Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 23.5.2014 11:02:46 | Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir
Með ungu fólki kemur aukinn kraftur

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir heiti ég og ég er Bolvíkingur.

 

Með ungu fólki kemur aukinn kraftur. Ég er óháð öllum flokkslínum en ég er samkvæm sjálfri mér, mínum skoðunum og minni sannfæringu í þeim málum sem snerta mig og mitt samfélag – ég tek ekki sæti á lista til þess að vera upp á punt.  Ég ákvað að slást í hópinn með Sjálfstæðismönnum og óháðum  vegna þess trausts sem þeir aðilar sem að listanum standa njóta í samfélaginu.  Í öllum samskiptum við það reynslumikla fólk sem listann skipar hefur það skinið í gegn að mínar hugmyndir eru metnar að verðleikum, á mig er hlustað, krafta minna er óskað og ég mun fá að hafa áhrif.
 

Ég hef ekki tamið mér það að dvelja við fortíðina,  að vera stöðugt að horfa í baksýnisspegilinn. Við verðum að lifa í núinu og horfa til framtíðar. Á meðan Sjálfstæðismenn og óháðir hafa verið í meirihluta er búið að greiða úr mörgum flækjum fortíðar, m.a. hvað varðar fjármál.  Áætlanir eru unnar með raunhæfum hætti og  í takt við þá framtíðarsýn sem við höfum fyrir bæjarfélagið. Slíkt raunsæi heillar mig, mér þykir það traustvekjandi og ég vil starfa með það að leiðarljósi. Góðar hugmyndir eru æðislegar – en það þarf líka að vera hægt að framkvæma þær.

 

Í Bolungarvík er fjölbreytt samfélag. Að mínu mati þurfum við að hlúa að þessum fjölbreytileika frekar en að óttast hann. Við erum ekki stórt samfélag og því æskilegt að við hugum að heildinni og samheldninni. Við höfum ekki efni á því að horfa framhjá ákveðnum hópum samfélagsins. Ég tel t.d. að við þurfum enn frekar að leita leiða til að auka virkni nýbúa í samfélaginu, til að nýta þann mikla mannauð sem í þeim er að finna. Eins ber okkur að hlúa vel að þeim sem byggt hafa upp samfélagið sem við erfum. Við þurfum að tryggja velferð þeirra, úrræði í húsnæðismálum og greiða leið þeirra í leik og starfi á efri árum.

 

Að sama skapi tel ég nauðsynlegt að við tryggjum áframhaldandi vilja barnafólks til þess að búa í Bolungarvík, t.d. með öruggum dagvistunarúrræðum en það er alveg ljóst að slá verður á þann kvíða sem fólk hefur oft búið við í þeim efnum. Þá er jafnvel spurning hvort vert sé að skoða möguleikann á því að mæta þörf fyrir dagvistun stálpaðra barna þegar grunnskólaárinu lýkur með því að lengja starfsár dægradvalar.

 

Ég trúi því að framtíðin sé björt í Bolungarvík ef rétt er haldið á spöðunum. Í skólunum okkar er unnið mjög gott starf og þar er vissulega horft til framtíðar. Þar stendur nú yfir mikil tæknivæðing sem ég tel mikilvægt að við stuðlum áfram að. Möguleikar tækninnar eru óþrjótandi og með þátttöku, útsjónarsemi og víðsýni getum við hámarkað veganesti barna okkar til framtíðar og þar með stuðlað að áframhaldandi vexti og mannauði.

 

Sá tími sem í hönd fer er tilhlökkunarefni hjá mér. Ég hlakka til þess að takast á við þau verkefni sem framundan eru, læra nýja hluti og eiga áfram í skemmtilegum samskiptum við fjölbreyttan hóp íbúa í Bolungarvík.

 

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.