Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 25.1.2012 23:33:43 | dv.is
Slökkti á sjónvarpinu heilsunnar vegna

Fréttavefurinn dv.is tekur bolvíska lagahöfundinn Magnús Kristján Hávarðarson tali í dag og spyr hann út í tilurð lagsins „Hey“ sem stal senunni í Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn. Þjóðlegur bragur var yfir laginu en Simbi og Hrútspungarnir fluttu lagið ásamt Magnúsi. Fóru þeir algjörlega á kostum og var lagið kosið áfram. Baksviðs voru þeir félagar enn þjóðlegri og gæddu sér á þorramat.

Athygli vakti að Magnús sagði lagið hafa verið samið í kolsvartri kreppustemningu. „Já, það er rétt, ég flúði á náðir tónlistarinnar. Lagið er samið um hávetur í miðjum hríðarbyl og kolsvartri kreppu.

Því var haldið svolítið á lofti hér fyrir vestan að við myndum ekki finna fyrir kreppunni því við hefðum aldrei notið góðæris. En það reyndist rangt, hér hækkaði allt jafnmikið og annars staðar og skattarnir líka.“

Hann segist hafa verið upptekinn af því að greina og fylgjast með þróun mála og það hafi haft slæm áhrif á sálarlífið.

„Ég átti erfitt með sálarheill því ég var svo illur yfir þessu. Mín leið út úr þessu var að slökkva á fréttum og taka fram gítarinn.“

„Konan kvartaði svolítið yfir glamrinu,“ segir hann og hlær. „Ég var svona að glamra hljóma og það getur tekið á taugarnar. En það var síðan hún sem stakk upp á því að ég semdi þetta lag í rammíslensk­um tón. Þjóðin er að finna ræturnar, það sannfærði hún mig um. Við erum að taka slátur og við erum að læra aftur hand­verk og að prjóna og þannig lagað. Hún stakk því upp á því að ég notaðist við fimmundarsöng í þessu lagi og mér finnst ótrúlegt hvað það féll í kramið. Ég átti alveg jafn mikið von á því að þetta yrði skotið í kaf sem eitthvert lélegt grín.“

Hann segir ekki koma til greina að þýða lagið yfir á ensku komist það áfram í aðal­keppnina. „Ég get ekki séð það fyrir mér. Ég myndi helst kjósa það að halda áfram að syngja á íslensku ef við komumst áfram. Hættum að skammast okkar fyrir að vera Íslendingar og komum okkur á framfæri á eigin forsendum. Við ríghöld­um í götóttu þjóðbúningana og fátækrastemninguna og skömmumst okkar lítið fyrir þá landkynningu.“

 

Bolvíkingar eru hvattir til að fylgjast með Simba og Hrútspungunum á Facebook síðu hópsins þar sem sjá má fjölmargar myndir frá æfingum og upptökum á laginu góða.

 

Viðtalið á dv.is

 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.