Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 30.5.2014 13:20:00 | Baldur Smári Einarsson
Traustur fjárhagur skapar ný tækifæri

Ábyrg fjármálastjórn hefur verið leiðarljós Sjálfstæðismanna og óháðra á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Óhætt er að segja að á síðasta kjörtímabili hafi tekist styrkja fjárhag sveitarfélagsins verulega.

 

Þetta er staðfest í nýrri skýrslu Íslandsbanka þar sem fjallað er um fjárhag sveitarfélaga á Íslandi. Þar kemur fram að mikill árangur hafi náðst í rekstri Bolungarvíkurkaupstaðar. Í skýrslunni erum við sett í hóp best reknu sveitarfélaga landsins. Þetta eru ánægjuleg tíðindi og sannarlega til marks um þau jákvæðu umskipti sem hafa orðið undir forystu Sjálfstæðismanna og óháðra. Að þessum árangri höfum við stefnt og honum er nauðsynlegt að viðhalda.

 

Sú hugsun að passa ætíð upp á að tekjur dugi fyrir útgjöldum og greiðslu afborgana af skuldum, þarf alltaf að vera efst í huga þeirra sem stýra bæjarfélaginu okkar. Þetta vitum við hvert og eitt úr okkar eigin heimilisrekstri.  Ef við sköpum sveitarfélaginu ekki traustan fjárhag þá minnkum við getu þess til að veita góða þjónustu og ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir.

 

Ég hef verið formaður bæjarráðs undanfarin 4 ár. Margt gott hefur verið gert á þeim tíma.  Ánægjulegast hefur mér þó fundist að hafa átt virkan þátt í þeim miklu umskiptum sem orðið hafa í fjármálum sveitarfélagsins.

 

Ég sækist nú eftir endurkjöri í bæjarstjórn Bolungarvíkur. Þannig vil ég bjóða fram reynslu mína og þekkingu til áframhaldandi uppbyggingar samfélagsins. Til þess þarf ég  öflugan stuðning bæjarbúa í kosningunum á morgun. Þann stuðning er einungis hægt að sýna með því að setja X við D.

 

Baldur Smári Einarsson.

Höfundur skipar 4. sæti á D-lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.