Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 26.5.2014 00:58:15 | Guðrún Stella Gissurardóttir
Hvað þarf til að lítið sveitarfélag eins og Bolungarvík dafni

Svarið er yngra fólk, þekking, hugmyndaauðgi , samstarf og útsjónarsemi. 

Ekkert samfélag þrífst ef unga fólkið fer. Því þurfum við að skapa þá umgjörð samfélagsins sem laðar ungt fólk að með samfélagi þar sem íbúarnir eru upplýstir, hafa sjálfir áhrif og þörfum þeirra er mætt með því að kalla eftir hugmyndum íbúanna og vel er tekið á móti nýjum íbúum með góðri upplýsingagjöf. 

Samfélag í síbreytilegri veröld margmenningar og tækniframfara þarf á að halda hugmyndaauðgi og þekkingu til að takast á við þá þróun sem er. Hugmyndaauðgi sem sér tækifærin og möguleikanna og hefur þekkingu að vopni til að nýta sér þau. Það að hrinda breytingaferli af stað þarf líka samstarf og teymisvinnu. Samstarf ólíkra aðila sem eru tilbúnir að róa í sömu átt. Að skapa ný og fjölbreytt atvinnutækifæri sem hentar fjölbreyttum hópi íbúa og hvetur íbúanna til atvinnusköpunar á hinum ýmsu sviðum. Samstarf til að efla menningarlíf, félagsstarf og það sem gleður íbúa því maður er manns gaman. Samvera kætir, eykur jákvæðni, dregur úr fordómum og eflir samhyggð og samstarf eykur líkur á árangri. Og það þarf hagsýnar húsmæður á bæjarheimilið sem geta fundið leiðir að markmiðum með sem minnstum tilkostnaði og meiri tekjuöflun með öðrum orðum skapandi fjármálastjórnun.

Ég hef áður birt grein um hvernig ferðaþjónusta hefur skákað sjávarútvegi í gjaldeyrisöflun. Báðar þessar atvinnugreinar sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru afar mikilvægar. Aðra þarf að standa vörð um enda enn undirstaða bolvísks samfélags en um leið er mikilvægt að þróa hana áfram til að auka enn meira virði afurðanna og aðstoða við markaðsstarf á sjávarafurðum en eins og ég hef áður bent á mun hefðbundnum störfum í fiskvinnslu fækka mjög með aukinni sjálfvirkni. Hina þarf að þróa nánast frá grunni og þar skiptir sveitarfélagið höfuð máli með að ráðast í þau verkefni sem eru nauðsynleg til að hægt sé að byggja greinina upp. 

Það þarf að ráðast í stefnumótun í atvinnumálum og byggja upp innviðina, auka þekkingu, breyta ásýnd bæjarins, merkja gönguleiðir, vinna að gagnasöfnun um menningu og sögu, stunda rannsóknir, gera upplýsingaefni, leiða saman aðila til að þróa nýjar afurðir í ferðaþjónustu s.s. námskeiðstengda ferðaþjónustu, vetrarferðaþjónustu, heilsutengda ferðaþjónustu, sjávartengda ferðaþjónustu, menningartengda ferðaþjónustu, náttúrutengda ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja og vinna að markaðssetningu. Ferðþjónusta skapar einnig tækifæri í öðrum þjónustugreinum, smáiðnaði og verslun.

Við þurfum einnig að markaðssetja þá segla og mannvirki sem eru fyrir í samfélaginu ekki síst félagsheimilið, Hörpu Vestfjarða sem er kjörin til ráðstefnuhalds og menningarviðburða á ýmsum sviðum. 
EF okkur tekst að auka fjölbreytni starfa, auka gleði, virkni og samvinnu eru okkur allir vegir færir í að þróast í nútímalegt áhugavert og skemmtilegt samfélag sem fólk vill og sækist eftir að búa í ekki síst unga fólkið.

Guðrún Stella Gissurardóttir er forstöðumaður og er í 3. sæti á M-lista, máttar meyja og manna í Bolungarvík.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.