Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 7.2.2012 08:31:36 |
Ég kem heim- þegar ég og karlinn fáum framtíðarstörf

Karitas Sigurlaug er dóttir Guðrúnar Ásgeirs og Ingimars Baldurs., fædd í Bolungarvík árið 1985 og er næst yngst sex systkina. Karitas flokkast undir það að vera brottfluttur bolvíkingur þar sem hún býr nú með sambýlismanni sínum Hermanni Þór Þorbjörnssyni í bítlabænum Keflavík. 
   Karitas ólst upp í Bolungarvík og segir sjálf að ekki sé til betri staður í heiminum til að alast upp á en Bolungarvík. Þegar hún er spurð af hverju það er ekki til betri staður segir hún: „Felsi. Allt frelsið til að vera bara úti að leika þegar það hentaði og fara heim að borða þegar svengdin sagði til sín. Enginn ð farast úr stressi ef maður var búin nað vera úti allann daginn.“
   Karitas gekk í Grunnskóla Bolungarvíkur og lærði á harmonikku í Tónlistarskólanum. Margir muna eflaust eftir Karitas með nikkuna þar sem hún þótti liðtækur spilari, en spilar hún enn?: „Það er eitthvað lítið um það að ég spili á nikkuna núorðið, gríp þó í hana kannski einu sinni til tvisvar á ári. Ég byrjaði að læra á harmonikkuna í 4. bekk í grunnskóla en hætti í 2. bekk í menntaskóla.“

Fór frá Bolungarvík, til Ísafjarðar og þaðan til Keflavíkur

Það var árið 2007 sem Karitas flutti frá Bolungarvík, alla leið inn á  Ísafjörð, þá voru sko ekki komin göng, þar sem hún og sambýlismaður hennar fjárfestu í íbúð. Stoppið á Ísafirði var stutt: „Við vorum aðeins í 9 mánuði á Ísafirði en þá ákváðum við að fara suður. Ástæðan var sú að þegar við vorum ný flutt inn tók ég þá ákvörðun að sækja um í Íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík. Fór suður í inntökupróf og fékk inni í skólanum haustið 2007.“  Planið hjá Karitas var því að fara suður, sækja sér menntun og fara heim aftur, en það hefur ekki alveg staðist.

Alltaf í boltanum  

Þó það séu einhverjir sem tengja Karitas við nikkuna þá eru fleiri sem tengja hana við fótbolta. Því liggur beinast við að spyrja, hvenær hófst fótboltaáhuginn?: „Ég hef stundað fótbolta nær eingöngu frá því í 7.bekk, þegar ég byrjaði fyrst að æfa. Áður var ég mikið að leika mér sjálf og með krökkum í bænum þangað til Guggs vinkona (Guðbjörg Stefanía) dró mig með sér á æfingu og þá var ekki aftur snúið. Áhuginn varð svo mikill að ég fór að fylgjast með og horfa á fótbolta, eitthvað sem ég gat ekki hugsað mér að gera áður.“  Karitas stundaði knattspyrnu með liði UMFB þar til hún kom upp í 2. flokk en þá var liðið sameinað Boltafélagi Ísafjarðar og spilaði undir nafninu BÍ/Bolungarvík. Með BÍ/Bolungarvík spilaði hún sína fyrstu meistaraflokksleiki í 1. deild, alveg þar til hún fór suður í Háskólann haustið 2007: „Ég er mjög stolt af því að hafa endað minn síðasta leik það haustið á fyrsta sigri liðsins sumarið 2007 og einnig með marki – fyrir vantrúað fólk er það til á video!“ segir Kartias kímin.

Þegar til Keflavíkur var komið var Karitas enn á ný plötuð á fótboltaæfingu, nú með liði Keflavíkur og var það Dúfa Dröfn (sem áður var hér í Bolungarvík að þjálfa fótbolta) sem þá lék með Keflavík. Hvernig var að fara úr BÍ/Bolungarvík í lið eins og Keflavík þar sem reynslu meiri stelpur voru að  spila?: „ Það var svolítið stórt stökk, vegna þess að ég var allt í einu komin til liðs við lið sem var að spila í efstu deild. Það var mikil samkeppni og mikið um góðar stelpur í hópnum sem höfðu áður verið að æfa og spila með liði í úrvalsdeild og margar höfðu spilað fyrir hönd Íslenska landsliðsins. Ég gaf þessu þó séns og fór að æfa með þeim reglulega. Með tímanum og mikilli vinnu tókst mér að komast í liðið og spilaði mínar fyrstu mínútur í úrvalsdeild, þá Landsbankadeild kvenna, sumarið 2008.“

Karitas veit ekki betur en að hún sé eina konan frá Bolungarvík sem spilað hefur í úrvalsdeild og ætti það að teljast mikið afrek. Karitas gerði fyrst tveggja ára samning við lið Keflavíkur og endurnýjaði hann svo seint á síðasta ári og gildir nýji samningur hennar út komandi tímabil.


Frábært að það sé byrjað að byggja kvennafótboltann upp

Eins og fram hefur komið var Karitas í síðasta meistaraflokksliðinu sem var við æfingar undir nafni BÍ/Bolungarvíkur, síðan hafa liðið 5 ár. Nú hefur verið settur á stofn meistaraflokkur kvenna sem mun leika undir stjórn Jónasar L. Sigursteinssonar. Er þessi ákvörðun, að koma smá lífi í kvennaboltan ekki af hinu góða? : „Að mínu mati er þetta frábært framtak því það þurfa að vera einhver verkefni og eitthvað sem tekur við þegar stelpurnar sem eru í yngri flokkunum komast upp. Það er ekki mikil hvatning fyrir stelpur sem virkilega vilja leggja sig fram og vilja spila fótbolta að þegar þær eru komnar í 4. flokk að þá sé í raun allt búið, þær komast ekki lengra í sinni íþrótt. Nema koma sér annað.“

Að því tilefni þá er nú við hæfi að spyrja Karitas hvort við eigum þá ekki von á því að sjá hana spila í treyju merkta BÍ/Bolungarvík ogsegir hún: „Ég hef einmitt sagt það síðan ég fór að vestan að ég færi ekki heim fyrst það væri ekki bolti fyrir mig. Núna er ég komin í þá stöðu að þurfa að endurskoða það fyrir alvöru. Viljinn til að spila aftur í heimatreyjunni er þó sannarlega til staðar, bara spurning hvað framtíðin ber í skauti sér.“ 


Að halda unglingum að íþróttum

Þegar það er ekki mikið sem tekur við, líkt og var hér áður t.d. í kvennaknattspyrnunni, ekkert sem tekur við hjá stelpunum eftir að þær eru búnar að ná upp í 4. flokk, þá er erfitt að halda þeim stelpum í íþróttum. Í lokaverkefni sínu við Háskólann í Reykjavík skoðaði Karitas brottfall ungs fólks úr íþróttum. Í heimildarvinnu sinni komst hún meðal annars að því að krakkarnir misstu áhugann á íþróttinni, vinirnir hættu og áherslan á keppni og afreksmennsku varð of mikil. Hvað er þá til ráða?: „Ég kom fram með hugmynd í lokaverkefni mínu hvernig megi koma í veg fyrir brottfall ungmenna úr íþróttum. Ein af þeim hugmyndum sem ég kom fram með var sú að íþróttafélögin biðu upp á tvær leiðir fyrir unglinga þegar þeir kæmust á ákveðinn aldur þar sem keppni og afreks hugsunin eykst. Önnur væri þessi sem núna er við líði að allir hugsi sér að verða það góðir að þeir komist upp í meistaraflokka síns félags og keppi til sigurs á Íslandsmeistaramótum og fleiru. Hin leiðin væri þá minni áhersla á keppni og sigur í keppni, minna álag og meira lagt upp úr félagslegu hliðinni. Þetta er auðvitað eitthvað sem þyrfti að skoða mjög vel og ekkert rosalega líklegt að mörg íþróttafélög myndu vera hrifin af þessu en það gæti þó hjálpað við að halda iðkendafjölda og með því að minnka álag og áherslur á keppni gætu þeir sem veldu þessa leið haldist í íþróttinni og jafnvel komið inn í afreksstarfið seinna meir ef vilji væri fyrir því hjá þeim.“

Nútíð og framtíð

Í dag er Karitas á fullu í boltanum og hyggst ekki ætla að hætta boltaeltingaleiknum á meðan vilji og geta er til. Hún er starfandi íþróttafræðingur á Leikskólanum Akur í Innri-Njarðvík. Þar starfar hún inni á deild stærstan part úr degi og er jafnframt því með skipulagða íþróttatíma á hverjum degi fyrir allar deildir. En það er þó ekki nóg vegna þess að hún er í þjálfun líka þar sem hún þjálfar 6.-7. flokk kvenna hjá Njarðvík í knattspyrnu: „Það þarf nú að nýta þessi UEFA B þjálfararéttindi í knattspyrnu sem maður er með“ segir Karitas og hlær. Það má því segja með vissu að daglegt líf Karitasar snúist mest megnis, ef ekki eingöngu um íþróttir.

Hvað um Bolungarvík eða Vestfirði, á einhverntíma að snúa heim?: „Staðan í dag er þannig að ég hef vinnu sem mér líkar, áhugamálið gengur enn upp og ég gæti ekki verið ánægðari. Hvað svo verður verður bara að koma í ljós. Get svo sannarlega hugsað mér að snúa aftur heim, heima er best að vera og ég segi öllum það oft og iðulega að besti staður landsins er Bolungarvík.“

Það er gott að vita til þess að Bolungarvík eigi sinn sess í hjarta brottfluttra og enn betra að vita til þess að hugurinn leitar alltaf heim, að heima sé best en því miður er það oftar en ekki atvinnan sem aftrar því að fólk snúi heim. Karitas lýkur viðtalinu og segir: „Eiginlega það eina sem vantar til að við flytjum vestur er framtíðarstörf fyrir okkur sem íþróttafræðingur og rafvirkji.“


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.