Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 21.3.2012 09:43:52 |
Góðar sögur og persónur út um allt

Kvikmyndin Slay Masters verður frumsýnd í Félagsheimili Bolungarvíkur Föstudaginn langa. Vegna aðsóknar og mikillar eftirspurnar var ákveðið að bæta við tveimur sýningum en þær verða laugardaginn 7. apríl kl. 14:00 og 16:00 svo sýningargestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að missa af Aldrei fór ég suður rokkhátíðinni.

 

Aðalmaðurinn

Maðurinn á bakvið myndina er Bolvíkingurinn Snævar Sölvi Sölvason. Snævar er sonur Sölva Rúnars Sólbergssonar og Birnu Guðbjartsdóttur í Bolungarvík. Snævar er elstur þriggja bræðra en yngri bræður hans eru þeir Tómas Rúnar og Bergþór Örn. 
Snævar lauk almennri skólagöngu við Grunnskóla Bolungarvíkur og varð stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði. Eftir menntaskólann lá leiðin til Reykjarvíkur í Háskólann í Reykjavík þar sem Snævar lagði stund á verkfræðinám. Að lokinni útskrift fékk Snævar sumarvinnu hjá Seðlabanka Íslands, um haustið var lítið fyrir hann að gera í höfuðborginni og kom hann því hingað vestur að vinna: „Maður á góða að og í lok nóvember hafði Kalli Gunn.- (Karl Ágúst Gunnarsson) samband við mig og bauð mér að koma vestur að slægja fyrir sig. Ég þáði það um leið og dreif mig heim.“

„Þú ert alltaf þú“

Snævar hefur alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar Snævar er beðinn um að segja frá kvikmyndaáhuganum líkir hann til að mynda ferðum sínum í kvikmyndahús á sínum yngri árum við pílagrímsferð múslima til Mekka. Snævar var einnig tíður gestur á kvikmyndaleigum bæjarins, Finnabæ og Tröð þegar þeir staðir voru enn við lýði, þar sem hann leigði spólurnar eða lét það duga að skoða spólu hulstrin tímunum saman. Af hverju þessi brennandi áhugi á kvikmyndum?: „Ég veit það ekki nákvæmlega. Til að mynda að þá er ég og Tommi bróðir minn á svipuðum aldri, við áttum þar með sömu vinina, vorum saman í hinum ýmsu tómstundum, íþróttum og félagslífi og þar sem við erum bræður fengum við sama uppeldið. Við vorum samt ólíkir að því leyti að á meðan Tomma bróður, sem nú er véltæknifræðingur, fannst bílar, vélar og í raun allt sem er vélknúið merkilegur pappír þá voru það kvikmyndirnar sem voru á toppnum hjá mér. Svo ég hugsa að sama hvert umhverfið er, þú ert alltaf þú held ég. Þannig að það er sennilega eitt af því mikilvægasta sem maður gerir er að reyna að átta sig á því hvert maður vill stefna.“

 „Það má segja að ég hafi séð ljósið“

Sá draumur að búa til kvikmynd hefur blundað lengi í Snævari: „Þegar ég var yngri var ég búinn að ákveða það að ef ég yrði ríkur karl einhvern tímann að þá myndi ég nota peninginn til að búa til mína eigin bíómynd. Svo í fyrra frétti ég af nýju DSLR myndavélunum frá Canon sem gátu nú tekið upp video í HD gæðum. Þá sá ég að nú væri loksins möguleiki á að henda sér út í kvikmyndagerð fyrir lítinn pening og viðunandi myndgæði.“ 
Það var í Menntaskólanum á Ísafirði sem Snævar fór að fikta við kvikmyndagerð þar sem hann tók þátt í stuttmyndasamkeppni ásamt félaga sínum Birgi Olgeirssyni. Ekki vill Snævar fara náið út í söguþráð myndarinnar en hún bar nafnið Vestfirsk bændaglíma og var hún tekin upp í Þjóðólfstungu á litla videoupptökuvél sem þeir fengu lánaða. Snævar lét einnig að sér kveða í kvikmyndagerð í HR. Í Háskóla Reykjavíkur tíðkast það að gera árshátíðarannál sem er sýndur á breiðtjaldi fyrir nemendur og kennara verkfræðideildarinnar. Snævar segist hafa náð að kjafta sig inn í þann hóp sem sá um annálinn það árið. Árið eftir voru Snævar og vinur hans beðnir um að gera annál fyrir sameiginlega árshátíð allra deilda skólans. Í því ferli segist Snævar hafa séð ljósið: „Loksins fannst mér ég flinkur í einhverju og að eyða í þetta dag og nótt skipti mig engu máli, mér þótti þetta gaman og leit aldrei á þetta sem einhverja vinnu.“

Slay Masters

Hvaðan kom nafnið, Slay Masters?: „Þetta byrjaði sem vinnutitill. Ég vildi gefa sögunni titil áður en ég skrifaði fyrstu senuna og Slay Masters var það fyrsta sem kom upp í hugann. Á meðan ég var að skrifa handritið frestaði ég því alltaf að finna íslenskt heiti á myndina. Þegar við strákarnir byrjuðum að taka upp þá fór þetta uppátæki okkar að fréttast. Það var síðan á einu ballinu um sumarið að ég var spurður hvenær „Slay Masters“ yrði tilbúin. Þá hugsaði ég með mér að nú væri of seint að breyta um titil, enda í góðu lagi, ég er bara nokkuð ánægður með þetta nafn.“

Hugmynd verður að kvikmynd

Hugmyndin að kvikmyndinni Slay Masters kviknaði hjá Snævari á hans öðrum degi í vinnu, þá á föstudegi. Daginn eftir, á laugardegi, voru allir starfsmenn Fiskmarkaðarins á leið á jólahlaðborð og fékk Snævar það verkefni að sjá um slæginguna ásamt nokkrum afleysingarstrákum. Í vöskum hópi manna er alltaf stutt í grín og glens og vitanlega voru lagðar línurnar fyrir kvöldið eftir vinnu. „Ég hugsaði með mér hvað þetta væri góður efniviður í kvikmynd, þetta væri allavega mynd sem mig sjálfan myndi langa til að sjá, þar með var hugmyndin fædd. Ég skráði strax hjá mér nokkra punkta varðandi söguþráðinn og bar hugmyndina undir Tomma, sem leist vel á, og hófst ég þá handa við að skrifa handritið.“
Snævar segir það ekki hafa verið mikla vinnu að skrifa handritið, þar sem hann þekkti vel umhverfið sem sagan gerist, skrifin tóku um viku tíma. Það hjálpaði einnig mikið til að vera með markmið söguþráðarins á hreinu: „Markmiðið var að fanga andrúmsloftið sem ríkir á svona vinnustað, þ.e.a.s. slægingar/beitningarstemninguna þar sem ekkert er heilagt.“ Snævar er hrifinn af því þegar einfaldur hversdagsleikinn skín í gegn í kvikmyndum: „Hvað er meira hversdags en þegar aðal dramað í sögunni er að menn munu kannski ekki komast á djammið af því að þeir þurfi að vinna?“ segir Snævar. Söguþráður myndarinnar er því að mestu leyti byggður á reynslu og sögu Snævars, ungur maður kemur aftur á heimaslóðir eftir „mislukkaða“ frægðarför suður og þarf að sjá um slæginguna ásamt hressum afleysingarmönnum á laugardegi, sama dag og hið margrómaða sjómannadagsball er haldið.
Handritið var samt sem áður ekki ritað í stein, heldur var það meira notað sem stuðningur meðfram sögunni. Þannig fengu leikendurnir lausan tauminn í samtölum sín á milli: „Sérstaklega held ég upp á eitt atriði þar sem hið fræga óheflaða hafnarmálfar er í allri sinni dýrð , en það er eingöngu spunið á staðnum. Mörg atriðin þróuðust í allskonar óvæntar áttir en sagan hélt alltaf sínu striki“ segir Snævar.

Þetta er áhugamannamynd, þar sem reynslan er lítil og enn minni tækniþekking

Slay Masters gerist að sumri, þar sem vinnumennirnir, eins og fram hefur komið, eru að keppast við að klára fiskinn í þeim tilgangi að komast á sjómannadagsball. Myndin er að mestu tekin í ágúst, fyrir utan nokkur kvöld í júlí. Snævar segir að 7-8 kvöld hafi farið í tökur þar sem allir leikarar myndarinnar voru á staðnum. Allt frá upphafi vildi Snævar hafa kvikmyndina hráa, þar sem þetta væri áhugamannamynd og þannig söguþráður og umhverfi að það passaði ekki að hafa alla hluti skipulagða, fullkomna og útpælda.
Til að mynda notaði Snævar ekki þrífót eða önnur sambærileg tól sem oftast nær eru notuð í kvikmyndagerð, heldur fór hann sínar eigin leiðir: „Ég útbjó „steadycam“ græju undir myndavélina úr eldgömlum síldargaffli með stálsökkvu hangandi í miðjunni til að fá gott jafnvægi og elti strákana þannig í löngum tökum.“ 
Einnig til að draga ekki úr raunverulegu andrúmslofti var engu hróflað til á Fiskmarkaðinum: „Það hefði í sjálfu sér verið hægt að búa þannig um hnútana inni í vinnslusal sem dæmi, að slökkva á færibandinu og öðrum hávaðasömu maskínum, svo hljóðið hefði verið kristaltært í þeim atriðum sem gerast þar. En ég held að það hefði dregið úr sjarmanum. Ef það kviknaði skyndilega á kæliblásurunum, bíll keyrði framhjá eða hvað sem svo gerðist sem orsakaði hávaða, að þá var atriðið ekki tekið upp aftur ef strákarnir héldu sínu striki.“

Youtube leiddi mig áfram í því ferli að klippa myndina

Þegar tökum var lokið eyddi Snævar haustinu í að klippa myndina: „Klippingin tók dágóðan tíma þar sem ég hafði aldrei klippt áður. En það mjakaðist allt saman og leiddi Youtube vefurinn mig í gegnum ferlið skref fyrir skref.“ Í febrúar hafði hann lokið við að klippa myndina og fékk félaga sinn úr háskólanum, Ólaf Sölva Pálsson, til þess að sjá um frekari eftirvinnslu á myndinni. „Mér fannst mikilvægt að fá einhvern sem væri með ferska og hlutlausa sýn á þetta allt saman, því að Óli vissi ekkert hvað það var að slægja né þekkti hann strákana sem léku í myndinni.“ segir Snævar.

Bolvíkingar eru bara höfðingjar og eðalmenni upp til hópa

Snævar vill koma fram þökkum til þeirra sem lögðu hönd á plóg við gerð myndarinnar: „Kalli Gunn, á mikið þakklæti skilið fyrir að leyfa okkur á taka upp á markaðnum. Þeir sem styrktu verkefnið eiga líka þakklæti skilið, með styrkjunum gátum við borgað Óla tæknimanni, leigt húsnæði og keypt auglýsingarplaköt. Að safna styrkjum er að ganga mjög vel því Bolvíkingar eru náttúrulega bara höfðingjar og eðalmenni upp til hópa.“

„Á fyrsta tökudegi komu menn sér bara í gírinn“

Í handritinu sem Snævar skrifaði voru engar sérstakar lýsingar á þeim persónum sem fram koma í kvikmyndinni: „Á fyrsta tökudegi komu menn sér bara í gírinn og þeirra persónur fæddust á staðnum. Ég var ánægður með hvað strákarnir bjuggu til skemmtilegar persónur án þess að ég hafi eitthvað verið að skipta mér af því“ segir Snævar um þá sem komu að myndinni ásamt honum. Þeir sem mynda slægingarteymið í myndinni Slay Masters eru þeir Tómas Rúnar Sölvason, Magnús Traustason, Eyþór Bjarnason, Elmar Ernir Viðarsson og Paul Lukas Smelt. Þeir fá þó ekki einir að baða sig í sviðsljósinu því aðrir litríkir karakterar koma við sögu, en það eru þeir Jóhann Ólafur Högnason, Einar Ægir Hlynsson, Pétur Geir Svavarsson og Wannawatt Khinsinthian. Snævar sá um kvikmyndatökuna og lék einnig aukahlutverk en þeir Ágúst Svavar Hrólfsson og Einar Bragi Guðmundsson aðstoðuðu hann við kvikmyndatöku.

Góðar sögur og persónur út um allt

Snævar situr ekki auðum höndum, þó svo að fyrsta kvikmynd hans sé tilbúin. Hann er búinn að skrifa handrit að annarri mynd í fullri lengd og hálfnaður með tvö önnur: „Ég varð bara að koma þessum sögum frá mér á meðan þær væru enn ferskar í minni, þrátt fyrir að ég sá fram á að geta ekki kvikmyndað þær nema með töluverðu fjármagni. En góðar sögur renna ekkert út þó þær safni smá ryki uppi í hillu.“ segir Snævar um dugnað sinn í skrifum. Þess í stað segir Snævar að sniðugt sé þá bara að reyna að sjá efnivið í umhverfinu sem má mynda fyrir lítið sem ekkert fé: „Ég meina, það eru góðar sögur og persónur út um allt, ef maður bara staldrar aðeins við og lítur í kringum sig. Slay Masters er sprottin út frá einum vinnudegi í slægingu, svo það þarf ekki alltaf mikið til að hnoða einhverju saman.“


Hér er hægt að horfa á Credit sequence(opnunarena) myndarinnar

Hér er hægt að horfa á trailer myndarinnar

Hægt er að leggja inn miðapantanir með eftirfarandi hætti:
Senda tölvupóst á : vikurbio@gmail.com
Senda póst í inbox: http://www.facebook.com/SlayMasters
Hringja í síma: 847-8113 eða 867-7818

Miðaverð er 1000 krónur.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.