Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 30.5.2014 19:08:05 | Soffía Vagnsdóttir
..MMM..... góður kostur!

MMM er nýtt framboð eingöngu skipað konum sem, þrátt fyrir að þekkjast á förnum vegi, hafa á ótrúlega stuttum tíma orðið að góðum og traustum vinahópi sem býður sig nú saman fram til að taka við keflinu á stjórnun bæjarins. Í hópnum býr kyngikraftur, reynsla, þekking, víðsýni, áræðni, hugmyndaauðgi og lífsgleði.

Nú kann margur að spyrja: Átti ekki að vera nýr blær og ferskleiki yfir framboðinu? Hvers vegna leiðir þá Sossa þennan lista?  Að leiða lista er áskorun sem þær yngri vildu bíða með þar til þær hefðu örlítið meiri reynslu.  Sjálf hef ég átta ára reynslu af setu í bæjarstjórn sem var bæði gefandi, lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Því var það ákvörðun mín að taka það að mér. Konur eru í minnihluta hvað varðar stjórnmálaþátttöku almennt og núverandi innanríkisráðherra hefur m.a.  lagt ríka áherslu á aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum.

Við í MMM höfum tekið áskoruninni því við trúum að þátttaka kvenna í mikilvægum ákörðunum skipti miklu máli. Við höfum rætt að það geti verið góð hugmynd að ég leiði hópinn fyrstu tvö árin en síðan taki önnur við keflinu þó áfram verði ég auðvitað hluti af teyminu.  Það eru nefnilega engin geimvísindi að taka þátt í stjórnmálastarfi eða að sitja í bæjarstjórn. Það þarf engin kona að vera hrædd við það. Við lærum með reynslunni og með því að vinna vel  og náið saman verður vinnuálagið sanngjarnara og árangurinn betri.

Það er sameiginleg sýn okkar sem skipum listann að breytinga sé þörf í Bolungarvík. Stefnuskráin okkar „MEIRA AF MÖRGU“ lýsir hvað það er sem við helst viljum hafa áhrif á og breyta.

 

Ég þakka bæjaryfirvöldum traustið

Ég er þakklát fyrir að hafa notið trausts bæjaryfirvalda til að hafa í hálfan annan áratug stjórnað tveimur af stofnunum bæjarins, fyrst tónlistarskólanum á árunum 1998-2004 og svo grunnskólanum frá árinu 2006. Það er ekki lítið að vera treyst fyrir þeirri stofnun sem tekur til sín mest af fjármagni sveitarfélagins. Mér hefur tekist til með reksturinn á báðum þessum stofnunum með ágætum eins og fræðsluráð hefur  oft þakkað fyrir.

Þann árangur þakka ég ekki síst góðu samstarfi við starfsfólkið í skólanum sem og bæði við fræðsluráð og framkvæmdasvið bæjarins. Hópurinn í heild hefur tekið virkan þátt í umræðunni um reksturinn og á hann hefur verið hlustað. Að fá fleiri að borðinu, upplýsa, hlusta og ræða saman hefur skilað okkur þeirri góðu útkomu sem raun ber vitni.

Við höfum líka lagt mikið á okkur til að efla skólastarfið og draga fjármagn inn með öðrum hætti. Við höfum í gegnum íslenskt, evrópskt og norrænt samstarf fengið hátt á  í 15 milljónir króna inn í skólann sem hefur gert okkur kleift að auðga starfið og ekki síst að tæknivæða skólann, því hluta af því fjármagni sem við höfum fengið, höfum við notað til kaupa á tæknibúnaði.

Með þessu blæs ég á þá lísfseigu „mítu“ að „hún Sossa sé alveg ágæt með blessuð börnin og sé bara nokkuð skapandi, en hafi bara ekkert vit á fjármálum“.

 

Fjármálin

Á síðasta kjörtímabili hækkuðu langtímaskuldir Bolungarvíkurkaupstaðar úr 811 milljónum króna í 933 milljónir sem gerir hækkun upp á 122 milljónir. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var verið að samþykkja lánaumsókn upp á 135 milljónir króna. Langtímalán sveitarfélagsins hafa því hækkað um 257 milljónir króna. Auk þessa er í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir nýrri lántöku upp 159 milljónir króna til viðbótar, vegna Hjúkrunarheimilisins.  Þessar tölur eru teknar beint upp úr ársreikninum sveitarfélagsins og tala sínu máli.

Samningur við eftirlitsnefnd sveitarfélaga á síðasta kjörtímabili upp á 225 milljónir króna hafði veruleg áhrif  inn í reksturinn. Síðasta greiðsla þess samnings upp á 70 milljóna króna eingreiðslu rétt fyrir síðustu áramót jók hagnaðinn umtalsvert. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2013 var gert ráð fyrir að hagnaður af sveitarfélaginu yrði 46 milljónir en varð í stað að 96 milljónum. Hagnaðarniðurstaðan hefði því verið töluvert lægri hefði þessi „lottóvinningur“ hefði ekki skilað sér svona í blálok ársins. Það eru ekki fleiri útistandandi „lottóvinningar“.

Vissulega hafa margir ytri þættir haft áhrif á rekstur sveitarfélagins til góðs, svo sem eins og mikill afli, hærra fiskverð og fjölgun íbúa. Þessir þættir hafa mikil áhrif á tekjurnar. En ennþá er sú staða uppi að reksturinn hefur þurft á lántökum að halda til að halda daglegum rekstri á floti og til að greiða af þeim skuldbindingum sem sveitarfélagið hefur gert. Nýframkvæmdir eru svo fjármagnaðar með lánsfé. Það er því ljóst að fjárhagsstaðan er ekki sterk.

 

Tíminn framundan

Í hópi MMM eru konur sem reka fyrirtæki, stjórna stofnunum og reka heimili. Það er því engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að við getum ekki séð um fjármál bæjarfélagins. Fjármálin eru bara einn hluti af stjórnun bæjarfélags. Það er svo miklu meira sem þarf að horfa til. Það þarf að leita nýrra atvinnutækifæra, styðja við þá atvinnustarfsemi sem nú er, hafa íbúa með í ráðum, hvetja til bjartsýni og vekja vonir, gæta hagsýni og eyða í samræmi við tekjur svo dæmi séu nefnd.

Á skólaárinu sem nú er að ljúka voru 143 nemendur. Á komandi ári verða, eins og staðan er nú, 126 börn í skólanum. Það er staðreynd að nýlega hafa einhverjir útgerðaaðilar selt sína útgerð og stórar fjölskyldur eru að fara úr bænum. Mikil óvissa ríkir um framtíð starfa hjá Sýslumannsembætti, í Sparisjóðnum og á Náttúrustofu. Þetta er dæmi um það hversu brothætt staða sveitarfélagsins er, því allt hefur þetta áhrif á tekjur sveitarfélagsins til að standa undir skuldbindingum. Og svo má ekki gleyma að ef samningar kennara verða samþykktir munu þeir hafa umtalsverð áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Það er þess vegna varhugavert að vera með langan loforðalista um framkvæmdir á öllum sviðum.

Það þarf því mikla hugmyndaauðgi, útsjónarsemi, bjartsýni, hagsýni og samheldni til að takast á við komandi tíma.  Það getur hópur MMM gert og treystir sér vel til þess í góðu samstarfi og samvinnu við íbúana.

Ég hlakka til að takast á við verkefnið fáum við til þess umboð. Bolungarvík er fallegur og góður búsetustaður þar sem samheldni íbúanna skiptir meginmáli.

Gleðilegan kosningadag.

 

Soffía Vagnsdóttir

oddviti M lista (Máttur meyja og manna)   X - M


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.