Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 30.4.2015 16:03:57 | Elías Jónatansson
Gull í mund

Bæjarráð Bolungarvíkur ákvað á fundi sínum í gær að auka opnun Íþróttamiðstöðvarinnar Árbæjar og verður framvegis opið frá kl. 06:15 á morgnana virka daga.  Nýr opnunartími tekur gildi strax á mánudaginn.  Íþróttamiðstöðin býður upp á fjölbreytta möguleika til hreyfingar og líkamsræktar og reglulega er verið að uppfæra tæki og búnað í líkamsræktarstöðinni. 

 

Á undanförnum árum hefur umtalsverðum fjármunum verið varið til að bæta aðstöðu gesta og fegra ásýnd sundlaugarinnar.  Í sundlaugargarðinum er frábær aðstaða með vatnsrennibraut, heitum potti, nuddpotti og vaðlaug sem bætt var við árið 2013.  Í garðinum er gott skjól og fín aðstaða til að fara í sólbað.

 

Með auknum opnunartíma á morgnana er verið að koma til móts við sívaxandi hóp þeirra sem vilja stunda reglulega líkamsrækt.  Opnun kl. 06:15 gefur flestum tækifæri til að stunda sína líkamsrækt, hvort sem um er að ræða sund, skokk eða aðra hreyfingu í tækjasal, áður en farið er til vinnu.  Þá gefur þessi opnunartími einnig fólki úr nágrannabyggðarlögunum gott tækifæri til að nýta þá frábæru aðstöðu á morgnana, sem boðið er upp á í Íþróttamiðstöðinni Árbæ.  Ekki má gleyma því að hópar geta auðvitað leigt salinn á þessum tíma til íþróttaiðkunar.

 

Íþróttamiðstöðin Árbær hefur skapað sér góðan orðstýr á undanförnum árum hjá ferðamönnum.  Starfsfólkið hefur sett sér það markmið að taka vel á móti gestum með bros á vör.  Oft er boðið upp á kaffi í sundalugargarðinum ef tækifæri vinnst til og alltaf er heitt á könnunni innandyra.

 

Verið velkomin í sund í Heilsubænum Bolungarvík – munum að morgunstund gefur gull í mund!

 

Elías Jónatansson,

bæjarstjóri í Bolungarvík


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.