Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 22.1.2015 18:01:07 | Elías Jónatansson
Að gefnu tilefni

Nokkur umræða hefur orðið um launahækkun bæjarfulltrúa í Bolungarvík sem tók gildi 1. janúar sl.  Hefur umræðan gengið svo langt að gefið er í skyn af ritstjóra blaðsins Vestfirðir að nýkjörin bæjarstjórn Bolungarvíkur og fjórar bæjarstjórnir þar á undan hafi ekki kunnað að lesa úr eigin launasamþykkt sem samþykkt var í bæjarstjórn árið 2000, eða fyrir 15 árum síðan.  Fulltrúum í bæjarstjórn og nefndum hefur verið greitt samkvæmt samþykktinni undanfarin 15 ár eða svo.   Það er að sjálfsögðu fáheyrð vitleysa og á sér enga stoð í raunveruleikanum. 

 

Ekki verður farið frekar í þá sálma hér, en þess freistað þess í stað að sannreyna raunveruleg áhrif nýrrar launasamþykktar bæjarstjórnar Bolungarvíkur með dæmum og samanburði við það sem gerist í öðrum bæjarfélögum.  Í greininni kemur fram að laun kjörinna fulltrúa í Bolungarvík voru fyrir breytinguna í mörgum tilfellum innan við helmingur af því sem gengur og gerist í öðrum sambærilegum bæjarfélögum.

 

Rangar fullyrðingar ritstjóra varðandi umræður um launasamþykkt

Af einhverjum ástæðum kýs sami ritstjóri í grein sem hann hefur sett inn á netmiðlana bb.is og vikari.is að fara með rangt mál varðandi umræður um launasamþykkt bæjarstjórnar sem voru sérstakt dagskrármál nr. 6 á fundi bæjarstjórnar þann 17. desember sl.  Þrír bæjarfulltrúar tóku til máls í umræðunni en að henni lokinni var tillagan samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.  Þess má geta að bæjarstjórnarfundir í bæjarstjórn Bolungarvíkur eru öllum opnir auk þess sem þeir eru í beinni útsendingu á vefnum.  Þá er hægt að hlýða á fundina af vef Bolungarvíkurkaupstaðar hvenær sem er síðar.  Það er með öllu óskiljanlegt að ristjórinn skuli finna sig knúinn til að fara þannig fram með rangt mál.  Undirritaður leyfir sér að gera ráð fyrir að um yfirsjón ritstjórans sé að ræða eða hreina og klára fljótfærni.  Þá er rétt að taka fram að strax var orðið við ósk ritstjórans um afrit af nýrri launasamþykkt þegar eftir því var óskað enda langur vegur frá því að samþykktin sé eitthvert feimnis- eða leyndarmál.

 

Útreikningar ritstjórans


Ritstjórinn gerir athugasemdir við útreikninga bæjarráðs Bolungarvíkur á launum bæjarfulltrúa í Bolungarvík og vill gera því skóna að launin séu hærri en segir í frétt á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar.  Rétt er að benda á að bæjarfulltrúar sem sitja í bæjarráði, eiga rétt á sumarleyfi, rétt eins og aðrir launþegar og því óeðlilegt að gera ráð fyrir að þeir geti mætt á alla fundi bæjarráðs yfir árið.  Auk þess geta komið upp þær aðstæður að vinnu sinnar vegna þá komist fulltrúar alls ekki á fundi enda hefur enginn bæjarfulltrúastarfið að aðalstarfi.  Slíkar fjarvistir höfðu engin áhrif á laun bæjarfulltrúa, hvort sem þeir sátu jafnframt í bæjarráði eða ekki, samkvæmt eldri launasamþykkt þar sem um föst mánaðarlaun var að ræða.  Í nýrri launasamþykkt eru hinsvegar föst laun fulltrúa í bæjarráði lægri en í gömlu samþykktinni.  Sem dæmi þá eru föst laun formanns bæjarráðs skv. gömlu launasamþykktinni 97 þús. kr. á mánuði, en tæp 57 þús. kr á mánuði skv. þeirri nýju.  Föstu launin eru þannig lækkuð um 40%.  Það var þó vissulega ekki tilgangurinn með breytingunni að lækka heildarlaunin því sérstök greiðsla kemur fyrir hvern fund til viðbótar föstu greiðslunni.  Það má hinsvegar til sanns vegar færa að sú nálgun að lækka föstu launin og greiða þess í stað sérstaklega fyrir fundarsetu sé sanngjarnari leið.

 

Ofmat bæjarráðs á raunverulegri hækkun


Auðvelt er að gera samanburð á launum samkvæmt fyrri launasamþykkt og þeirri nýju með því að taka dæmi af fundarsetu Baldurs Smára Einarssonar (BSE) núverandi formanns bæjarráðs sem einnig sat í bæjarráði á síðasta kjörtímabili.  Að meðaltali árin 2009, 2010 og 2011 sat hann 40 bæjarráðsfundi hvert ár auk þess að sitja að meðaltali 12 bæjarstjórnarfundi hvert ár.  Líklega er óhætt að fullyrða að enginn fulltrúi hafi setið fleiri fundi en BSE þessi þrjú ár þótt það hafi ekki verið rannsakað til hlítar við skrif þessarar greinar.  Miðað við fyrrgreinda fundarsetu væru heildarlaun  formanns bæjarráðs  140 þús. kr. á mánuði samanborið við 97 þús. kr.  áður, sem þýðir 45% hækkun.  Miðað við sömu fundarsókn væru meðallaun bæjarráðsfulltrúa samtals 106 þús. samanborið við 82 þús. áður sem þýðir 29% hækkun.  Þvi má fullyrða að mat bæjarráðs á eigin launahækkun (39%) og formanns bæjarráðs um (58%) sé fremur talsvert ofmat en hitt.  Mat ritstjórans sem miðar við 51 bæjarráðsfund er að sama skapi klárlega talsvert ofmat og tekur ekkert tillit til þess t.d. að fulltrúar í bæjarráði eiga á rétt á sumarleyfi og komast starfa sinna vegna kannski ekki á alla fundi bæjarráðs.

 

Samanburður við önnur sveitarfélög


Eðlilegt er að samanburður sé gerður við önnur sveitarfélög þegar kemur greiðslum fyrir störf í bæjarstjórn og bæjarráði.  Grundarfjörður er dæmi um sveitarfélag af svipaðri stærð og Bolungarvík.  Sveitarfélagið birtir gögn um kjör bæjarfulltrúa á vefnum þannig að samanburður er einfaldur.  Snæfellsbær og Vesturbyggð birta einnig gögn um kjör bæjarfulltrúa á vefjum sínum.

 

Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu voru laun almennra bæjarfulltrúa og þeirra sem sitja í bæjarráði talsvert hærri í þeim sveitarfélögum sem hér er miðað við en í Bolungarvík, í mörgum tilfellum tvöföld laun fulltrúa í Bolungarvík í sama starfi.  Eftir breytingu á launasamþykkt í Bolungarvík hefur dregið verulega úr þessum mismun og eru laun annarsstaðar á bilinu 20% til 70% hærri en í Bolungarvík fyrir sambærileg störf.

 

Hinn gullni meðalvegur


Umræða um þóknun fyrir setu í bæjarstjórn og nefndum er af hinu góða.  Líklegt er að fæstir hafi velt því mikið fyrir sér hvað greitt hefur verið fyrir þau störf í Bolungarvík.  Það hefur hinsvegar verið ljóst öllum sem hafa kynnt sér málið að í fjölda ára hafa laun bæjarfulltrúa og laun þeirra sem starfa í nefndum bæjarfélagsins verið miklu lægri en gengur og gerist í öðrum bæjarfélögum.  Það má umorða sem svo að mikið af því starfi hafi verið unnið í sjálfboðavinnu undanfarna áratugi og fyrir það beri að þakka.  Bæjarstjórn hefur tekið um það ákvörðun að fulltrúar í bæjarstjórn, nefndum og ráðum fái greitt fyrir vinnu sína á svipuðum nótum og tíðkast í öðrum bæjarfélögum.  Þeirri ákvarðanatöku verður ekki vísað til annarra  þar sem enginn annar en bæjarstjórnin sjálf hefur heimild til að taka slíka ákörðun.   

Það hefði verið eðlilegt að í blaðaumfjöllun um kjör bæjarfulltrúa í Bolungarvík hefði verið gerður samanburður við kjör bæjarfulltrúa í öðrum bæjarfélögum.  Af einhverjum ástæðum var það ekki gert.  Til að bæta úr því hafa hér verið tekin nokkur dæmi um þóknanir í öðrum bæjarfélögum til samanburðar.  Vonandi verður það til að varpa ljósi á umræðuna þannig að fólk geti myndað sér sjálfstæða skoðun á því hvort bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur farið offari í ákvörðun um þóknun sína eða hvort tekist hefur að finna hinn gullna meðalveg sem vissulega vakti fyrir bæjarfulltrúum.     

 

Bolungarvík 22. janúar,
Elías Jónatansson,
bæjarstjóri í Bolungarvík   


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.