Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 29.5.2014 18:20:17 | Einar Guðmundsson
Baldur Smára áfram í bæjarstjórn

Þegar leitað var til mín um að taka 6. sæti á D-listanum, lista sjálfstæðismanna og óháðra, var ég fljótur til svars.  Ég hef tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi innan Sjálfstæðisflokksins um langt árabil og hef fylgst vel með því sem hefur verið að gerast í bæjarfélaginu.  Við getum verið stolt af verkum okkar fólks.  Eftir áföll og erfiða tíma, hefur Bolvíkingum tekist vel að vinna sig út úr vandanum.  Með aðhaldi í rekstri, útsjónasemi og fagmennsku í áætlanagerð hefur tekist að lækka skuldir bæjarfélagsins, þrátt fyrir miklar framkvæmdir á síðustu árum.

 

Ég er svo heppinn, að í starfi mínu hitti ég daglega mikinn fjölda fólks.  Ekki síst sjómenn, útgerðarmenn og annað fólk úr atvinnulífinu.  Í kaffihorninu hjá OLÍS fara því fram fjörugar umræður um aflabrögð, fiskveiðistjórnun og í raun allt er við kemur sjósókn.  Miklar kröfur eru gerðar til þjónustu hafnarinnar, enda hefur orðið mikil aflaaukning í Bolungarvík á síðustu árum.  Það er samdóma álit aðkomusjómanna sem ég hitti og þeirra bolvísku sjómanna sem hafa landað í öðrum höfnum, að þjónusta Bolungarvíkurhafnar sé til fyrirmyndar og þannig þarf það að vera áfram, enda mun sjávarútvegurinn áfram verða undirstaða byggðar í Bolungarvík um ókomin ár.  

 

Ég hef um langt árabil setið í félagsmálaráði og hef verið formaður þess á yfirstandandi kjörtímabili. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa metnað til þess að  geta boðið skjólstæðingum okkar sambærilegar og helst betri aðstæður en gengur og gerist í sambærilegum og jafnvel stærri byggðarlögum.  

 

Í fjórum af sex efstu sætunum á D-listanum situr nú nýtt fólk.  Þar af eru þrjár hæfileikaríkar og kraftmiklar ungar konur, sem munu láta til sín taka á næstu árum.  Til að tryggja áframhaldandi farsæla forystu fyrir Bolungarvík, þarf D-listi, listi sjálfstæðismanna og óháðra að hljóta meirihluta atkvæða.  Við Bolvíkingar þurfum nauðsynlega á því að halda, að Baldur Smári, haldi sæti sínu í bæjarstjórn, þannig að við getum haldið áfram að láta verkin tala.

 

Einar Guðmundsson, situr í 6. sæti D-lista, lista sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.