Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 4.8.2012 16:51:07 |
Ég hafði alltaf virkilega gaman af því að setjast niður með írökunum og spjalla um lífið, tilveruna og trúna

Magna Björk Ólafsdóttir er dóttir hjónanna Ólafs Þórs Benediktssonar og Guðjónu Jóhönnu Guðjónsdóttur. Fréttst hefur af Mögnu víðsvegar um heiminn í vinnu sinni og vildi Víkari.is þess vegna fá að heyra af því sem hún hefur verið að gera og hvað það er sem næst er á dagskrá hjá Mögnu. Ferðasögur hennar eiga vel við á helgi sem þessari þar sem flestir eru á faraldsfæti.  

Magna er hjúkrunarfræðingur að mennt og lauk því námi árið 2004 frá Háskólanum á Akureyri. Í framhaldsnámi sínu frá Háskóla Íslands nam hún bráðahjúkrun. Magna talar um áhuga sinn á að starfa við hjálparstörf: “Það hafði löngum blundað í mér að starfa á erlendum vettvangi við hjálparstörf en sá það fyrir mér í ókominni framtíð þegar ég hefði öðlast nægilega reynslu í starfi mínu til að geta  tekist á við þau verkefni sem yrðu á vegi mínu þar.”

Það er enginn annar en maður sjálfur sem lætur drauma sína rætast og fór Magna árið 2010 á sendifulltrúa námskeið hjá Rauða kross Íslands: “Eftir að ég fór á sendifulltrúa námskeiðið hef ég farið tvisvar í sendiför fyrir Rauða Krossinn.” Það má með sanni segja að Magna hefur farið á staði sem hennar hefur verið þörf: “Mín fyrsta ferð var til Haíti eftir jarðskjálftann 2010 – þar dvaldi ég í 6 vikur og starfaði á tjaldsjúkrahúsi sem þýski og finnski Rauði krossinn hafði sett upp fljótlega eftir sjálftann.” Magna starfaði á slysadeild sjúkrahússins og var þar til staðar fyrir haítísku hjúkrunarfræðingana sem þar störfuðu. Hún aðstoðaði hjúkrunarfræðingana m.a. við dagleg störf, leiðbeinti og þjálfaði, allt eftir því sem aðstæður kröfðust. Þrátt fyrir að Magna hafi verið á jarðskjálftasvæðinu fimm mánuðum eftir skjálftann var þörfin mikil: “Spítalinn starfaði sem bráðaspítali og tókum við einungis við bráðatilfellum. Á venjulegum degi sinntum við c.a. 200-300 sjúklingum á slysadeildinn sem voru á öllum aldri.” Það er von að maður spyrji hvernig aðstæður voru í tjaldsjúkrahúsinu sem Magna starfaði við? “Tilfellin sem við sinntum eru sum hver ekki kunnug í vestrænum löndum, þ.e. sjúkdómar sem vegna okkar góða heilbrigðiskerfis sjást ekki hérna lengur og auðvelt er að fyrirbyggja með bólusetningum og góðu eftirliti. Mörg af þeim tækjum og tólum sem maður er vanur að hafa við hendina voru af skornum skammti. Vegna þessa var gott að vera úrræðagóður og treysta á þá grunnkunnáttu sem maður hefur úr námi og vinnu. Ég var sem betur fer svo heppin að ég hafði góða og reynda sendifulltrúa að leita til þegar ég var ráðalaus og vantaði aðstoð.”

Hvernig tilfinning er það að fara frá Íslandi til Haítí þar sem svo gífurleg eyðilegging hefur átt sér stað líkt og gerðist í jarðskjálftunum?: “Áður en ég fór út var ég búin að fylgjast vel með fréttum frá Haíti og skoða aragrúa af myndum og myndböndum. Það var þó ekkert sem gat undirbúið mig fyrir það sem ég sá. Á leiðinni að sjúkrahúsinu frá flugvellinum fyrsta daginn leið mér eins og ég væri stödd í bíómynd. Orðleysi lýsir því einna best. Aðstæðurnar, eyðileggingin, tjöld á umferðareyjum þar sem börn hlupu um, skolpið og fólk alls staðar.”

Þeir sem höfðu gengið í gegnum mikla erfiðleika vegna skjálftanna, íbúar Haítí hvernig voru þeir? : “Haítibúar eru með eindæmum geðþekkt og yndislegt fólk. Það var unun og mikill heiður að fá að vinna við hlið þeirra, læra af þeim og kynnast þeim. Þrátt fyrir það sem þjóðin hafði gengið í gegnum var brosið alltaf til staðar, jákvæðnin í huga og einn dagur tekinn í einu.”

Ári seinna, 2011, hélt Magna til Írak, þar starfaði hún í þrjá mánuði fyrir Alþjóðaráð Rauða krossinn. Í Írak bjó Magna í suðurhluta landsins í borginni Najaf. Hvernig borg er Najaf?: “Najaf er ansi stór borg staðsett nánast í eyðimörkinni. Þar er sandur alls staðar og mjög þurrt loftslag. Najaf er borg þar sem sija múslimar eru í miklum meirihluta og er fólkið þar mjög trúað. Miklar reglur varðandi samskipti og hegðun voru til staðar og öryggisgæslan ströng. Ég get nefnt dæmi, þegar karlmanni er heilsað þá réttir maður ekki fram höndina, þ.e. kvennmenn, nema ef karlmennirnir gera það af fyrra bragði, sem er afar sjaldgjæft. Við kvennmennirnir klæddum okkur samkvæmt múslimskum sið í Najaf og bárum slæður sem huldu allt hár og háls  (hijab)og klæddumst hálfgerðum kápum sem voru skósíðar (abaya), alls staðar nema heima við. Það vantist ansi fljótt að klæða sig svona og hafði sína kosti í þessu umhverfi. Þar sem trúin er mjög ríkjandi og partur af þeirra menningu þá var mikilvægt að bera virðingu fyrir því og m.a. passa upp á að nemendur okkar og starfsmenn fengur pásur til að fara að biðja, en það gera þeira  allt að 5 sinnum á dag. Það var því ekki óalgengt að nemendurnir tækju bænamotturnar með sér í kennsluna hjá okkur.” Í Najaf starfaði Magna í teymi, ásamt þremur öðrum hjúkrunarfræðingum: “Teymið mitt sá um að kenna hjúkrunarfræðingum og læknum um móttöku og meðferð bráðveikra og slasaðra. Allir nemendurnir voru karlmenn sem störfuðu á bráðamóttökum, gjörgælsudeildum og skurðsofum á spítölum víðsvegar um Írak. Kennslan var mjög skemmtileg. Við höfðum túlka okkur við hlið þar sem enginn okkar talaði arabísku, hjúkrunarfræðingarnir virtust mjög áhugasamir að læra og vonandi hefur þetta skilið e-ð eftir sig hjá þeim og í þeirra vinnu.”

Á meðan á dvöl þinni stóð, gastu þá skoðað þig að einhverju leiti um í Írak?: “Mér gafst tækifæri til að sjá örlítið af landinu sem var ómetanlegt. Ekki langt frá eyðimörkinni var að sjá gróðursæla náttúra með pálmatrjám og í Kúrdistan í norðri gnæfðu gullfalleg fjöll og ævintýralegar fjallaleiðir með vötnum víðsvegar við vegina. Landið er undurfagurt og á margar heillandi sögur t.d. tengdar bíblíunni sem og átakanlegum sögum af því sem þjóðin hefur þurft að ganga í gegnum vegna átaka og stríðum gegn Íran og Bandaríkjunum. Ég hafði alltaf virkilega gaman af því að setjast niður með írökunum og spjalla um lífið, tilveruna og trúna, sérstaklega konunum. Mér gafst tækifæri til að fara og skoða Babýlon, þá fornu og frægu borg. Þeirri ferð á ég aldrei eftir að gleyma” Þú talar um að íbúar Najaf hafi verið mjög trúaðir, reyndist þér ekki erfitt að fara inn í það samfélag?: “ Írak kom mér verulega á óvart. Fólkið var indælt og almennilegt og gott heim að sækja. Írakar báru virðingu fyrir mér og minni trú og menningu og varð ég aldrei vör við virðingarleysi gagnvart mér, verandi kvenmaður. Á móti reyndi ég að virða þeirra trú og menningu eins ólík og hún er því sem ég er vön hér heima. Það tók að sjálfsögðu smá tíma að finna út hvernig samfélagið var og hvernig var best að nálgast fólkið, en var með frábærum hóp sendifulltrúa sem leiðbeintu mér og útskýrðu fyrir mér. Einnig leitaði maður til írakanna sem unnu með mér t.d. fékk ég einkakennslu með stelpunum í því hvernig væri best að setja slæðuna á hárið og mér var kennt ýmsar mismunandi leiðir til þess” 

Hefur einhverntíman verið hætt við sendiför sem þú áttir að fara í?: “Eftir að heim kom frá Írak stóð til að næst færi ég, á vegum Rauða krossins, til Pakistan að starfa á sjúkrahúsi sem meðhöndlaði sjúklinga með áverka sökum vopnaðra átaka. En stuttu fyrir áætlaða brottför var hætt við þá ferð sökum öryggisaðstæðna í Pakistan.” Það má því segja að öryggi ykkar fulltrúanna sé sett í fyrsta sæti?: “Öryggi sendifulltrúa er afar mikilvægt og er því reynt að tryggja það eins vel og hægt er. Það eru ákveðnar reglur sem við þurfum að fylgja án undartekninga. Óvopnaðir öryggisverðir eru ávallt þar sem við búum og stundum þurfa þeir að fylgja manni hvert sem maður fer. Þar sem ég hef verið hafa verið tiltölulega strangar öryggisreglur. Svo gildir hin almenna skynsemi alls staðar eins og að vera ekki að þvælast einn á ferð og ekki vera á ferli eftir myrkur osfrv. Hegða sér fallega, vera kurteis og bera virðingu fyrir því landi og þeirri menningu sem er ríkjandi í hverju landi.” Hefur þá aldrei komið upp þær aðstæður að þú hefur orðið hrædd?:” Það eru alls staðar hættur og því mikilvægt að fylgja ávallt öryggisreglum því það er ástæða fyrir því að þær eru settar. Ég get ekki sagt að ég hafi  hingað til orðið neitt gífurlega hrædd eða lent í aðstæðum þar sem ég upplifði mig í mikilli hættu. Að sjálfsögðu hef ég þurft að anda djúpt stöku sinnum en ástæður þess hafa aðallega verið  að ég hef verið í aðstæðum sem ég þekki ekki og er ekki vön að sjá upplifa hér á Íslandi.”

Þú ákvaðst það snemma að þig langaði að vinna við hjálparstörf, það má því segja að þú sért að vinna í draumastarfinu?: “Já, ég hef verið svo lukkuleg að hafa fengið tækifæri til að starfa við draumajobbið. Hef oft þurft að klípa mig í handlegginn úti, bara til að athuga hvort þetta sé í alvörunni að gerast. Það að vinna og búa erlendis við mismunandi aðstæður er afar lærdómsríkt og eitt það skemmtilegasta og oft á tíðum erfiðasta starf sem ég hef verið í. ” Hvernig er valið það  fólk sem er að fara út í þessi verkefni eins og þú? Ertu hluti af einhverju teymi?: “Eftir að maður lýkur sendifulltrúanámskeiðinu hjá RKÍ þá fer maður á svokallaða Veraldarvakt. Það þýðir að maður er tilbúinn til að fara erlendis að vinna ef þörf krefur og þá er haft samband við mann. Varðandi lækna án landamæra þá lagði ég inn umsókn hjá þeim  og var í kjölfarið kölluð í viðtal og send á undibúningsnámskeið. Þessi samtök eru ekki starfandi frá Íslandi þannig að ég fór í gegnum samtökin í Svíþjóð.”

Í ferðum þínum má segja að þú fáir trúarbrögð og menningu landanna sem þú ert í beint í æð, það hlýtur að vera spennandi: “Mér finnast trúarbrögð og menning afar áhugaverð og því virkilega gaman að fá að kynnast þeirri hlið beint frá fólkinu í landinu sem maður er staddur í hverju sinni,  en ekki frá bókum eða fréttum. Það sem maður les er ansi oft ólíkt því sem maður sér, heyrir og upplifir. Ekki síst lærir maður gífurlega mikið um sjálfan sig, sín viðbrögð, skoðanir og kemur reynslunni ríkar heim með aðeins öðruvísi sýn á lífið, tilveruna og sjálfan sig. Oftar en ekki fylgir gífurlegt þakklæti og heiður að hafa fengið að kynnast fólkinu, landinu og siðum þeirra og sjá hvað við höfum það ansi gott hér heima.”

Núna ertu hérna heima á Íslandinu góða, hvað næst?:”Í augnablikinu stendur yfir undirbúningur fyrir þriðju ferðina en þann 8. ágúst mun ég fara til Sierra Leone þar sem nú ríkir kóleru faraldur og mun ég starfa á vegum Lækna án landamæra (Médicine sans Frontiers/Doctors without borders) í 6 vikur og hlakka ég mikið til að fá að takast á við það verkefni.”

Víkari.is þakkar Mögnu fyrir spjallið og óskar henni góðrar ferðar og velfarnaðar í starfi.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.