Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 15.1.2012 22:47:21 | Fiskifréttir
Kominn í toppslaginn á ný

Í síðasta tölublaði Fiskifrétta er birt viðtal við Sigurgeir Steinar Þórarinsson skipstjóra á línubátnum Vilborgu ÍS sem gerð er út frá Bolungarvík. Í Fiskifréttum segir að krókaaflamarksbáturinn Vilborg ÍS hafi verið aflahæsti smábáturinn í desember síðastliðnum. Fékk 136 tonn í 23 róðrum. Vilborg ÍS er nýr bátur sem blandar sér í toppbaráttuna en skipstjórinn, Sigurgeir Þórarinsson, er ekki óvanur toppslagnum því hann var lengi skipstjóri á aflabátnum Sirrý ÍS.

„Aflabrögðin voru svakalega góð milli jóla og nýárs. Þá fengum við mest 13 tonn í róðri á 32 bala. Við tókum þá þrjá túra í röð grunnt úti af Hornvíkinni, í Hafnarálnum, og fengum þar samtals um 35 tonn,“ sagði Sigurgeir Þórarinsson í samtali við Fiskifréttir en rætt var við hann í síðustu viku.

Góður þorskur víðast hvar

Sigurgeir sagði að sá böggull hefði fylgt skammrifi að þegar farið var að vinna fiskinn hefði komið í ljós að of mikið af ormi hefði verið í honum. „Þetta var frekar smár fiskur, mikið tvö til tvö og hálft kíló en gat farið niður í eitt og hálft kíló. Okkur var því  bannað að halda veiðum áfram á þessari slóð þótt nóg væri af fiski. Þorskurinn þarna fær því að vera í friði þó ég telji reyndar nauðsynlegt að grisja hann. Annars er mjög góður þorskur víðast hvar úti af Vestfjörðum. Það er aðeins á grunnsvæði úti af Hornvíkinni sem hann er smár,“ sagði Sigurgeir.

Þegar rætt var við Sigurgeir voru þeir á Vilborgu ÍS að veiðum úti af Deildargrunni og voru enn að reyna við þorskinn. „Hér er mjög góður þorskur en það er bara ekki nógu mikið af honum. Fyrstu róðrana á árinu höfum við verið að fá um 100-200 kíló á balann. Maður er ekki sáttur ef aflinn er undir 4-5 tonnum á 32 bala,“ sagði Sigurgeir.

Ýsa um allt

Fram kom hjá Sigurgeir að þeir væru ekki að leggja sig sérstaklega eftir ýsu en hún veiddist alltaf með og oft í talsverðum mæli þótt farið væri á þekktar þorskslóðir. „Í dag er helmingur aflans til dæmis ýsa. Erfitt er að sneiða hjá henni því hún er nánast um allt. Ég er því sammála Jóni Bjarnasyni, fráfarandi sjávarútvegsráðherra, um að nauðsynlegt sé að endurskoða grunninn í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í ýsu. Ég tel alveg óhætt að veiða 60-70 þúsund tonn af ýsu. Einnig mætti auka þorskveiðar í 200 þúsund tonn,“ sagði Sigurgeir.

Góðlátleg samkeppni

Bolungarvíkurbátarnir margir hverjir hafa skipst á um að verma efsta sætið á mánaðarlegum aflalista sem birtur er í Fiskifréttum en bátar frá öðrum svæðum koma þar einnig við sögu. Sigurgeir viðurkenndi að samkeppnin ríkti milli bátanna og skipstjóra í Bolungarvík en hún færi fram í góðu.

Bolungarvíkurbátarnir róa allir með bala sem kunnugt er og sagði Sigurgeir að þeir myndu halda því áfram meðan línuívilnun verður við lýði. Hins vegar hefði hann ekkert á móti beitningarvélinni sem slíkri.

Ætlaði að hætta smábátaharki

Sigurgeir gat þess að hann hefði hætt á Sirrý og sest á skólabekk til að mennta sig til að fara á stærri bát. „Ég ætlaði að hætta þessu smábátaharki en síðan var ég fenginn til að róa á Vilborgu. Útgerðin er með stærri bát í smíðum sem er væntanlegur í febrúar og kemur hann í staðinn fyrir Vilborgu. Báturinn er smíðaður hjá Trefjum og er byggður á módeli af Ástu B sem smíðuð var fyrir Íslendinga í Noregi. Búið er að stytta hann og minnka þannig að hann passar inn í krókakerfið íslenska. Mikil viðbrigði verða væntanlega að fara á þann bát,“ sagði Sigurgeir.

Losna við braskið

Sigurgeir var í lokin spurður hver afstaða hans væri til hugmynda stjórnvalda um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Það er erfitt að tjá sig um það fyrr en séð verður hvaða hugmyndir verða ofan á. Við vitum ekki enn í hverju þessar breytingar felast  nákvæmlega. Hins vegar finnst mér nauðsynlegt að losna við þetta brask í kerfinu hvernig svo sem það verður gert. Menn eiga að nýta sínar veiðiheimildir sjálfir. Mér finnst ekkert réttlæti í því að einhver sem á kvóta geti setið heima hjá sér og leigt kvótann öðrum sem þarf að gera út fyrir aðeins einn þriðja af því sem fæst fyrir fiskinn,“ sagði Sigurgeir Þórarinsson.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.