Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 18.5.2016 23:04:46 | Benni Sig
Björt Bolungarvík!

Loksins.

 

Frá því ég fór út á vinnumarkaðinn fyrir þónokkrum árum síðan hefur gengið á ýmsu í atvinnulífi okkar hér í Bolungarvík. Stolt okkar Bolvíkinga, fyrirtæki Einars Guðfinnssonar, hætti rekstri eftir erfiðleika og voru mörg erfið ár á vinnumarkaðnum hér í fallega bænum okkar. Ég tala út frá mínu brjósti þegar ég segi að ég er í fyrsta sinn að upplifa þá tilfinningu að bjart sé framundan, virkilega bjart. Í fyrsta sinn í langan tíma sé ég fólk almennt leggja sig mikið fram um að laga hús sín, garðinn og almennt í kringum sig. Fólk er bjartsýnt. Mikil gróska er í atvinnulífi okkar hér í Víkinni fögru og allskyns sprotafyrirtæki að fæðast sem og gamalgrónu undirstöðurnar okkar, sjávarútvegurinn. Hér kraumar um allt skapandi hugsun, og jákvæð , sem hefur sýnt sig í mörgum nýjum fyrirtækjum af margvíslegum toga. Má þar t.a.m. nefna Dropa, Örnu, flugufyrirtækið Víur , Kampi, bón og bólstrunarstöðvar og svona mætti lengi telja.

 

Hér er sterkt mannlíf og hefur undirritaður verið ötull við að reyna að skapa afþreyingu hverskonar, þám í fallega félagsheimilinu okkar. Fólk mætir afskaplega vel og gegnumgangandi má segja að hinn almenni borgari mæti við hvert tækifæri. Það ber að þakka.  Ég hef tekið þá ákvörðun að gera heiðarlega tilraun til þess að vera einn af þeim sem draga vagninn hvað snertir afþreyingu og ferðaþjónustu á svæðinu.  Samfélag snýst um svo margt og er hverjum manni hollt að skilja það orð til fullnustu. Við erum samfélagið.

 

Í Bolungarvík höfum við svo mikið af flottum fyrirtækjum, svo sem Jakob Valgeir ehf sem er stærsti atvinnurekandinn í Bolungarvík, sem telur að ég held 130-140 starfsmenn. Framúrskarandi flott fyrirtæki á sviði fiskvinnslu og hefur í áraraðir, ásamt Blakksnesi og öðrum fyrirtækjum, haldið uppi atvinnulífi í Bolungarvík. Öll þessi fyrirtæki hafa verið algjörlega ómissandi fyrir íþróttafélög hér á svæðinu með styrkveitingum hverskonar.  Hér höfum við mörg önnur flott fyrirtæki og útgerðir í sjávarútvegi. Fullt af verktakafyrirtækjum sem veita góða þjónustu. Við höfum einnig stóran verktaka hér sem hefur verið að bjóða í verk utan bæjarfélagsins, nú síðast stórt verk sem er í gangi á Patreksfirði. Annað verktakafyrirtæki er með stórt verkefni í Færeyjum. Slík fyrirtæki skila útsvari í bæjarkassann.

 

Hér er öflugur skóli, tónlistarskóli, íþróttamiðstöð, Bjarnabúð og aðrar flottar verslanir, veitingastaðir, endurskoðunarskrifstofa, ferðafyrirtæki í örum vexti og meira að segja frábær tælenskur takaway staður. Einarshús og Geiri á sjoppunni, glænýtt hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð, ásamt lítilli verslunarmiðstöð, fiskmarkaður, félagsmiðstöð, handverkshúsið Drymla er skipað hópi duglegs fólks, Náttúrugripasafnið sem er til fyrirmyndar, Ósvör, Skálavík og svona gæti ég talið endalaust upp. Mér finnst þetta bæjarfélag frábært og er nafli míns alheims.  Svo skemmir ekki fyrir að við eigum bestu nágranna í heimi, vini okkar í Ísafjarðarbæ og Súðavík.

 

Björgunarsveitin hér er svo öflug að tekið hefur verið eftir. Erum við bæjarfélagið þeim óendanlega þakklát fyrir allt það starf sem þeir hafa unnið.

 

Ég get ekki betur séð en hér sé mikil samstaða á meðal bæjarbúa og mikill vinahugur og gagnkvæm virðing. Auðvitað getur slegið í brýnu stöku sinnum á milli fólks,  en sem betur fer eru Bolvíkingar almennt þannig gerðir að þeir láta það ekki skemma fyrir, heldur lifa saman í mesta bróðerni.  Höfnin í Bolungarvík er iðandi af mannlífi nánast allan sólarhringinn. Af hverju? Hér býr harðduglegt fólk sem er að skapa sér og sínum lífsviðurværi. Vill hér búa. 

 

Ég vil segja eitt að lokum við Vestfirðinga alla. Stöndum saman. Nú er vindur í seglum. Gerum Vestfirðina í heild sinni að vænlegasta kosti til að búa á. Sem þeir nú þegar eru, verðum bara að telja fleirum trú um það. Við getum með samtakamætti okkar flutt fjöll. Það hefur margsinnis sýnt sig.

 

Ég tek það fram að ég er hvorki að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands né í bæjarstjórastólinn í Bolungarvík.

 

Ég hef einungis tröllatrú, áhuga og ábyrgðartilfinningu gagnvart vestfirsku samfélagi.

 

 

 

Benni Sig


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.