Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 3.6.2009 | Kristján Jónsson
Stórfrétt í íslenskum skákheimi!

Guðmundur Magnús Daðason formaður Taflfélags Bolungarvíkur segir Bolvíkinga ætla að tefla fram sveitum í öllum deildum Íslandsmótsins
,,Stemningin var náttúrulega gríðarlega góð. Við vorum þarna með 27 manna hóp og það voru allt að 26 manns að tefla í einu undir merkjum Taflfélags Bolungarvíkur,“ sagði Guðmundur Magnús Daðason, formaður TB, þegar vikari.is innti hann eftir stemningunni þegar TB stóð uppi sem Íslandsmeistari í sveitarkeppni á dögunum. Sveitakeppnin í skák er tefld í tveimur atrennum ef svo má segja. Fyrri hlutinn fer fram í október og var þá teflt í Reykjavík en síðari hlutinn fór fram á Akureyri í lok mars og er teflt í fjórum deildum. Bolvíkingar náðu þar sögulegum árangri því Íslandsmeistaratitilinn hefur aldrei farið út fyrir höfuðborgarsvæðið fyrr: ,,Þetta er í fyrsta skipti. Garðbæingar hafa unnið titilinn og það er líklega það lengsta sem bikarinn hefur farið frá Reykjavík. Akureyringar og Eyjamenn hafa gert atlögu að titlinum og verið nálægt því að sigra en ekki tekist. Þetta er því fyrsti sigur landsbyggðarliðs í 1. deildinni og sögulegur í því samhengi.“


,,Með aðra höndina á bikarnum“


Nokkuð hefur verið rætt og ritað um þann mikla liðsstyrk sem borist hefur Taflfélagi Bolungarvíkur á undangengnum misserum. Guðmundur og aðrir forsvarsmenn TB hafa ekki dregið dul á að markmiðið hafi verið að næla í Íslandsmeistaratitilinn: ,,Í þessum 27 manna hópi voru flestir gamlir og góðir vestfirðingar. Við vorum vissulega með fjóra erlenda stórmeistara í A-sveitinni sem hjálpuðu okkur auðvitað að ná þessu markmiði okkar. Af þeim sem ekki eru beinlínis vestfirðingar þá eru margir þeirra með rætur eða tengsl vestur. Má þar nefna Elvar Guðmundsson og Árna Ármann. Fyrir utan Bolvíkinga þá voru við með liðsmenn frá Ísafirði, Suðureyri og Flateyri,“ sagði Guðmundur og segir árangurinn ekki hafa komið sérstaklega á óvart þar sem TB hafði góða forystu þegar mótið var hálfnað: ,,Þegar farið var norður þá voru væntingarnar þær að við ættum að vinna. Við höfðum þriggja vinninga forskot á Helli og vorum auk þess taldir eiga auðveldari andstæðinga eftir en þau. Við vissum að við værum með aðra höndina á bikarnum en það þurfti auðvitað að klára dæmið.“


A-sveit Taflfélags Bolungarvíkur hefur í gegnum tíðina verið að flakka á milli 1. og 2. deildar. Guðmundur neitar því ekki að það hafi vakið nokkra athygli að Bolvíkingar séu orðnir Íslandsmeistarar: ,,Í íslenskum skákheimi er þetta náttúrulega stórfrétt. Þetta hefur vakið athygli allra íslenskra skákmanna. Ekki bara þeirra sem eru virkir heldur einnig almennra áhugamanna um skákina. Það er alveg klárt. Það er rétt að við vorum svona jójó lið á milli 1. og 2. deildar. Svo var stefnan einfaldlega sett á að fara alla leið í þessu. Ég tel að þessi árangur hafi einnig vakið athygli á meðal Bolvíkinga almennt. Maður tekur eftir því að fólk hefur rekið augun í þetta í fjölmiðlum.“


,,Langtímamarkmið að efla starfssemi TB í Víkinni“


Ástæðan fyrir þessum mikla fjölda skákmanna sem hélt til Akureyrar til þess að tefla fyrir TB er sú að félagið tefldi fram þremur sveitum í mótinu. A-sveitin var í 1. deild, B-sveitin í 3. deild og C-sveitin í 4. deild. Þar komum við að öðru markmiði sem forsvarsmenn TB höfðu sett sér og það var að geta teflt fram sveit í öllum fjórum deildum Íslandsmótsins. Skemmst er frá því að segja að það gekk eftir því B-sveitinni og C-sveitinni tókst báðum að vinna sig upp um deild. Næsta haust mun því TB mæta með fjórar sveitir til leiks og tefla þá í öllum fjórum deildunum sem er vitaskuld óþekkt hjá svo litlu félagi: ,,Það er óneitanlega mjög skemmtilegt að þetta skuli hafa tekist. Við höfum hugsað okkur að D-sveit okkar næsta vetur verði skipuð krökkum úr Grunnskóla Bolungarvíkur sem eru að æfa skák. Þau geta fengið góða reynslu með því að tefla í 4. deild en kynnast þá jafnframt andrúmsloftinu á alvöru skákmótum. Langtímamarkmið okkar er að efla starfssemi TB í Víkinni. Þessi metnaður varðandi það að ná Íslandsmeistaratitlinum á skömmum tíma var fyrst og fremst táknrænn. Við vildum rífa upp starfssemi TB og virkja vestfirska skákmenn í kringum okkur. Með því að styrkja liðið og berjast um titilinn þá var auðveldara að endurvekja áhuga fólks. Með því að vinna titilinn þá erum við búnir að ryðja brautina. Í framhaldinu höfum við hugsað okkur að hægt væri að halda fleiri stór skákmót fyrir vestan. Það er eitthvað sem er í deiglunni en á eftir að koma betur í ljós. Starfið fyrir vestan er þegar komið af stað því Rúnar Arnarsson og Björgvin Bjarnason héldu utan um skákæfingar í skólanum á nýliðnum vetri. Við þurfum að hjálpa þeim að efla starfið og láta þá hafa kennsluefni og þess háttar. Nú verður markvisst stefnt að því að kenna krökkum í 1. – 4. bekk að tefla,“ sagði Guðmundur. Hann segir þá fólksfækkun sem orðið hefur í Víkinni á umliðnum árum síður en svo skemma fyrir þegar kemur að barna- og unglingastarfinu: ,,Út af þeirri fólksfækkun sem átt hefur sér stað á landsbyggðinni þá hafa sveitarfélög á stærð við Bolungarvík horft í ríkari mæli til einstaklingsíþrótta því það er orðið erfitt að ná í lið í boltagreinum. Þar kemur skákin sterk inn.“

 

Með því að smella á myndaflipann hér að neðan má sjá myndir frá Íslandsmeistaramóti skákfélaga og bolvísku Íslandsmeisturunum í skák.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.