Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 25.1.2016 16:40:55 | Jón Þorgeir Einarsson
Rangfærslur Kristins H. Gunnarssonar leiðréttar

Frá því að Kristinn H. Gunnarsson tók við ritstjórn blaðsins Vestfirðir hefur margt neikvætt verið skrifað um þá sem standa að atvinnurekstri í Bolungarvík. Aðallega þó um aðila í sjávarútvegi.  Þegar blaðið birtist spyr maður alltaf sjálfan sig eða segir við nærstadda: Hvað skyldi Kristinn nú skrifa neikvætt í þessu blaði?  Sjaldnast er skrifað um þá fjölmörgu jákvæðu hluti sem eiga sér stað í atvinnurekstri í bæjarfélaginu. Þannig hefur ekki verið skrifað um þann mikla bolfiskafla sem berst hér á land árlega, þann mesta síðan byggð hófst.  Ef ég horfi til þess sem stendur mér næst þá get ég nefnt tvö dæmi.  Vorið 2014 keyptum við Guðmundur bróðir minn ásamt sonum okkar bátinn Ásdísi ÍS-2.  Á árinu 2015 fiskaði báturinn tæp 1.100 tonn af bolfiski sem er ágæt viðbót við það sem fyrir var í Bolungarvík.  Aldrei hefur Kristni þótt ástæða til að nefna þessi góðu aflabrögð.  Eiginkona mín, ásamt tveimur öðrum konum, hefur eytt miklum tíma, kröftum og fjármagni í að koma á framleiðslu fiskiolíu í Bolungarvík.  Ég hef ekki tekið eftir því að Kristinn hafi haft áhuga á þeirri starfsemi í blaði sínu.

 

Ég hef aldrei áður skrifað grein í blað eða í fjölmiðil á netinu. Ég neyðist þó til þess nú þegar Kristinn hefur í tvígang með skrifum sínum vegið að heiðri mínum.  Í fyrra skiptið í blaðinu þann 26. febrúar 2015 eftir að Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í máli sjómanns í Bolungarvík gegn útgerð í bænum.  Ég var vitni í málinu.  Í blaðinu voru ýmsar staðhæfingar um mig sem voru rangar af hálfu ritstjórans og viðmælandans. Sú alvarlegasta var sú að ég hefði logið fyrir dómi.  Margir komu að máli við mig eftir að blaðið kom út og hvöttu mig til að fara í meiðyrðamál við Kristinn. Enn hef ég ekki haft áhuga á því, þótt lögfróðir menn hafi komið að málið við mig og fullyrt að ég væri með unnið mál. Ég kaus frekar að eyða kröftum mínum og tíma í uppbyggilegri hluti.

 

Eftir að blaðið kom út átti ég fund með umræddum sjómanni. Fórum við yfir þessar staðhæfingar og dró hann í land með flestar þeirra og sagði jafnframt að hann hefði ekki sagt allt það sem fram kom í blaðinu.  Samkvæmt því var ritstjórinn sjálfur að skrifa um mig eitthvað sem sjómaðurinn hafði ekki sagt en vitnaði þó í sjómanninn.  Skrítin blaðamennska það. Þá er það óneitanlega skrítin blaðamennska að Kristinn gerði enga tilraun til að bera þessar fullyrðingar undir mig og gefa mér kost á að segja mitt álit á þeim. 

 

Fljótlega eftir að blaðið kom út bað maður mig um að vinna fyrir fyrirtækið sitt.  Ég spurði hann hvort hann hefði ekki séð hvað skrifað væri um mig í blaðinu Vestfirðir og hvort hann treysti mér.  Ég gleymi ekki meðan ég lifi svari hans, sem var svohljóðandi: „Traustið jókst enn til muna eftir að Kristinn H tók þig fyrir“. 

 

Í nýjasta tölublaði Vestfjarða ræðst Kristinn aftur að mér og vegur á ný að heiðri mínum.  Nú er það vegna Fiskmarkaðs Vestfjarða hf. þar sem honum tekst að fara rangt með staðreyndir málsins. Ekki er hjá því komist að leiðrétta þær helstu:

 

Í blaðinu er fullyrt að Endurskoðun Vestfjarða ehf. hafi annast bókhald fyrir Fiskmarkað Vestfjarða hf. áður en til sölu kom.  Það er rangt.  Endurskoðun Vestfjarða ehf. kom aldrei að færslu bókhalds fyrir Fiskmarkað Vestfjarða hf. áður en félagið var selt.

 

Fullyrt er að Blakknes ehf. sem er í helmings eigu minni hafi keypt 19% hlut í Fiskmarkaði Vestfjarða hf. af Sigmundi Þorkelssyni. Það er rangt. Blakknes ehf. hefur aldrei keypt hlutabréf af Sigmundi Þorkelssyni.  Hið rétta er að Blakknes ehf. keypti eignarhlutinn af Jakobi Valgeiri ehf.

 

Jakob Valgeir ehf. keypti alla hlutina í Fiskmarkaði Vestfjarða hf. af Sigmundi Þorkelssyni.  Undirritaður kom ekki að þeim viðskiptum, þau voru alfarið í höndum kaupanda og seljanda. Það hefði Kristinn getað fengið staðfest hefði hann haft samband við kaupanda og seljanda hlutabréfanna. Eina aðkoma mín var aðstoð við gerð kaupsamnings eftir að samkomulag hafði komist á milli Jakobs Valgeirs ehf. og Sigmundar um viðskiptin.

 

Ég hef ég alltaf gætt trúnaðar við viðskiptamenn mína. Það ætti Kristni að vera orðið vel kunnugt eftir að hafa ítrekað sent mér fyrirspurnir um málefni viðskiptamanna minna sem ég hef ekki svarað vegna lögbundinnar þagnarskyldu.

 

Eftir að Blakknes ehf. eignaðist hlut í Fiskmarkaði Vestfjarða hf. tilkynnti ég forráðamönnum Fiskmarkaðs Vestfjarða hf. að ég gæti ekki vegna eignaraðildar minnar að Blakknesi ehf. verið endurskoðandi Fiskmarkaðs Vestfjarða hf.  Er það ástæða þess að skipt var um endurskoðanda Fiskmarkaðs Vestfjarða hf. 

 

 

Jón Þorgeir Einarsson endurskoðandi og útgerðarmaður.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.