Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 29.6.2009 | Kristján Jónsson
,,Dauðinn kemur en píparinn ekki”

Hafþór Gunnarsson ræðir við Víkara um pípulagnir og fréttamennsku.

 

Hafþór Gunnarsson, pípulagningameistari, hefur árum saman séð um pípulagnir Bolvíkinga en til þess að brjóta upp hversdagsleikann hefur hann jafnframt verið fréttaritari fyrir sjónvarpsstöðvarnar. Hafþór vann lengi vel fyrir Ríkissjónvarpið en starfar nú fyrir Stöð2. Hafþór segir pípulagnirnar og fréttmennskuna fara ljómandi vel saman: ,,Maður er kannski staddur niðri í kjallara einhvers staðar og sér ekki út. Svo er allt í einu hringt og spurt hvort maður geti tekið myndir af þessu eða reddað viðtali við þennan. Þá getur maður stokkið af stað og reddað því sem þarf að redda. Þá er maður laus úr kjallaranum og búinn að hitta fólk. Þetta brýtur upp daginn og maður heldur aðeins takti við samfélagið. Maður er að flækjast yfir á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík fyrir utan náttúrulega Ísafjörð. Maður kannast við nánast alla á þessu svæði. Þetta fer líka ágætlega saman, svo framarlega sem maður sé ekki búinn að klippa á hitann á húsinu þar sem maður er að vinna! Þegar maður þekkir viðmælendurna þá er líka auðveldara að hringja í viðkomandi og mæla sér mót við hann þegar taka þarf viðtal,“ sagði Hafþór þegar Víkari.is truflaði hann við störf í verslun Olís, eða ,,Séð og heyrt“ eins og gárungarnir hafa nefnt verslunina.


,,Hver dagur þúsund ár”


Faðir Hafþórs, Gunnar heitinn Leósson, var sem kunnugt er pípulagningameistari í Víkinni árum saman. Lá það beint við hjá Hafþóri að feta í hans fótspor? ,,Nei, ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég tók gagnfræðapróf frá Núpi og var þar í bekk með ekki ómerkari manni en Pálma Haraldssyni í Fons. Ég tók mér frí og fór að róa með Gauja á Hugrúnu en hann fiskaði ekki eins og hann hafði lofað. Þá fór ég í Iðnskólann og fór svo á samning hjá pabba eftir fyrstu önnina. Ég lærði sem sagt iðnina og varð pípari. Það er nú ekki svo slæmt,“ segir Hafþór sposkur á svip. Hann segist aldrei hafa orðið uppiskroppa með verkefni: ,,Ég hef alltaf haft nóg að gera og stundum meira en nóg. Ég reyni að vinna mest í Víkinni en fer stundum inn á Ísafjörð fyrir vini og kunningja. Hef kannski farið suður í tvö skipti. Ég nenni ekki að þvælast mikið um. Ég þjónusta Bolvíkinga og reyni að gera það vel, þó sumir segi sem eru að bíða eftir mér að hver dagur sé þúsund ár, eins og hjá Kristi. Maður finnur svo sem hvort fólki liggur mikið á. Ef það lekur eitthvað þá fer maður náttúrulega strax. En ef það liggur ekkert á þá er maður kannski ekki að flýta sér svakalega mikið. Maður reynir að hlaupa í allt strax sem þörf er á og reynir þá að raða hinu niður. En þá getur reyndar eitthvað gleymst og það eru þau dæmi sem ýta undir goðsögnina um að píparinn komi aldrei. Það eru til margir brandarar um þetta; Dauðinn kemur en píparinn ekki! “


Hafþór er með einn starfsmann með sér, Hjört Rúnar Magnússon, sem er stjúpsonur Hafþórs. Stundum hafa starfsmennirnir verið tveir og stundum hefur Hafþór verið einn. Mest umsvif voru hjá Hafþóri þegar Bakki réðist í miklar breytingar á frystihúsinu fyrir um tíu árum síðan: ,,Þá fékk ég aðstoð að innan frá Ísafirði. Þá komu Rörtæknismenn enda var það svakalega mikil vinna að snúa öllu frystihúsinu við. Þeir hafa reyndar stundum beðið mig um að koma inn eftir að hjálpa sér en ég hef ekki haft tíma. Það er alveg full vinna að þjónusta hér. Þegar fór að slá á uppganginn á milli 1980 og ´90 þá var þetta svona eitt og hálft starfsgildi þangað til kreppan var búinn og allt fór á fullan snúning á ný. Ég vona að í þessari kreppu verði þetta svona eitt og hálft ársverk en það þarf ekki að vera mikið meira en það. Það heillar mig ekki að þurfa að vera með tíu manns í vinnu,“ segir Hafþór og segist ekki plana nema nokkra mánuði fram í tímann.


Betra að hafa míkrafón


Hafþór hefur sinnt aukavinnunni lengi og segist halda að hann hafi byrjað að vinna fyrir RÚV árið 1987. Hvernig kom það til? ,,Ég hef alltaf verið með ljósmynda- og myndavéladellu. Ég átti 8mm videótökuvél þegar Guðbjörg dóttir mín var að slíta barnsskónum. Sú myndavél var brúkuð þegar hún var grenjandi út í eitt. Svo gerðist það að sett var upp eitthvað kristilegt leikrit í félagsheimilinu sem ég man ekki hvað hét. Séra Jón Ragnarsson var leikstjóri og mig minnir að leikritið hafi verið samið af Bolvíkingi. Þá datt mér í hug að taka viðtal við leikstjórann og senda suður frétt um að verið væri að frumflytja leikrit í Bolungarvík. Þeir sendu fréttina út en svo fékk ég þau skilaboð að ef ég ætlaði að senda þeim efni aftur, þá væri kannski ágætt að hafa míkrafón! Þetta þróaðist svo bara í kjölfarið af þessu. Ég held að Helgi H. Jónsson hafi skrifað mér bréf. Svo jókst þetta smám saman. Helgi Helgason sagði reyndar að ég hefði verið búinn að gera Bolungarvík að nafla alheimsins því það kom svo mikið af fréttum héðan. En það var bara oft mikið um að vera. Þetta voru líka aðrir tímar og gúrkutíðirnar voru lengri. Nú koma alltaf einhver spillingamál upp þegar gúrkan er að byrja,“ segir Hafþór sem hefur starfað fyrir Stöð2 í nokkur ár:


,,Eftir að svæðisútvarpið byrjaði þá var farið að samnýta miðlana. Þá átti ég að vinna undir Finnboga og það þýddi að ég þurfti að vinna fréttirnar miklu meira, klippingar og slíkt. Það gekk ekki upp fyrir mig því þá hefði ég þurft að eyða mun fleiri klukkustundum í fréttirnar og það hafði ég bara ekki tíma í. Þá benti ég þeim á Jóa á Ísafirði sem hafði miklu meiri áhuga á tæknivinnunni en ég. Hann var þá á Stöð2 en vinnur fyrir RÚV núna. Logi Bergmann, vinur minn, kom vestur og átti að semja við mig um að fara til Finnboga og vinna með honum. Þá varð það bara ofan á að ég myndi hætta og þeir myndu tala við Jóa. Ég var verklaus í dálítinn tíma þar til Stöð2 setti sig í samband. Það hentar mér miklu betur að taka myndir, viðtöl og senda það svo suður heldur en að fullvinna fréttirnar. En vinnan við þetta er samt að aukast. Áður sendi maður spólurnar suður og eftir það sendi maður í gegnum ljósleiðara. Núna setur maður þetta inn á tölvuna og sendir myndefnið í gegnum netið. Áður þá gat maður mælt sér mót við viðmælendur rétt fyrir flug. Þá gat maður hent spólunni í flug strax í kjölfarið af tökunni og sparað þannig tíma. Vandamálið núna er að við búum ekki við nægilega hraðar nettengingar hér í Víkinni. Mínútan í útsendingarhæfu efni er fimmtíu mínútur að fara héðan og suður í gegnum tölvu. Það getur því verið komið fram yfir deadline þegar efnið skilar sér. Við þurfum því hraðara net en ég held ég sé búinn að láta alla vita af því,“ segir Hafþór og hlær.


Slysin eru verst


Það getur verið snúið fyrir blaðamenn að gera fréttir um fólk sem það þekkir persónulega. Hafþór kannast ekki við að sér hafi fundist óþægilegt að vera fréttaritari á litlu svæði þar sem nándin við fólk er mikil: ,,Nei. Mér hefur einfaldlega þótt betra að tala við fólk frekar en að hnýta í það einhvers staðar frá. Ég hef líka sagt að betra sé að tala við fólk og segja frá hlutunum heldur en að þeir séu teknir upp af götunni. Það er leiðinlegra þegar hringt er í Pétur og Pál til að spyrja um hitt og þetta. Þá er betra að ganga bara í málið og fá svörin. Það er oft best að klára málið með þeim hætti. Oft held ég að fólki hafi líka þótt betra að ég taki upp viðtalið heldur en einhver harðsvíraður fréttamaður, eins og til dæmis Agnes,” segir Hafþór og hlær sínum smitandi hlátri. Hann bætir við að þetta geti vissulega verið erfitt þegar um sorglega atburði er að ræða: ,,Verst finnst mér þegar orðið hefur slys. Þá er þetta frændi, frænka, kunningi eða vinur af því að maður þekkir alla. Það finnst mér óþægilegast. En þegar hlutirnir snúast um einhver dægurmál þá finnst mér það ekkert mál.”


Bræðurnir sluppu lifandi frá Suðureyri


Eftir allan þennan tíma eru náttúrulega einhver atvik í fréttamennskunni sem eru eftirminnilegri en önnur: ,,Ég á nærri því allt efni sem ég hef tekið á spólu. Ég á fleiri hundruð spólur. Maður þarf að gefa sér tíma í að horfa á það,” segir Hafþór og hlær dátt. Hann segir að það komi sér ágætlega að eiga þetta safn því stundum sé hann beðinn um myndir af einhverjum atburðum mörgum árum eftir að þeir áttu sér stað. Hafþór rifjar upp tímabil þegar sem atvinnuástandið var erfitt: ,,Það var einhvern tíma þar sem allt var að fara á hausinn á svæðinu. Þá vorum við Bæring staddir á Suðureyri og ég var að taka myndir. Þá kom Jói Bjarna og hann vildi nú ekki að verið væri að sverta byggðalagið Suðureyri. Hann sagðist drepa okkur ef við værum að taka myndir fyrir neðan hús, því þar voru kör, kassar og drasl sem ekki var nógu snyrtilegt fyrir sjónvarp. Við sáum það líka sjálfir að við gætum ekki vera að taka myndir af því og gerðum það náttúrulega ekki. Þannig að við erum lifandi ennþá bræðurnir!”


Hafþór rifjar upp annað atvik þar sem píparastarfið gaf honum forskot á einn reyndasta fréttahauk landsins: ,,Einhverju sinni var einhver leki uppi á Bolafjalli. Þá kom Ómar Ragnarsson á svæðið og hann vissi ekki hvar lekinn var. En ég vissi náttúrulega hvar rörið fór fram af enda átti ég þátt í að leggja það. Ég fór upp eftir og náði strax myndum af því en Ómar þurfti að fara tvisvar. Þá var ég hjá RÚV en hann hjá Stöð2,” segir Hafþór en það eru kannski ekki margir sem muna eftir því að Ómar starfaði um tíma á Stöð2. ,,Annars var oft gaman þegar fréttamenn komu að sunnan því þá var allt í einu allt orðið fréttnæmt. Þá vildu þeir gera sem mest fyrst þeir væru komnir á annað borð. Þá var maður búinn að safna í sarpinn einhverju efni sem ég taldi kannski að væri erfitt að koma í fréttirnar. Auk þess kynntist maður þessu fólki þá miklu betur því yfirleitt talaði maður bara við fólk í síma.”


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.