Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 21.1.2015 11:43:36 | Kristinn H. Gunnarsson
Bæjarráð viðurkennir 45% launahækkun

Bæjarráð Bolungavíkur hefur loksins séð ástæðu til þess að segja frá ríflegri kauphækkun til bæjarfulltrúa sem bæjarstjórnin samþykkti  17. desember á síðasta ári. Er það í kjölfar þess að fjallað var um málið í blaðinu Vestfirðir sem kom út í síðustu viku. Tillaga um nýja samþykkt um kjör bæjarfulltrúa var  ekki sýnileg á dagskrá  bæjarstjórnarfundarins heldur var einn liður í einni af fundargerðum bæjarráðs og þar voru engar upplýsingar um innihaldið. Enginn tók til máls og engar upplýsingar eru bókaðar í fundargerð bæjarstjórnar um efni tillögurnnar.

 

Í fréttatilkynningu bæjarráðs  er viðurkennt  að um „talsverða breytingu í prósentuhækkun“   launagreiðslna vegna bæjarráðs og bæjarstjórnar sé  að ræða . Hún reynist vera um 45% á ársgrundvelli. Þá er  miðað við 13 bæjarstjórnarfundi og 51 bæjarráðsfundi yfir árið, sem er reynslan síðustu tveggja ára. Bæjarráðið miðar við í sínum útreikningum við 12 bæjarstjórnarfundi og 48 bæjarráðsfundi á ári. Fjöldi funda skiptir máli þar sem hluti af laununum er fyrir hvern setinn fund í nýju reglunum. Í gömlu reglunum var eingöngu föst greiðsla pr mánuð. Þetta þýðir að verði fundirnir færri  verður hækkunin vegna nýju reglanna minni og verði fundirnir fleiri verður launahækkuninn meiri. Með því að miða við færri fundi en meðaltalið er bæjarráðið að gefa til kynna að hækkunin sé minni en hún í raun er.

 

Það væri út af fyrir sig hægt að ákveða þennan fundafjölda 12 og 48 sem hámark fyrir árið, en ekki er kunnugt um neina slíka ákvörðun og því eru áhrif nýju reglanna reiknuð út frá meðafundafjölda, 13 bæjarstjórnarfundum og 51 bæjarráðsfundum.

 

Heildarkostnaður við laun bæjarfulltrúa fyrir setu í bæjarráði og bæjarstjórn verður 7.3 milljónir króna og að teknu tilliti til mismunandi fundafjölda gefur bæjarráð upp sama launakostnað.  Það er 2.3 milljónum króna hærri upphæð en bæjarráð segir að hafi verið samkvæmt eldri reglum. Hlutfallslega er hækkunin 45%.  Hækkunin er hins vegar mismunandi eftir embættum:

 

bæjarfulltrúi fær 43% hækkun og laun hans verða 43.701 kr.á mánuði. Forseti bæjarstjórnar fær 21% og 80.345 kr. á mánuði og bæjarráðsmaður fær 45% og 118.617 kr. Formaður bæjarráðs fær mestu hækkunina eða 64% og laun hans verða 159.333 kr. á mánuði.

 

Þessar tölur er aðeins hærri en bæjarráð gefur upp í fréttatilkynningu sinni og munurinn skýrist af því reiknað er með að greitt verði fyrir 13 bæjarstjórnarfundi og 51 bæjarráðsfund í stað 12 og 48.

 

Hafa verið greidd of há laun skv. fyrri samþykkt um laun?

Munurinn á útreikningum blaðsins Vestfirðir og útreikningum bæjarráðs liggur í mati á kostnaði af eldri reglum. Þær voru þannig skv. upplýsingum sem bæjarstjóri veitti:

 

Laun bæjarstjórnar og bæjarráðs Bolungarvíkur ( til 31. des. 2014)

Laun aðalmann bæjarstjórnar og bæjarráðs skulu vera reiknuðu út frá grunntöflu 127 launaflokks launtöflu frá FosVest. Frá 1. mars 2014:  243.451 krónur á mánuði.

 

Per mánuð:

Bæjarfulltrúi er með 12 % eða                     29.214 kr

Forseti bæjarstjórnar 18%                             43.821,-kr

Bæjarráðsmaður  20 %                                 48.690,- kr

Form. bæjarráðs  26%                                   63.297,- kr     

 

 Samkvæmt þessu fékk t.d. formaður bæjarráðs 63.297 kr á mánuði og hækkar upp í 159.333 kr. Hækkunin er 152% eins og fram kom í blaðinu. Greinargerð bæjarráðs útskýrir ekki beint framkvæmdina á samþykktinni, en með því að greina sundur útreikninga bæjarráðs sést að formaður bæjarráðs hefur ekki fengið 26% skv. eldri reglum heldur 38%. Bæjarráðsmaður hefur fengið 32% í stað 20% og forseti bæjarstjórnar virðist hafa fengið 30% af viðkomandi launaflokki en ekki 18%.  Þetta þýðir að greidd laun skv eldri reglum virðast hafa verið hærri en mælt er fyrir um og launahækkunin nú verður þar af leiðandi minni.

 

Þessi túlkun á fyrri samþykkt er sérkennileg því þar kemur skýrt fram hver launin eru sem hlutfall af viðkomandi launaflokki og engin fyrirmæli um að bæta eigi við sérstaklega 12%.  Nýja samþykktin er líka með ákveðnum prósentum í grunnlaun eins og sú eldri. Nú er miðað við þingfarakaup sem er 651.446 kr/mánuði.  Þar stendur:

bæjarfulltrúi  4%

forseti bæjarstjórnar 8%

formaður bæjarráðs  9%

aðrir fulltrúar í bæjarráði 7%

 

Nú bregður svo við  tilgreind prósenta er nákvæmlega upphæðin sem bæjarráðið reiknar með að viðkomandi fá í fasta mánðalega greiðslu þegar launin eru reiknuð, engu er bætt við.  Þarna eru tvær samþykktir um sama efni með sams konar uppsetningu en framkvæmdar á tvo mismunandi vegu. Það er engin leið að skilja eldri  samþykktina á þann veg sem virðist hafa verið gert,  og  bæjarráð þarf að gera grein fyrir því hvernig sú framkvæmd er rökstudd.  Ég tel mig hafa umtalsverða reynslu af því að lesa og túlka lagatexta og samninga og  mér hefði ekki dottið í hug að fá út þann skilning sem framkvæmdur hefur verið. Það þyrfti að taka sérstaklega fram ef ætlunin er að 12% laun bæjarfulltrúa bættust við launin sem tilgreind eru með hverju embætti.

 

Þetta hygg ég að skýri muninn á útreikningum blaðsins Vestfirðir og bæjarráðs.  Niðurstaðan er engu að síður sú að launin hækka um 45% sem er mjög mikil hækkun, svo mikil að bæjarfulltrúarnir þögðu sem fastast um eigin kauphækkun þar til blaðið Vestfirðir hafði  sagt frá málinu. Það er leitt til þess að vita að vefmiðilinum Vikari.is skuli hafa mistekist að færa lesendum sínum fréttir af málinu. Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs hefur alveg svikist um það að upplýsa ritstjórann Baldur Smára Einarsson um málavöxtu. Þetta er alveg ófært, eins og dyggir lesendur vikari.is gera sér grein fyrir.  Það væru einhver ráð með að leggja vefmiðlinum lið við fréttaöflun ef eftir því væri leitað.

 

Kristinn H. Gunnarsson


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.