Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 28.8.2011 17:21:30 | Morgunblaðið
Svona verkefni verður eins og gjörningur

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er að finna áhugavert viðtal við bolvíska leikarann Pálma Gestsson og eiginkonu hans Sigurlaugu Halldórsdóttur flugfreyju, Dillý, en þau hafa gert upp húsið Hjara sem er elsta húsið í Bolungavík. Viðtal Morgunblaðsins tók Karl Blöndal og má lesa það hér að neðan.


Svona verkefni verður eins og gjörningur

Hjari nefnist elsta húsið í Bolungavík og það er líkast því að ganga í gegnum tímahlið og fara 60 til 70 ár aftur í tímann að koma þar inn. Hjónin Sigurlaug Halldórsdóttir flugfreyja, Dillý, og Pálmi Gestsson leikari hafa lagt sál sína í húsið. Kæmi ekki á óvart þótt Pálma liði eins og hann hefði gengið inn í sviðsmynd úr Heimsljósi, sem hann mun leika í á fjölum Þjóðleikhússins í vetur, þegar hann gengur þar inn. Pálmi er frá Bolungavík, fæddist í húsinu, og þar eru rætur hans. Í upphafi leiddi hann verkið og henni leist ekki á blikuna, en það breyttist fljótt og brátt varð hún jafnvel ákafari en Pálmi í að þau skyldu vera trú uppruna hússins.

 

„Ég hef alltaf borið tilfinningar til þessa húss,“ segir Pálmi og kemur sér fyrir. „Húsið er reist árið 1900. Árið 1930 bjó þarna bakari, sem stækkaði húsið og sneri því meira að segja. 1944 kaupa móðurafi minn og amma húsið, Sigurgeir Sigurðsson og Margrét Guðfinnsdóttir. Þau voru tólf í fjölskyldunni. Í stofunni voru haldnar jólaskemmtanir. Afa fannst það svo stórt að hann leigði út tvö herbergi. Húsið er 115 fermetrar.“

 

Það þótti þó stórt á sínum tíma. Margrét, amma Pálma, fæddist að Litlabæ í Skötufirði þar sem bjuggu tvær fjölskyldur og yfir tuttugu manns á 35 fermetrum.

 

„Ég átti góðar stundir þarna. Þau bjuggu í húsinu frá 1944 til 1965. Ég var mikið hjá afa og ömmu. Afi var útvegsbóndi. Ég var hjá honum að heyja og fleira og við vorum miklir vinir. Í svona litlu samfélagi er nálægðin svo mikil og heimili manns á mörgum stöðum, ekki síður hjá afa og ömmu en í foreldrahúsum.“

 

 

Ofbauð niðurrifið í Bolungavík

Frá 1965 til 1985 skipti húsið nokkrum sinnum um eigendur. Eftir það stóð húsið autt í ein fjórtán ár og þrýstingur á að rífa það fór vaxandi.

 

„Það grotnaði niður, bárujárnið var orðið ryðgað og enginn hirti um það eins og vill verða með svona hús,“ segir Dillý.

 

„Þetta var orðið svona draugahús og þyrnir í augum manna,“ bætir Pálmi við. „Rétt fyrir aldamót var ákveðið að rífa húsið og þá ofbauð pabba, Gesti O.K. Pálmasyni. Honum sveið alltaf hvað mikið var rifið af húsum í Bolungavík. Allt var rifið sem var gamalt. Bolungavík er það ungur bær og á ekki kaupstaðasögu eins og til dæmis Flateyri, Þingeyri og Ísafjörður og þennan danska arkitektúr, sem þar er. Mönnum fannst þetta vera kofar og ég held að fólk hafi fyrirvarið sig fyrir þá.“

 

„Það er talað um að ísfirskar fjölskyldur hafi farið í sunnudagsbíltúra til Bolungavíkur til að sýna börnunum fínu húsin þar,“ segir Dillý. „Þar var uppgangurinn það mikill að húsin voru stærri. Í því samhengi var þetta hús lítið og ljótt.“

 

„Bolungavík byggist fyrst og fremst upp sem verstöð,“ segir Pálmi. „Þaðan er styst að fara á gjöful mið. Þegar ég var að alast upp var maður alveg frá níu ára aldri iðulega sendur úr skólanum til að bjarga verðmætum, í uppskipun, útskipun og fiskverkun. Í þá tíð var maður með alla vasa fulla af peningum, það rauk úr öllum verksmiðjum og vinna allan sólarhringinn.“

 

Verbúðabyggðin var við sjóinn og þegar taka þurfti á móti meiri fiski og ný tækni kom til skjalanna vék hún fyrir stórum fiskvinnsluhúsum, sem nú standa auð.

 

„Pabba ofbauð að þetta skyldi allt vera rifið,“ segir Pálmi. „Hann var þá búinn að ættleiða annað minna hús fyrir neðan og semur um að fá að taka þetta hús í fóstur. Hann var húsasmíðameistari og ætlaði að nota litla húsið sem vinnustofu og verkfærageymslu, en sá að það yrði fínt íbúðarhús.“

 

Húsið, sem Gestur vildi bjarga frá niðurrifi, fékk því hlutverk vinnustofunnar og hann byrjaði að vinna í því, en hann var kominn á efri ár og fannst verkefnið heldur viðamikið.

 

„Ég hafði alltaf haft augastað á þessu húsi, meira ómeðvitað,“ segir Pálmi.

 

„Þú varst alltaf að tala um þetta hús og sýna mér húsið,“ bætir Dillý við. „Síðan einn daginn gefur hann okkur húsið.“

 

„1957 fæddist ég í þessu húsi,“ segir Pálmi. „Hann gefur mér húsið 2004 og systkinum mínum fannst það eiginlega bjarnargreiði.“

 

Fyrsta árið gerðist lítið. Þegar hjónin komu til Bolungavíkur gistu þau í litla húsinu og horfðu á „þennan hjall“. Pálmi gerði sér enga grein fyrir því hvað hann ætlaði að gera við húsið.

 

 

Vann sextán tíma á dag

„Svo gerist það í ágúst 2005 að ég kem vestur til að vera við skírn elsta barnabarnsins míns og ætlaði að vera nokkra daga,“ segir Pálmi. „Þá stóðu stjörnurnar þannig að ég ákvað að skoða hvernig ástandið væri á húsinu. Ég fór með haka, skóflu og kúbein, gáði undir plötur og glugga og gróf niður í skólpið, sem reyndist stíflað. Einhvern veginn þróuðust mál þannig að ég var þarna í mánuð og vann sextán tíma á dag. Ég hafði hugsað mér að þetta gæti verið gæluverkefni næstu fimmtán árin, en fór gjörsamlega fram úr mér.“

 

Þegar úr varð að húsið skyldi gert upp dugði ekkert hálfkák, allt skyldi verða sem upprunalegast.

 

„Ég held að smiðurinn í þér hafi verið þar að verki,“ segir Dillý og bætir við að hann hafi strax farið að velta fyrir sér hvernig frágangurinn á húsinu hafi verið upprunalega. Hann hafi fundið gamlar myndir af mömmu sinni við húsið og fleira og ákveðið að hann vildi gera húsið upprunalegt að utan.

 

„Mér fannst ekki hægt að gera húsið upp nema vera trúr því eins og það var,“ segir Pálmi.

 

Upphaflega var Pálmi með hugann við húsið að utan. Þegar huga átti að innviðunum kom Dillý til skjalanna. „Ég lá á mörgum gömlum munum,“ segir hún, „og hefði kannski átt að vera uppi á sautjándu öld. Ég var með heila búslóð, sem ég hafði dregið á eftir mér í áratugi, líf mitt síðan ég var barn og unglingur geymt í pappakössum. Ég er safnari og finn að það er líka í krökkunum mínum. Ég er alin upp í að geyma og það á sér sínar skýringar.

 

 

Missti mömmu sína í flugslysi

Mamma mín, María Jónsdóttir, var einstæð móðir. Hún bjó með mig hjá foreldrum sínum, Sigurlaugu Guðmundsdóttur og Jóni Vigfússyni, í blokkinni á Hringbraut 47, var með herbergi uppi á lofti og vann sem flugfreyja. Foreldrar hennar pössuðu mig þegar hún var að fljúga. Hún á mig 1959. Árið 1963 deyr hún í flugslysi. Hún var kölluð út í næturstopp í Kaupmannahöfn og vélin fórst á heimleiðinni í aðflugi að Fornebu-flugvelli í Ósló á páskadagsmorgni.“

 

Slysið var ekki bara áfall fyrir fjölskyldu Dillýjar, heldur var öll þjóðin í losti. Afi og amma Dillýjar brugðust við með því stofna sjóð til minningar um dóttur sína, Maríusjóð, og eru árlega veittir styrkir úr honum til flugfreyja og -þjóna vegna veikinda þeirra eða barna þeirra. Dillý situr í stjórn sjóðsins.

 

Þau varðveittu einnig allt, sem tengdist dóttur þeirra. „Allt var geymt, allt,“ segir Dillý. „Síðasti sígarettupakkinn, sem hún reykti úr, er hér uppi í skáp, miði, sem hún hafði skrifað fyrir síðustu ferðina og á stóð: „Pabbi viltu vekja mig klukkan sjö.“ Föt, snyrtivörur, allt. Þetta átti ég allt og þegar ég hafði vit til fór ég að fara í gegnum dótið hennar, fannst það spennandi og var auðvitað meðvitað og ómeðvitað að leita að konunni, sem ég kynntist aldrei og man ekki eftir í þessum munum.“

 

Dillý ólst upp hjá afa sínum og ömmu. „Tilvera mín á þessum tíma var mjög gömul því að þau umgengust bara fólk á sínum aldri,“ segir hún. „Ég lifði og hrærðist með fólki af aldamótakynslóðinni. Afi dó þegar ég var í menntaskóla, amma 1991 þegar ég var flutt að heiman, og allt í einu voru allir í kringum mig horfnir. En ég geymdi mjög mikið af æskuheimili mínu og hafði haft það í eftirdragi í pappakössum í svona 15 ár þegar ég kynntist Pálma.“

 

Dillý hafði reynt að finna þessum gömlu húsgögnum og dóti stað á heimili þeirra í Reykjavík í bland við nýrri innanstokksmuni án þess að það gengi upp. Húsið í Bolungavík var því eins og himnasending. „Þarna var kominn staður þar sem allt dótið átti heima,“ segir Dillý. „Um leið hjálpaði mér að geta sleppt þessum munum. Það hafði verið stórt skref fyrir mig þegar ég gekk út í öskutunnu fyrir um fimm árum með ferðatöskuna hennar mömmu og henti henni. Eina minningin frá því að mamma var á lífi var þegar ég skreið ofan í þessa ferðatösku og renndi fyrir því að ég ætlaði með mömmu í næstu ferð. Húsið í Bolungavík hjálpaði mér að gera hlutina upp og hætta að draga fortíðina með mér.“

 

 

Við erum að halda við sögu

Dillý og Pálmi fengu Jón Nordstein arkitekt, sem meðal annars átti þátt í að gera upp Húsið á Eyrarbakka og er sérfræðingur í endurbótum gamalla húsa, til að gefa sér ráð. Hann teiknaði til dæmis gluggana upp eftir gömlum myndum. „Hann kom vestur og skoðaði með okkur húsið,“ segir Dillý. „Pálmi benti á að laga þyrfti þetta og hitt. Þá sagði Jón: „Ef þú ætlar að breyta getur þú alveg eins byggt nýtt.“„

 

„Maður lærði mikið af honum,“ segir Pálmi. „Við erum að halda við sögu, ekki að byggja ný hús.“

 

Framkvæmdirnar þokuðust áfram undir vökulu auga Drangafeðganna Guðmundar Óla Kristinssonar og Jóns Steinars, sonar hans. Hjónin voru einnig undir verndarvæng húsafriðunarnefndar og fengu styrk frá henni. „Það var ekki mikið upp í endanlegan kostnað, en viðurkenning á því, sem við vorum að gera og hvatning til að gera eins vel og hægt var,“ segir Pálmi. Húsið ber þess merki að hafa verið stækkað á sínum tíma, meðal annars í því að gluggar standast ekki á. Pálmi spurði Jón hvort ekki væri best að nota tækifærið til að laga þetta, en Jón svaraði að það jafnaðist á við sögufölsun. „Smám saman áttuðum við okkur á að inni í húsinu var ýmislegt eins og það var í upphafi,“ segir Pálmi.

 

„Undir lögum af málningu, striga, veggfóðri og spónaplötum gat leynst gamall panell,“ segir Dillý.

 

„Á þessari leið verðum við stöðugt trúrri upprunanum,“ segir Pálmi. „Það kom húsafriðunarnefnd ekkert við því hún gerir bara kröfur um útlitið að utan og innvolsið hefði allt mátt koma úr Ikea, en það skipti okkur máli.“

 

Mikill tími og vinna hefur farið í húsið. „Þetta hefði aldrei verið hægt ef við hefðum ekki unnið svona mikið í þessu sjálf,“ segir Pálmi. „Ég lærði húsasmíði á sínum tíma án þess þó að ég næði að útskrifast - leiklistarnámið kom í veg fyrir það - en ég var búinn með samningstímann, sem var fjögur ár og hafði lokið helmingnum af iðnskólanum.“

 

 

Litaspjald frá 1930

Húsið varð að verkefni, sem tók hvert frí og hverja stund. Eftir því sem afraksturinn kom betur í ljós jókst áhuginn. Dillý komst til dæmis yfir gamalt litaspjald frá því upp úr 1930. „Út frá því valdi ég litina og ákvað strax að mála öll herbergin í mismunandi litum,“ segir hún. „Það skapar bæði skemmtilega tilbreytingu og eins varð vinnan skemmtilegri. Þá var Jón Nordstein arkitekt alsæll með litalvalið og sagði að við værum að gera rétt þar.“

 

Þau voru líka svo heppin að í stofunni í húsinu voru upprunaleg gereft og gólflistar, sem hægt var að nota sem fyrirmynd til að smíða í önnur herbergi. Í eldhúsinu notuðu þau hitablásara til að hreinsa af eldhúsinnréttingunni og náðu í burtu 11 lögum af málningu. „Eldhússkáparnir, sem þöktu heilan vegg, voru eitt af því sem lifði í minningu minni úr húsinu,“ segir Pálmi. „Mér leist ekki á ástandið á þeim og var orðinn viss um að ég þyrfti að kaupa Ikea-innréttingu í eldhúsið, en okkur tókst að raða þessu saman aftur og eldhúsið varð hornsteinninn í húsinu. Það hefði ekki haldið sínum karakter ef hún hefði farið.“

 

„Við vorum þarna í köldu húsinu yfir vetrartímann, í úlpum með húfur að skrapa panel og mála,“ segir Dillý. „Þegar ég horfi á myndir af þessu í dag trúi ég ekki að við höfum lagt í þetta.“

 

Þau gengu þó ekki svo langt að gefa frá sér lífsgæði 21. aldarinnar. Í húsinu skyldi vera sturta, þvottavél og eldavél með fjórum hellum, en ekki kolaeldavél eins og var á sínum tíma. „Ég ætlaði ekki að vera hér í peysufötum og elda á hlóðum,“ segir Dillý.

 

Ískápurinn er þó undantekning. Hann er af gerðinni Rafha, er frá 1956 og setur sterkan svip á eldhúsið.

 

„Húsið er orðið eins og sjálfstætt listaverk og Dillý er orðinn einn af okkar betri períóduproppsurum,“ segir Pálmi og hlær þegar hann bætir við: „Ég ímynda mér að þetta sé eins og að ganga inn í sett frá tímabilinu 1940 til 1960. Nú má maður eiginlega ekki koma inn í húsið nema vera í fötum sem passa við tímabilið.“

 

Dæmi um það er matarstellið, sem er með blárri rönd og var í öllum eldhúsum. Í það hefur Dillý safnað með reglulegum heimsóknum í Góða hirðinn. Á borðum eru gamlar bækur og leikföng og útvarpið er af gamla skólanum. Dillý getur ekki beðið eftir að halda jól í Hjara því að hún á fullt af gömlu jólaskrauti. Úti eru gamlir snúrustaurar og blómategundirnar fyrir utan húsið eru þær sem algengastar voru fyrir nokkrum áratugum. Þau hjónin hófust handa af alvöru 2005 og 2009 var verkinu að mestu lokið.

 

 

Það varð einhver galdur til þarna

„Það varð einhver galdur til þarna,“ segir Dillý. „Þarna er kyrrð og ró og tíminn stendur í stað.“

 

„Svona verkefni verður eins og gjörningur,“ segir Pálmi. „Maður er ekki að byggja venjulegan sumarbústað, með fullri virðingu, til að geta haft húsaskjól í sveitinni, heldur að búa til eitthvað meira. Þetta minnir mig á þegar í leikhúsi eða kvikmynd er verið að endurskapa ákveðinn tíma.“

 

Bolungavík komst í fréttir í sumar þegar grjóti rigndi yfir hús eftir sprengingu vegna mikilla snjóflóðavarnargarða, sem verið er að gera. Pálma hugnast þessar framkvæmdir lítt: „Mér finnst einkennilegt að mönnum skuli finnast einfaldara að færa fjöllin en byggðina. Þetta er svakalegt inngrip í náttúruna og ég get ekki ímyndað mér að þetta kosti minna en að færa þau hús, forgengileg mannanna verk, sem hugsanlega voru í hættu.“

 

Pálmi á það sameiginlegt með Gesti föður sínum að finnast lítil virðing borin fyrir sögunni í Bolungavík. „Þarna hafa mörg gömul hús verið rifin, nú síðast í vor. Byggingasaga staðarins hefur verið máð út þannig að það má líkja því við hryðjuverk. Það eru bara til skuttogarahús frá áttunda og níunda áratugnum,“ segir hann og bætir við: „Þegar nóg var af peningum og vinnu hugsuðu menn bara: „Burt með þessa kofa“. Það er auðvelt að sitja hér og tala um fortíðina, en hefðum við bara haldið í eitthvað af verbúðunum og gert þær upp myndi það setja mikinn svip á bæinn.

 

Við verðum að bera virðingu fyrir sögunni, ekki bara rífa og tæta.“

 

Viðtalið birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 28. ágúst 2011.

 

Meðfylgjandi myndir tók Halldór Sveinbjörnsson en einnig eru þar myndir úr safni Pálma Gestssonar


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.