Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 28.1.2011 | Morgunblaðið
Ákveðinn, skynsamur, þrjóskur, morgunhress, Bolvíkingur

Bolvíski sjónvarpsmaðurinn Guðmundur Gunnarsson er annar tveggja kynna í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Hann var tekinn tali sem aðalsmaður vikunnar í Morgunblaðinu í síðustu viku og birtist viðtalið við hann hér í tilefni af því að þriðji þáttur Söngvakeppninnar verður í Ríkissjónvarpinu annað kvöld.

 

Geturðu lýst þér í fimm orðum?

Ákveðinn, skynsamur, þrjóskur, morgunhress, Bolvíkingur.

Hvað er vandræðalegasta mómentið þitt?

Ég átti eftirminnilega innkomu í kvöldfréttatíma sjónvarpsins fyrir nokkrum árum. Í beinni útsendingu talaði ég oft og digurbarkalega um góða stemningu í Borgarleikhúsinu. Það hefði svo sem verið allt í lagi ef ég hefði ekki verið staddur í Þjóðleikhúsinu. Ég útskýrði fyrir yfirmönnum mínum að ég væri utan af landi.

Söngvakeppni Sjónvarpsins er eins og...

Partí sem stendur yfir í meira en mánuð.

Áttu þér leyndan hæfileika?

Ég er ágætis eftirherma og sérhæfi mig í fólki sem fáir eða engir kannast við.

Nú hefur heyrst að þú sért öflugur á dansgólfinu, hvernig myndir þú lýsa dansstíl þínum?

Já! Mér þykir spurningahöfundur óvenjuvel upplýstur. Vinir mínir, sem vilja ekki særa mig, myndu sennilega segja að ég væri plássfrekur dansari. Ég er fyrir löngu búinn að gefast upp á hefðbundnum stílum og hef þróað minn eigin. Þetta er nokkurs konar bræðingur af latneskri mjaðmasveiflu og tilviljanakenndum handahreyfingum. Tilkomumikil sjón, skal ég segja þér.

Hvað er best á morgnana?

Það er allt best á morgnana. Morgnarnir eru minn tími.

Ertu Evróvisjón-nörd?

Ég er miklu frekar áhugamaður en nörd.

Eruð þið Ragnhildur Steinunn fánaberar íslenskrar fatahönnunar?

Það held ég varla. En ef svo er þá er ég kominn ansi langt frá upprunanum sem landsbyggðarlúði.

Fáið þið að ráða því í hvaða fötum þið eruð í útsendingu?

Við veljum þetta í samráði við stílista. Það er reyndar starfsheiti sem ég vissi ekki að væri til fyrr en fyrir nokkrum vikum.

Í hvernig nærbuxum ertu?

Rauðum jólanærbuxum. Má það ekki alveg?

Er eitthvert Evróvisjónlag í uppáhaldi hjá þér?

Lífið er lag. Ekki spurning. Eiríkur Hauks, hvítir samfestingar og axlapúðar. Maður fer ekki fram á meira.

Hvað fær þig til að skella upp úr?

Prumpugrín. Þeir sem segjast ekki hafa gaman af slíku eru að ljúga.

Hvernig þarf lagið að vera og flytjendurnir þannig að Íslendingar fari með sigur af hólmi í Evróvisjón?

Ef ég vissi það ætti ég sennilega lag í keppninni.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Landkönnuður. Svo komst ég að því að það væri eiginlega búið að klára þann markað.

Hvernig er best að slappa af?

Með kaffibolla og góðri tónlist

Með hvaða liði heldurðu í enska boltanum og af hverju?

Manchester United. Bjarni Fel kynnti mig fyrir köppum á borð við Bryan Robson og Gordon Strachan. Mér fannst þeir töff.

Hvernig segir maður ,,Ég er gríðarlega krúttlegur og lagviss stuðbolti« á spænsku?

Pregunta uno de sus periodistas. El lo sabrá.

Nú ert þú afskaplega skýrmæltur, hverju má þakka skýrmælgi þína?

Veit það ekki. Þegar ég var lítill fór ég oft með mömmu í vinnuna á dvalarheimili fyrir aldraða. Þar komst maður ekkert upp með að tala ofan í klofið á sér. Gæti verið hluti af skýringunni.

Hvers viltu spyrja næsta aðalsmann?

Hver af vinum þínum fer mest í taugarnar á þér?

 

 

Söngvakeppni Sjónvarpsins 2011


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.