Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 28.5.2014 11:51:00 | Birna Hjaltalín og Guðlaug Rós
Kæru Bolvíkingar

Kæru Bolvíkingar,

núna eru aðeins nokkrir dagar í Sjómannadagshelgina – ró ró og allir með! En þá eru líka kosningar! Erfiðlega hefur gengið að fá ungt fólk til að starfa á pólitískum vettvangi og viljum við því spyrja okkur: afhverju?

Það sem fælir frá í flestum tilfellum eru "skotin" sem maður er hræddur um að fá, t.d „henni finnst þetta af því að..." og svo kemur útskýring. En málið er það að við eigum að virða skoðanir og treysta því að einstaklingar séu færir um að móta sér sínar eigin. Það er í lagi að vera ekki sammála!

Í nútíma samfélagi er hraðinn mikill og nýta þarf hverja mínútu vandlega. Að starfa í pólitík getur líka verið tímafrekt ef aðeins fáir einstaklingar deila allri ábyrgðinni. Það er því okkar áhersla að í því starfi sem er framundan, er mikilvægt að deila ábyrgð, og með gleði og jákvæðni að virkja fleiri í gott samstarf.

Öll viljum við byggja upp bæinn okkar og efla. Því fleiri sem koma að málum, því betra!

 

Gegnsæ stjórnsýsla er okkur í MMM afar mikilvæg og er eitt helsta baráttumálið okkar. Mikilvægt er að gefa öllum íbúum tækifæri á því að fá að koma að ákvarðanatöku um það sem gerist í bænum okkar og auka þannig íbúalýðræði og koma upplýsingum til skila á sem auðveldasta hátt.

Það erum við unga fólkið sem tökum við keflinu frá þeim eldri og reyndari og gerum okkar besta til að skapa hér betri framtíðarstað fyrir börnin okkar og barnabörn. Ef ekki við unga fólkið hver þá?

En hvað þarf til þess að gera þetta að betri stað ? Hverjar eiga áherslurnar að vera? Hvað má bæta?

Okkar trú er sú að ef atvinnumöguleikar eru fjölbreyttir sem og tryggt húsnæði og örugg dagvistunarmál, mun það skila okkur unga fólkinu heim. Því eins og við erum mörg eru áherslur, menntun og áhugamál okkar ólík. Sjávarútvegur er í dag okkar helsta tekjulind og við getum státað okkur af aflahæstu og duglegustu sjómönnum landsins og því erum við ótrúlega stolt af! Mikilvægt er að bera virðingu fyrir þeim og styrkja betur þær stoðir sem fyrir eru á þeim vettvangi. EN við þurfum að finna fleiri leiðir til að standa undir búsetunni hér og hugsa lengra fram í tímann en bara næstu 4. ár. Það er nefnilega því miður svo að við lifum ekki lengur bara á fiskinum. Við þurfum að standa vörð um þau störf sem hér eru fyrir ásamt því ýta undir nýsköpun og búa svo um að frumkvöðlar geti komið hugmyndum sínum í framkvæmd.

Samvinna, öflugt atvinnulíf, skemmtilegur staður, fjölbreytt menntun og áhyggjulaus framtíð er vonandi það sem koma skal í Bolungarvík.

Við viljum sjá meira af mörgu! Máttur Meyja og Manna er skipaður öflugum konum og með dyggri aðstoð og samstarfi við Bolvíkinga eru okkur allir vegir færir.

 

X-M

Birna Hjaltalín Pálmadóttir og Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.