru á bæ í grendinni en þær voru alltaf uppteknar við að passa yngri systkini sín. Fóstursystir mín var hins vega dugleg að taka mig með sér þegar hún fór að heimsækja vinkonur sínar og það var minn helsti félagsskapur. Þetta voru svona þrjátíu til fjörutíu manns sem bjuggu á staðnum og fjölgaði lítið. Stúlkurnar fóru í burtu þegar þær uxu úr grasi því enga atvinnu var fyrir þær að fá í sveitinni.

Systkini mín fluttu líka en ég átti ekki heimangengt frá fósturforeldrum mínu. Dóttir þeirra fór til verslunarstarfa í Reykjavík og ég féllst á að vera á heimilinu þangað til hún kæmi til baka. Það urðu síðan ekki nema tvær stuttar heimsóknir sem hún lét sjá sig aftur. Hún gerðist verslunarstjóri í bókaverslun Ísafoldar sem var þá í eign Sigríðar Björnsdóttur, systur Sveins Björnssonar sendiherra og síðar fyrsta forseta Íslands. Draumur hennar var að gerast sjálfstæður bóksali og fór hún til Þýskalands til að nema þau fræði. Hún var ákaflega vel gefin og vissi hvað hún vildi, stúlkan sú. Ég hef undir höndum prófstílinn hennar á þýsku og einnig umsögn kennarans á þýsku og einnig umsögn kennarans á þýsku en síðan lét ég þá þýða þetta yfir á íslensku. Ég hef aldrei haft nenning í mér til að koma þessu á framfæri og mér finnst hún liggja óbætt hjá garði því það hefur hvergi komið fram að hún fór utan að læra.

Strákurinn á heimilinu
-Það hefur áreiðanlega verið mjög sérstakt fyrir konu úr sveit á þessum tíma?
“Já, hún er líklega fyrsta íslenska konan sem fór utan til að ganga í skóla fyrir bóksala. Ég hef verið að leita bæði í Öldinni okkar og Árbókum Reykjavíkur að upplýsingum um það en án árangurs. Það er talað um margan ungan manninn sem fór víða til náms en ekkert er á hana minnst. Þegar hún kom aftur til Íslands veiktist hún og var frá störfum næsta árið og Sigríður seldi verslunina. Þá fer hún að hressast og hjálpar nýja eigandanum að setja búðina í gang að nýju en veiktist aftur vorið 1930, liggur í viku og deyr aðeins þrjátíu og fimm ára gömul. Það var ekki hlaupið til Reykjavíkur á þeim tímum, kannski leið mánuður á milli ferða, þannig að ekkert okkar komst til að vera við jarðaför hennar. Fóstri minn var formaður á bát og gat ekki komist frá því og fóstra mín orðin það sjúk að hún fór ekki út úr húsi.

Þetta var einn af fyrstu vélbátunum á Hesteyri en áður voru komnir vélbátar til Aðalvíkur. Við vorum að auki með lítið bú, með þrjátíu kindum, kú og einu hrossi, en landrýmið var mjög takmarkað fyrir hvern bónda. Ég var eiginlega strákurinn á heimilinu og vann mikinn hluta af störfunum utanhúss ásamt því sem fóstra mín treysti sér ekki til að gera inni. Karlarnir sóttu sjóinn vor og haust en að lokinni mótökunni tóku við heyannir. Þá komust þeir stundum í uppgrip við upp-og útskipun í hvalveiðistöðinni sem Norðmenn reistu inn með firðinum skömmu fyrir aldamót. Ég fór stundum inn að stöðinni sem krakki til að færa einum Norðmanninum mjólk sem hann keypti af okkur. Ef hann var á vakt sagði hann mér að setja mjólkina bara í rúmið sitt. Þá tók á móti mér gamall maður af annarri vakt og gaf mér gjarnan brauðsneið með magaríni og púðursykri. Það þótti mér gott”.

Norðmennirnir voru ekki með fjölskyldur með sér en blönduðust samt ekki heimamönnum í Jökulfjörðum að neinu marki. Það voru kannski tvær stúlkur sem eignuðust með þeim börn og ein sem giftist og flutti til Noregs. Alþingi setti lög um hvalveiðibann 1915 og þá var starfsemin í hvalveiðistöðunum lögð niður um tíma. Norðmenn brugðu þá á það ráð að skipta yfir í síldarsöltun og mig minnir að þeir hafi rekið þá starfssemi í tvö sumur. Þeir voru með tvo báta og þurftu vart að fara nokkuð út fyrir til að ná í fullfermi. Ég var þarna, lítið kvikindi sem náði ekki niður á botn í tunnunum, að salta á planinu.

-Hvað gerði fólk á veturna? Var eitthvað hægt að vinna eða...
“Kvenfólkið sat við að sauma og spinna og við krakkarnir fórum oft á skíði. Það var mikið gengið á milli bæja á skíðum og ég veit ekki nema það hafi lærst af Norðmönnunum. Það var maður á Ströndunum sem smíðaði skíðin fyrir okkur. Þau voru ekki merkileg, bara svolítil beygja á þeim framanverðum og síðan brá maður snæri yfir ökklann í stað bindinga, Karlarnir sinntu skepnunum og fóru stundum til refaveiða en það gat verið góð búbót ef náðist í lágfótu.”

Unga fólkið þurfti að leita annað
-Eiginmaður þinn heitinn, Sölvi Betúelsson, var mikill refaskytta, hef ég heyrt. Hvernig urðu ykkar kynni?
“Ég þekkti hann frá því ég var krakki vegna þess að fóstri minn var móðurbróðir hans. Okkur grunaði að sjálfsögðu ekki að við ætttum eftir að verða hjón því tólf ára aldursmunur var á okkur. Hann vann á síldarstöðinni á sumrin og kom þá oft heim svo það æxlaðist þannið að við urðum hjón. Þá var ég orðin þrjátíu og þriggja ára gömul og hann fjörutíu og fimm. Við giftum okkur haustið 1938 og vorum í húsi fóstra míns en síðan byggði Sölvi við það. Hann tók svo við búinu og fjölgaði skepnunum. Á stríðsárunum sóttu þeir sjóinn og seldu aflann í skip á Ísafirði til að fóðra Bretana.

Sölvi var mikill fyglingur (sigmaður) og varð fyrstur til að nota hjálm við eggjatöku á Íslandi. Hann sagði mér að hann hefði verið löngu dauður ef hann hefði verið berhöfðaður. Ég man eftir tveimur mönnum sem létust af þessum sökum. Annar þeirra dó ekki strax en varð aldrei samur eftir að hafa fengið stein í hausinn. Eftir að fór að fækka í hreppnum í stríðinu tók Sölvi að sér flest trúnaðarstörfin á staðnum og varð oddviti hreppsnefndar. Löggæsla var sama sem óþörf en það kom fyrir að þar þurfti að “munstra” menn á skip.

Ég hvái við og Rúna segir að það hafi verið mikið um útlenskuslettur í þá daga. “Þó ég sé nú ekki mikið fyrir að nota þær þá kemur það fyrir. Það var talsvert um norskuslettur og fötur sem sumir kalla skjólur voru stundum nefndar spöndur. Svo var talað um kamers og spiskamers þegar menn voru að tala um herbergi og stekket var notað yfir girðingu og bíslag fyrir forstofu svo ég taki dæmi.”

-Það var síðan með Bretavinnunni í tengslum við radarstöðina í Aðalvík sem fólk fór að ná sér í pening og hafa efni á að flytja burt.
“Já, það var svo litla vinnu fyrir unga fólkið að fá. Strákarnir reru náttúrulega á þeim i bátum sem voru á staðnum en vinnan var erfið og gaf ekki mikið á aðra hönd. Sumir komu heim á sumrin til að hjálpa til við heyskapinn en unga fólkið þurfti yfirleitt að leita annað að atvinnu og oft varð það til þess að það kom ekki til baka. Þetta varð til þess að eldra fólkið gafst á endanum upp en það má segja að skriðan hafi farið af stað þegar læknirinn fór af staðnum 1944. Kaupmaðurinn hélt síðan sömu leið tveimur árum síðar og þá þurfti að sækja bæði vörur og þjónustu til Ísafjarðar. Þangað var aðeins hægt að komast sjóleiðina og það var mjög varasamt að vetrarlagi.

“Síðustu tvö árin vorum við einu ábúendurnir á Hesteyri fyrir utan gamla konu sem bjó hjá okkur og krakka sem voru í vist á sumrin. Þetta var erfitt og sama sem alveg ómögulegt því við seldum mjólk og ef eitthvað varð að veðri komst Sölvi ekki fram á móts við Fagranesið sem sigldi yfir Djúpið. Þá varð hann að reiða brúsana inn að síldarstöð því þar var eina bryggjan sem báturinn gat lagst að.”

Flutt í Vikina
Vorið 1952 var haldinn hreppsnefndarfundur en þá voru ennþá nokkrir íbúar í Aðalvík. Sölvi sagði þeim að hann yrði að flytja og þá var tekin sú ákvörðun að allir færu. Þetta voru um þrjátíu manns sem ákváðu að flytja á einu bretti. Á Hesteyri var símstöð sem við sáum um og því gátum við ekki farið fyrr en allir aðrir voru farnir. Við ætluðum að taka niður tækin í símstöðinni og fara með næstu ferð á eftir hinum íbúunum en þá gerði norðanbyl og sjókomu þannig að við urðum að bíða ein í hreppnum í hálfan mánuð eftir að gæfi.

-Mannstu vel eftir deginum sem þið fluttuð í burtu?
“Já, þetta voru miklir flutningar og við fengum bát frá Bolungarvík til að sækja okkur. Tveir feður barna, sem við höfðum verið með í vist, hjálpuðu okkur en við vorum meðal annars með tvær kýr sem við tókum með okkur. Við komum í Víkina á miðnætti á allraheilagramessu, fyrsta nóvember 1952 og vorum fyrstu nóttina hjá foreldrum systkinanna Sólbergs og Karítasar en þau höfðu verið hjá okkur í sveit. Þau hafa verið sem okkar eigin börn síðan, eins og raunin hefur verið með flesta sem voru hjá okkur.

Sölvi var kominn fast að sextugu og ég hafði búið þarna allt mitt líf. Maður sá náttúrulega eftir staðnum en tók þessu samt rólega því annarra kosta var ekki völ. Húsið, sem við fórum í, var kalt og með ónýtum gluggum þannig að það þarfnaðist mikilla viðgerða. Sölvi fékk ekkert að gera fyrsta veturinn en um sumarið fór hann á handfæri á trillunni. Við fórum norður í tvo mánuði og heyjuðum fyrir kúnni sem við tókum með okkur en hinni hafði verið slátrað um veturinn. Ég og gamla konan fórum með kusu með Fagranesinu en Sölvi kom á trillunni með hænsnin. Ég hafði hins vegar köttinn með mér í kassa” segir Rúna og það skríkir í henni við tilhugsunina. “Þú hefðir átt að sjá kúna þegar hún kom upp á land. Hún hljóp út eftir öllu með halann upp í loftið, hún var svo ánægð. Svo leiddist henni þegar hún kom aftur til Bolungarvíkur um haustið og gerði helmingi minna gagn en áður, þannig að það endaði með því að við seldum hana”.


-Fórst þú líka að vinna úti eftir að þið fluttuð?
“Ég hafði ekki heilsu til þess fyrstu árin en síðar fékk ég vinnu við rækjuvinnslu og að saum utan um saltfisk og skreið. Við hættum bæði að vinna um 1970 þegar Sölvi fór að missa heilsuna. Eftir það var ég bara heima því það var ekki til neitt sem hét hálfsdagsvinna í þá daga. Maður varð annaðhvort að vera við allan daginn, sem ég treysti mér ekki til að gera, eða sleppa vinnunni alveg”.

-Hvernig líst þér á stöðuna á Vestfjörðum núna? Heldur þú að örlög byggðarinnar hér getir orðið þau sömu og í Jökulfjörðunum?
“Ég veit það ekki. Ég held samt að það sé farið að fækka sumstaðar í sveitunum hér í kring. Ég vona að það sé ekki byrjunin á einhverju stærra.

-Hvað heldur þú að sé helst til ráða til að spyrna við fæti?
“Ja, nú verður þú að spyrja einhvern vitrari en mig. Mér heyrist meira að segja að þeir sem stjórna viti lítið meira en ég í þessum efnum. Framtíðin verður að leiða það í ljós en ég vona að Vestfirðingar fari samt aldrei í eyði. Ég trúi því ekki að það fái að gerast þó þróunin hefi verið virkilega slæm á undanförnum árum”.

Það vakti athygli blaðamanns að margir Bolvíkingar eru með kort af Vestfjörðum uppi á vegg hjá sér en lítið bólar á afganginum af landinu. Það lýsir kannski best sjálfsmynd íbúanna og sambandinu við yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu. Í Vikinni býr fólk sem hefur komist áfram af eigin verðleikum og fjármagn hefur streymt úr plássinu til uppbyggingar syðra. Það er sorglegt að horfa upp á tilfinninga-og afskiptaleysi ráðamann við vandanum sem steðjar að en þeir virðast ekki skilja að hann læknast ekki af sjálfu sér. Spurningin er hvort sagan sé til að læra af henni eða hvort hún sé dæmd til að endurtaka sig. Hið síðarnefnda er því miður líklegri niðurstaða eins og horfurnar eru þessa dagana.

Veröld sem var
Viðtal við Sigrúnu Bjarndóttur, síðasta ábúandann á Hesteyri í Jökulfjörðum
Þetta viðtal birtist í 11 tbl Vikunnar árið 1993


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.