Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 26.5.2014 00:54:32 | Margrét Jómundsdóttir
Vor í Bolungarvík

Ég heiti Margrét Jómundsdóttir og er 34.ára. Ég hef gefið kost á mér í 2.sætið á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík í komandi kosningum. Ég sinni heimilishjálp hjá félagsþjónustu Bolungarvíkurkaupstaðar ásamt því að sjá um veðurathuganir fyrir Veðurstofu Íslands.

 

Ég man ekki eftir mér öðruvísi en með fullt fangið af verkefnum. Foreldrar mínir ráku stórt kúabú og snemma fór ég að sinna bústörfum og heimilsverkum við hlið foreldra minna og systkina. Þetta var krefjandi og skemmtilegt en störfin voru eins ólík og þau voru mörg. Eftir grunnskóla hóf ég nám við Framhaldsskólann á Laugum en hélt heim á sumrin og hjálpaði til við bústörfin ásamt því að stunda vinnu í Hreðavatnsskála. Eftir stúdentsprófið var haldið út á vinnumarkaðinn.  Árið 2006 lauk ég námi frá NTV í skrifstofu- og tölvunámi.

 

Ég kynntist sambýlismanni mínum Guðmundi B. Jónssyni árið 2006.  Eigum við saman tvo syni en fyrir átti ég einn son.  Árið 2009 varð Víkaranum að ósk sinni um að flytjast vestur á firði.  Það er engin lygi að Vestfirðirnir heilla.  Samfélagið tók ágætlega á móti mér og hefur tengdafjölskyldan, sem og annað gott fólk, verið mér innan handar á einn eða annan hátt. Hér höfum við sinnt okkar vinnu og áhugamáli, sem flokkast með þeim tímafrekari, þ.e.a.s hestamennsku.  Ekki kom til greina að skilja hestana eftir. Eitt er það við að búa í litlu samfélagi að allir eiga sín viðurnefni.  Ekki hef ég farið varhluta af því.  Verið tiltluð sem  SAS manneskja þ.e. sérfræðingur að sunnan og AA manneskja ( með fullri virðingu fyrir AA samtökunum)  sem á tungumáli Víkara þýðir aðfluttur andskoti.  En húmorslaus er ég ekki þannig að ég hef hlegið að þessu enda ekki annað hægt þar sem, þrátt fyrir allt, standa þeir frammi fyrir því að þurfa að kenna mig við sambýlismanninn til þess að kunna á mér deili. Er ég því rétt og slétt nefnd Margrét hans Gumma Bjarna.

 

Ég hef haft brennandi áhuga á hvers kyns samfélagsmálum síðan ég man eftir mér og unnið að gefandi verkefnum með skemmtilegu fólki.  Að mínu mati þurfa sveitastjórnarmál að snúast um fólk og málefni, en ekki endilega ákveðna flokka.  Þó okkur greini kannski á um aðferðir viljum við öll bænum okkar það besta, sama hvar við stöndum. Þess vegna vildi ég taka sæti á lista Sjálfstæðismanna og óháðra. Listinn er skipaður fólki með ólíka reynslu, bakgrunn og áhuga sem að endurspeglar samfélagið okkar.

 

Fyrir mér er rekstur á litlu sveitarfélagi svolítið eins og að reka heimili. Það er í mörg horn að líta en með skynsemi og útsjónarsemi má gera mikið úr litlu. Það þarf líka að passa vel upp á að öllum á heimilinu líði vel og séu virkir þáttakendur í heimilislífinu, hver á sinn hátt og enginn má gleymast. Vonandi getur reynsla mín, áhugi og sýn orðið okkur öllum að gagni við að gera góðan bæ enn betri.

 

Margrét Jómundsdóttir. 

Höfundur skipar 2.sæti á D - lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.