Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 17.3.2009 | Kristján Jónsson
,,Áhuginn lá norður á Hornströndum“

Nýr dagskrárliður á Víkari.is hefur nú göngu sína og nefnist hann "Viðtöl við Víkara". Umsjón með þessum lið hefur hinn nýútkrifaði stjórnmálafræðingur Kristján Jónsson og mun hann á næstu mánuðum taka viðtöl við ýmsa góða Víkara. Fyrsta viðtalið er við útgerðarmanninn, ferðaþjóninn og björgunarsveitarmanninn Reimar Vilmundarson. 

 

 

Reimar Vilmundarson ræðir um ferðaþjónustuna og björgunarstörfin

 

Reimar Vilmundarson er flestum Bolvíkingum og Strandamönnum að góðu kunnur, þó búsettur sé á Ísafirði sem stendur. Eftir að hafa sótt sjóinn frá unga aldri hefur Reimar á undanförnum árum haslað sér völl í ferðaþjónustunni norður á ströndum.


,,Það var nú kannski ekki meiningin að flytja inn á Ísafjörð en ég hef verið þar búsettur síðastliðið ár,“ segir Reimar og glottir en hann er fráskilinn og tveggja barna faðir: ,,Ég á tíu ára strák og þriggja ára stelpu með fyrrverandi konu minni. Auk þess hafa nú þrjú fósturbörn bæst í hópinn með konu sem ég kynntist á Ísafirði,“ bætir Reimar við en segist halda mikið til í Víkinni þar sem hann á húsnæði og er með vinnuaðstöðu.


Hefur flutt yfir tíu þúsund manns


Spurður um þau umskipti að snúa sér að ferðaþjónustu segir Reimar að áhugi sinn á Hornstrandasvæðinu hafi leikið þar stórt hlutverk: ,,Ég fór að vera með bátinn hjá pabba nánast um leið og ég fékk aldur til. En fyrir rúmum tíu árum gafst mér tækifæri til þess að prófa eitthvað annað en sjávarútveginn og mig langaði einfaldlega að prófa ferðaþjónustu. Áhuginn lá náttúrulega norður á Hornströndum. Ég byrjaði árið 1997 að flytja fólk á svæðið og til baka. Þetta eru því orðin nokkuð mörg ár og mér reiknast til að ég sé búinn að flytja yfir tíu þúsund manns á þessum árum,“ segir Reimar og eftirspurnin er mikil, því hann er þegar búinn að bóka sex hundruð farþega fyrir sumarið 2009. Þrátt fyrir að tímabilið sé einungis tveir mánuðir þá var farþegafjöldinn hjá Reimari um átján hundruð manns á árinu 2008:


,,Fyrstu árin sem ég var í þessu þá flutti ég fólk héðan úr Víkinni og fór mest norður í Aðalvík og inn í Jökulfirði. Eftir að ég fékk nýjan og stærri bát árið 2006 þá tek ég fólk upp í frá Norðurfirði og flyt það út í Hornvík, Hornvíksvita, Reykjarfjörð og Bolungarvík á ströndum. Við erum mest að flytja fólk í þau hús sem þar eru. Í kringum árið 2004 fórum við að byggja upp gistiaðstöðu sem við rekum í Bolungarvík á ströndum. Það kostaði talsverða vinnu og tíma að koma því á laggirnar. Því fannst manni miklu skynsamlegra að flytja fólkið að norðanverðu frá Norðurfirði. Þar var engin svona hraðskreiður bátur og það hefur bara komið vel út. Markaðurinn virkaði stærri og þar var maður einráður. Varðandi húsnæðið þá er það búið að vera í eigu fjölskyldunnar. Við erum með íbúðarhúsnæði og svo gistihús sem við byggðum og rúmar tuttugu manns.“


Reimar hefur jafnframt verið vakandi fyrir því að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu: ,,Í fyrra tókum við upp á því að bjóða upp á útsýnisferðir sem eru dagsferðir. Það hefur komið ótrúlega vel út og einnig eru stangveiðiferðir að bætast við. Eftir bankahrunið þá munu menn ekki lengur fá ókeypis stangveiðiferðir frá bönkunum og geta þá farið í stangveiðiferðir norður á strandir í staðinn. Það er búið að bóka alla vega tvær ferðir næsta sumar með stangveiðimenn. “


,,Gífurleg aukning“


Sú þjónusta sem Reimar býður upp á virðist falla vel í kramið hjá íslenskum ferðamönnum en Reimar segir lítið um erlenda ferðamenn í ferðunum hjá sér: ,,Flest allir sem við höfum flutt á þessum árum eru Íslendingar. Ábyggilega 95% af þeim hópum sem ég hef flutt eru íslenskir. Þessar húsaferðir sem við erum að bjóða hafa nánast ekkert verið markaðssettar fyrir útlendinga. Þeir útlendingar sem við sjáum eru þessir göngugarpar sem eru með allt á bakinu. Í fyrra var reyndar ein finnsk ferðaskrifstofa sem var að selja svona húsaferðir, “ bendir Reimar á og kvartar ekki yfir eftirspurninni: ,,Síðan ég fékk nýja bátinn hefur verið gífurleg aukning. Á litla bátnum náði ég kannski að flytja tæplega þúsund manns á sumri en fór upp í átján hundruð manns síðasta sumar. Þannig að það er ekki annað hægt en að vera ánægður. Til þess að bæta enn frekar við sig þyrfti maður að fjölga gistimöguleikunum því nú orðið er ekkert fólk sem vill fara þarna nema til þess að gista í húsum. Landfræðileg aðstaða er nægilega stór en gistirýmið er ekki nægt til þess að færa út kvíarnar. Ég tel að ég sé með næga gistiaðstöðu í Bolungarvík en staðirnir í kring þyrftu kannski að bjóða upp á meira. Hornbjarg og Reykjafjörður eru eftirsóttustu staðirnir. Í Reykjarfirði er til dæmis mikil ferðamannamiðstöð og með frábærum gönguleiðum en þar mætti vera aðeins meira gistirými.“


Reimar segist ekki hafa gert áætlanir langt fram í tímann: ,,Maður tekur bara eitt ár í einu. Við erum fyrst og fremst að reyna að skipuleggja okkur betur. Þá á ég við að við getum alltaf nýtt ferðirnar betur. Í þessu árferði þar sem olíuverð hefur hækkað mikið þá þurfum við að nýta ferðirnar betur. Hækkun olíuverðs hækkaði það seint síðasta sumar að maður gat ekki velt því út í verðlagið þá en núna er kannski 10 – 12 % verðhækkun hjá okkur.“


Útgerð og harðfiskverkun á veturna


Ber er hver að baki nema sér bróður eigi, stendur einhvers staðar, og þó hér sé einungis rætt við Reimar, þá er rétt að taka það fram að Sigurður Stefánsson vinnur náið með Reimari og á veturna rær hann á bátnum með nafna sínum Hjartarsyni, sem einnig er í ferðamannaiðnaðinum á sumrin. Þó Reimar sé hættur að sækja á miðin þá situr hann ekki með hendur í skauti yfir vetrartímann: ,,Við erum náttúrulega með þennan sama bát á fiskveiðum á veturna en ég er kominn í land að mestu og er að dunda mér við að herða fisk. Það er reyndar nánast ómögulegt að stunda þetta núna á meðan verið er að vinna í garðinum því það er svo mikið moldrok. Svona almennt séð þá finnst mér að Bolungarvík ætti að vera mekka harðfisksins. Hér er stutt á miðin og bærinn stendur við opið haf. Það ætti því að vera þægilegt að þurrka,“ bendir Reimar á en hann er ekki ókunnur harðviskverkun: ,,Ég byrjaði í þessu með pabba árið 1988. Þá vorum við mikið að verka á árunum ´88-´91. Hjallurinn og allt dótið var til þannig að ég þurfti bara að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.“

 

,,Hugurinn hefur alltaf fylgst þessu“

 

Ekki er hægt að setjast niður með Reimari án þess að spyrja hann út í björgunarstörfin en Reimar hefur reynst Björgunarsveitinni Ernir þarfur maður og var kjörinn Víkari ársins árið 2007 hér á Víkara.is vegna björgunarafreka: ,,Það var eitt mesta útkallsár á sjó sem ég man eftir á seinni tímum. Það byrjaði snemma á árinu þar sem skipskaði varð og tveir Ísfirðingar fórust. Jafnframt kviknaði tvívegis í bátum á árinu. Bátur varð vélarvana í vitlausu veðri norður í Jökulförðum og það strandaði bátur inni í Ísafjarðardjúpi. Við lentum einnig í ýmsu norður á Ströndum um sumarið. Þar höfum við verið að sinna ferðamönnum ef á þarf að halda. Við komum til dæmis að því þegar þyrla Landhelgisgæslunnar sótti þangað mjög veika konu og aðstoðunum hana niður í svarta þoku. Þetta var því annasamasta ár í björgunarstörfum allt frá því að snjóflóðin féllu í Súðavík og á Flateyri árið 1995,“ segir Reimar og kímir.

 

Ferill Reimars í björgunarsveitinni er orðinn býsna langur þrátt fyrir að hann sé einungis á fertugsaldri: ,,Það eru til myndir af mér í albúminu þeirra frá svona tólf, þrettán ára aldri, hvort sem maður var nú í sveitinni eða ekki á þeim aldri. Maður hefur nánast aldrei getað slitið sig frá þessu síðan og ég er víst í slökkviliðinu líka. Þetta er gjöfult starf og hugurinn hefur alltaf fylgt þessu svolítið. Það geta líka nánast allir tekið þátt í þessu því það fer bara hver inn á sitt sérsvið. Í slökkviliði og björgunarsveitum þá snýst þetta ekki bara um fremstu línuna. Það eru svo mörg störf sem þarf að vinna á bak við. Þau eru alveg jafn mikilvæg og öll hin. Í slökkviliðinu snýst þetta ekki bara um manninn sem rýkur inn í húsið með slönguna heldur líka alla þá sem standa fyrir aftan. Björgunarsveitin hér í Bolungarvík hefur alltaf verið skipuð mjög góðum mönnum og með sérstaklega góða bakhjarla sem saman standa af fyrirtækjum og einstaklingum hér í bæ,“ sagði Reimar Vilmundarson í spjalli við Víkara en hægt er að panta ferðir hjá honum á vefnum: http://www.freydis.is.

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.