Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Gamalt og gott | 23.3.2009 | Vestfirska fréttablaðið
Kan á harðakani í allt sumar og í vetur

Hljómsveitin KAN úr Bolungarvík er á harðakani þessar vikurnar og verður það í vetur. Hljómsveitin er rétt rúmlega ársgömul og æfir stöðugt. Allir vinna þeir strákarnir hörðum höndum við að bjarga efnahag landsins á daginn, - en á kvöldin gleypa þeir í sig kvöldmatinn og eru roknir ( á miklu kani) til æfinga á heljarmiklu prógrammi sem þeir hafa upp í erminni.

“ Allir erum við verkamenn í víngarðinum, en höfum ómælda ánægju af að skemmta fólki með tónlist okkar.” sagði Herbert Guðmundsson söngvari KAN, en hann er þeirra félaga frægastur, var söngvari með landsþekktum hljómsveitum fyrir nokkrum áum, t.d. Pelican, Eik og Tilveru.

Herbert segist sérstaklega ánægður með þá breytingu á lífsháttum sínum og vera orðinn Bolvíkingur. “ Hinir hörðu vetur gera okkur bara sterkari og ákveðnari í að gera vel. Við ætlum okkur stóra hluti og munun hvergi spara okkur.” segir Herbert.

Þeir KAN – menn hafa þjáðst nokkurð af því að hafa ekki upp á hljómborðsleikara að bjóða. En þeir félagar segja að nú standi það allt til bóta. Þeir bjóða upp á tvískipta tónlist, sérstakt prógramm fyrir unga fólkið, og annað fyrir fólk sem er ekki alveg eins ungt. Í haust kom hljómsveitin fram í Klúbbnum í Reykjavík og þar gerðu þeir skínandi hluti. Reykvíkingar störðu á hljómsveitina eins og naut á nývirki, enda telja þeir fyrir sunnan að allt gott hljóti að vera til þar.


Þeir félagar segja að sérlega skemmtilegt sé að leika fyrir ýmsa aldurshópa. Til dæmis segjast þeir hafa leikið fyrir dansi eldri borgara í Bolungarvík einn daginn, og þann næsta á 17. júní dansleik krakkanna á staðnum. Þakklæti beggja hópana hefði líka verið innilegt og í raun bestu launin. Þá sögðu þeir félagar að strákarnir hjá Einari Guðfinnssyni hefðu mjög stutt við bakið þeim, lánað húsnæði og bíla til tækjaflutninga. Slíkt hefði verið ómetanlegt. “Við erum líka þakklát öllum okkar fjölmörgu stuðningsmönnum,” sögðu þeir félagar að lokum

Hljómsveitarmeðlimir eins og segir í Vestfirska fréttablaðinu:

 

Herbert Guðmundsson ,söngvari grípur í gítar af og til. Frægur frá Glaumbæjartímabilinu syðra, endurvekur nú gamla rokkið vestra.

Finnbogi Kristinsson , bassi, grundfirskur Reykvíkingur, sem settist að í Bolungarvík og er rennismiður þar á daginn. Hann lék áður með Mixtúru fyrir sunnan í Silfurtunglinu.

Hilmar Valgarðsson, trymbill, 16 ára Sauðkræklingur og lék með hljómsveitinni Medium þar í bæ. Vinnur í fiski hjá EG á daginn en lemur húðirnar af kappi hvert kvöld...


Magnús Hávarðarson, gítar og raddir,”takkatæknir” í frystihúsinu að degi til, innfæddur Bolvíkingur og félagi í hljómsveit með vönum mönnum.

Grein sem birtist í Vestfirska fréttablaðinu um þann tíma sem KAN var á harðakani


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.