Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 12.1.2010 | Kristján Jónsson
Hugsjónastarf og vestfirsk þrjóska

Stefanía Birgisdóttir tók við rekstrinum í Verslun Bjarna Eiríkssonar árið 1996 ásamt eiginmanni sínum Olgeiri Hávarðarsyni. Búðin er fastur punktur í tilveru Bolvíkinga og hefur verið rekin undir þessu nafni síðan 1927 en gengur þó sjaldnast undir öðru nafni en Bjarnabúð. Á þessum 82 árum er Stefanía aðeins þriðji rekstraraðilinn í Bjarnabúð. Fyrst var það Bjarni Eiríksson til ársins 1958 og þá tók Benedikt Bjarnason við til ársins 1996. Hvernig kom það til að Stefanía tók reksturinn að sér?


„Það kom nú einfaldlega þannig til að Benedikt fékk mig til þess að vinna á skrifstofunni hjá sér árið 1992. Eitt leiddi af öðru og ég keypti af honum árið 1996. Ég fékk áhuga á þessu og hef gaman af því að standa við búðarborðið og þessum daglegu samskiptum við viðskiptavini,“ sagði Stefanía þegar vikari.is settist niður með henni á skrifstofunni í Bjarnabúð, þar sem verslunarsaga Bolungarvíkur drýpur af veggjunum.


Verslunarrekstrinum hefur ávallt fylgt umboð fyrir Váttryggingafélag Íslands sem áður hét Samvinnutryggingar. Stefanía segir mismikinn tíma fara í að sinna tryggingastörfunum: ,,Það er misjafnt. Stundum er rólegt en svo koma einnig tímabil þar sem ég er á fullu að skoða tjón, skoða hús eða aðstoða fólk á einhvern hátt í sambandi við tryggingarnar. Fólk hefur góðan aðgang að mér því mig er alla jafna að finna í Bjarnabúð.“


Brottfluttir koma við og rifja upp gamlar minningar

Stefanía þekkir vitaskuld vel þá umræðu að heimilislegar verslanir séu á undanhaldi í sölu á matvöru og nauðsynjavörum og í þeirra stað séu komnar stórar verslunarkeðjur: „Þetta er hugsjónastarf og vestfirsk þrjóska. Ekkert annað,“ sagði Stefanía og hló. „Númer eitt, tvö og þrjú þá hef ég mjög gaman að þessu. Annars væri ég ekki að þessu. Við eigum okkar föstu kúnna og ég hef gaman að því að sinna þeim. Auk þess hafa ferðamenn gaman að því að koma við hjá okkur á sumrin og versla. Þeir mættu náttúrulega vera fleiri ferðamennirnir sem koma við í bænum. Brottfluttir Bolvíkingar verða margir hverjir að koma við í búðinni og rifja upp gamlar minningar þegar þeir eru á ferðinni. Búðin er fastur punktur í tilverunni og er alltaf eins. Í Bjarnabúð var alltaf afgreitt yfir borðið en 1963 var henni breytt í kjörbúð og var fyrsta slíka verslunin utan Reykjavíkur. Þannig er búðin enn í dag og það er gaman að því,“ sagði Stefanía ennfremur og er þeirrar skoðunar að Bjarnabúð sé ómissandi hluti af bæjarbragnum.


Verða Stefanía og Olgeir friðuð?

Sú umræða hefur skotið upp kollinum að húsið skuli friðað en það er ekki eitthvað sem Stefanía hefur beitt sér sérstaklega fyrir: „Ég veit ekki alveg hvar þetta er í ferlinu en þetta var lagt til á bæjarstjórnarfundi. Við lásum bara um þetta en ætli við Olgeir verðum ekki friðuð líka,“ sagði Stefanía létt en húsið er þó talsvert eldra en þau hjónin. Var reist árið 1917 og hafði verið flutt inn en Stefanía hefur kynnt sér söguna vel: „Karlmenn í bænum voru flestir á síld þegar húsið var reist upp. Það voru því margar konur og mikið af ungu fólki sem gróf fyrir grunninum. Húsið kom tilsniðið og reis því hratt.“


Benedikt hélt öllu til haga


Ekki er komið að tómum kofanum í Bjarnabúð varðandi sagnfræði og segir Stefanía að Benedikt hafi haldið ótrúlega vel utan um ýmsar heimildir sem búðinni tengjast: „Benedikt hefur haldið öllu til haga og það eru allar heimildir til frá því að verslunin byrjaði. Nánast öll bréf eru til, gamlar auglýsingar og það er hægt að fletta nánast öllu upp. Auk gamalla áhalda sem notuð voru í versluninni. Allt er þetta geymt og eitthvað hefur farið á héraðsbókasafnið,“ sagði Stefanía og sýndi blaðamanni áratuga gamalt bréf úr Aðalvík.


Stjórnarsetan í Sparisjóðnum


Stefanía hefur látið til sín taka á fleiri sviðum og situr í stjórn Sparisjóðsins: „Ég er búin að vera í stjórninni síðan í apríl 2005. Ég hafði áhuga á stjórnarsetunni auk þess sem þrýst var á mig að taka þar sæti. Allar fjármálastofnanir á Íslandi búa nú við erfitt umhverfi en ég vil vera bjartsýn og vona að þetta gangi allt upp hjá okkur. Það veit engin hvað framtíðin ber í skauti sér í fjármálabransanum og umhverfi Sparisjóðanna,“ sagði Stefanía og lýsir þeirri skoðun sinni að Sparisjóðurinn hafi staðið fyri sínu: „Sparisjóðurinn hefur staðið sig mjög vel í því að þjónusta fyrirtæki í bænum. Það hefur þó háð okkur að þegar fyrirtæki hafa náð vissri stærð þá höfum við ekki getað þjónustað þau lengur og þau hafa leitað annað. Það hafa því frekar verið minni fyrirtækin sem Sparisjóðurinn hefur verið með.“


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.