Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 21.5.2014 10:08:39 | Þóra Hansdottir
Hvers vegna?

Þegar stórt er spurt, verður oft fátt um svör. Það heyrist oft þegar rætt er um bæjarmálapólitíkina í Bolungavík, að í svona litlu bæjarfélagi eigi nú bara að vera einn listi, fólk eigi að koma sér saman, því öll viljum við jú Bolungavík allt það besta.  Ég er ekki sammála því að Bolungavík sé nógu lítil fyrir einn lista, alveg sama hvað margir “óháðir “ eru á lista sjálfstæðisflokksins, það er alltaf nauðsyn á heilbrigðri gagnrýni. M listinn er kannski ekki alveg það sem ég sá fyrir mér í upphafi, en ég hef hrifist með og látið sannfærast. Ef  þetta er leiðin, sem fólk hvað er að stíga sín fyrstu spor á  grýttum vegi stjórnmála vill fara, þá styð ég það heilshugar. Ég skil líka vel að þessar kátu konur, sem langar til að hafa áhrif í samfélaginu, vilji hafa sér til halds og trausts, reyndar og  sterkar persónur, það er ómetanlegt fyrir okkur að fá að vera með og hjálpa þeim að þjappa saman og slípa allt þetta mikla afl, sem kraumar og ólgar í æðum þeirra. Þær stöllur Sossa og Stella eru stundum gagnrýndar fyrir að vera áberandi. Getur verið að einhverjum finnist að þær séu einum of mikið fyrir að hlusta á raddir fjöldans og koma þeim á framfæri. Þá segi ég nú bara. Gott hjá þeim.  Mér finnst betra að fólk tjái sig og maður viti hvar maður hefur það, heldur en að það vinni allt í skjóli nafnleyndar, jafnvel þótt vinnan sé stundum góð. Við Bolvíkingar þurfum á því að halda að standa saman um allt það er viðkemur bænum okkar, ef við erum vel upplýst, þá erum við betur í stakk búin til að mynda okkur skoðanir og taka afstöðu.  Halldóra Dagný, Guðlaug Rós, Birna Hjaltalín og allar hinar; Ég hlakka svo mikið til að fylgjast með ykkur og sjá ykkur þroskast á þessum vettvangi og ég  veit svo vel að hugsjónir ykkar eru sterkar og  samfélagsvænar. Eftir næsta kjörtímabil verðið þið búnar að öðlast það sjálfstraust, sem gerir ykkur kleyft að standa keikar og þá munuð þið leiða til ábyrgðar nýliða, eins og þið viljið láta styðja ykkur nú. Það er líka svo gott þegar kynslóðir vinna saman, æskan hefur djörfungina en ellin reynsluna.

 

Þóra Hansdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.