Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Fréttir | 1.2.2018 13:28:09 |
Strákurinn er búinn að redda þessu!

Hér er birt frásögn Bjarna Benediktssonar af sjóferð með Hugrúnu ÍS 7 í var undan veðri frá Bolungarvík til Ísafjarðar. Bjarni var þá átján ára gamall og 2. vélstjóri á Hugrúnu.

 

Sunnudagsmorguninn 4. febrúar 1968 brestur á með norðaustan stórviðri og hríð í Ísafjarðardjúpi og sjómenn í Bolungarvík fara að huga að því að fara með skip sín í var til Ísafjarðar. Sá háttur var hafður á að einungis tveir voru á Hugrúnu þegar farið var með hana í var en það var gert til að létta á mannskapnum því það gat verið streð að komast út Óshlíðina til baka til Bolungarvíkur. Allra jafna var þetta um klukkutíma sjóferð. Hugrún var 200 tonna stálskip með 675 hestafla Nohab Polar vél. Þessi frásögn hefur áður birst í Brimbrjótnum sem er blað Bolvíkingafélagsins. 

 

-

 

Það var eina nótt í febrúar að ég var ræstur upp af skipstjóra mínum, Hávarði Olgeirssyni, og hann bað mig að vera fljótan um borð því skipið væri að slitna frá. Þegar ég kom niður á Brimbrjót leist mér ekki á blikuna. Hafaldan gekk yfir Brjótinn og ég man eftir því að mér fannst hún vera eins og snjófjúk, kuldinn var rosalegur og ég varð að hlaupa á milli bryggjupollana til að komast um borð. Við það varð ég gegnblautur þegar ég varð að halda mér í pollana meðan brimskaflarnir gengu yfir. Þegar ég komst um borð bað Hávarður mig að vera fljótan að setja í gang. Þegar ég kom niður í vél sá ég að það var allt loftlaust og þá leist mér ekki á blikuna en setti strax í gang loftpressuna og hljóp upp til skipstjóra og tilkynnti honum það. Ég leit út um brúarglugga og sá að allir spottar voru slitnir nema einn.

 

Þegar ég kom niður aftur sá ég að loftið var ekki nóg á öðrum kútnum til að ná vélinni í gang en ekki dugði að deyja þarna ráðalaus svo ég skrúfaði frá báðum krönum á loftkútunum og skaut á vélina. Ég hélt að hún færi ekki í gang en hún náði að venda sér yfir. Þegar ég var að fara upp stigann mætti ég 1. vélstjóra en þá var hann kominn um borð og hann spurði mig hvort ekki væri allt í lagi? Ég svaraði honum með því að segja: „Það er allt loftlaust hjá þér“, og með það hvarf hann í land aftur. 

 

Ég fór fram á hvalbak til að sleppa þessum eina spotta sem var eftir. Mér leist ekki á hafrótið sem var fyrir utan endann á Brjótnum. Þegar ég var búin að setja endann inní hvalbakinn hljóp ég niður í vél til að ganga frá loftkútunum og færa ljós yfir á aðalvél en með því gat ég slökkt á ljósavél en þá kom áfallið. Ég hélt að ég mundi bara brotna niður, fór allur að skjálfa af stressi, þegar ég sá að vélstjórinn var ekki búinn að gera við hosuna á ytra vatninu á aðalvélinni. Þessi hosa fór í sundur á leiðinni í land úr síðasta róðri. Það voru klemmur yfir gatinu á henni sem við settum upp á leiðinni í land. Ég gerði mér alveg grein fyrir því ef vélin stoppaði í þessu veðri værum við dauðans matur. 

 

Ég varð að fylgjast með vélinni en þegar ég ætlaði upp úr vélarúminu hallaðist stiginn öfugt svo ég varð að setja lappirnar í aðalvélina. Mér fannst að skipið ætlaði ekki að reisa sig aftur við en svo reisti hún sig við rólega. Þá ætlaði ég upp stigann en fékk þá kalda gusu framan í mig. Ég hélt að ég væri búinn að fá nóg af þessum sjó í bili þó að hann væri ekki inn í miðju skipi eða niður í vél en þegar ég kom upp í gang sá ég að gangurinn var fullur af sjó því í öllum látunum þegar ég hljóp niður í vél hafði ég gleymt að loka hurðinni á eftir mér svo að gangurinn fylltist af sjó. Ég varð að vaða þennan leiðinda sjó aftur til að loka hurðinni en það gekk ekki allt of vel að ná hurðinni aftur í þessum velting. Síðan lá leiðin upp í brú og þegar ég kom þangað sagði Hávarður við mig: „Ég hélt að hún ætlaði ekki að reisa sig þegar við fórum fyrir endann“. Þá fattaði ég þennan halla niður í vél og ég þorði ekki að segja Hávarði frá því sem var búið að gerast niðri svo ég fór út að glugga bakborðs megin og gríndi út í sortann. Það var eins og við keyrðum skipið inn í snjóhengur því allur sjór sem kom yfir skipið var hvítur og skipið varð fljótt alhvítt. 

 

Hávarður var búinn að reyna við radarinn þegar ég kom upp í brú. Hann spurði mig hvort ég treysti mér til að fara upp á brú til að þurrka af skannernum svo við gætum fengið punkta. Ég sagðist verða að reyna það svo ég fór niður til að fara í sjóstakkinn, en það átti ég aldrei að gera, því þegar ég fór út á bátadekk varð ég eins og loftbelgur og þegar ég ætlaði upp stigann aftan á brúnni, og var komin hálfa leið, vissi ég ekki fyrr en ég hékk í lausu lofti en þá kom svo snörp kviða er blés upp undir stakkinn hjá mér og lyfti mér upp svo ég dinglaði eins og loftbelgur. Fari það í kol og salt, hugsaði ég, þegar ég áttaði mig á því sem gerðist og fór inn í brú aftur til að fara úr stakknum. Hávarður spurði mig hvort ég hafi komist upp en ég svaraði honum að ég gæti ekki farið upp í þessum galla og klæddi mig í lopapeysu og lopavettlinga sem amma mín gaf mér og gerði aðra tilraun til að fara upp á brúarþak. Það gekk sæmilega upp á þak en þegar ég kom þangað var erfitt að fóta sig en ég passaði mig að sleppa ekki grindverkinu fyrr en ég náði í rörið á skannernum en þegar ég ætlaði að klifra upp í skannerinn var rörið svo sleipt af ísingu að ég náði ekki taki á rörinu. Mér var ekki orðið sama um þennan velting og ég var orðinn allur hrímaður að utan en ég varð að reyna að komast þarna upp og fór að berja ísinn af rörinu sem skannerinn var á. Þá steig ég í þrepið á rörinu, setti hægri hendina utanum rörið, greip með henni í vinstri öxlina og hélt mér þannig á meðan ég þurrkaði með vinstri hendi. Það var ekki gaman að horfa niður í ólgandi hafið þegar skipið valt fram og til baka. Það var erfitt að fóta sig á þakinu, hvað þá að fóta sig á þrepinu sem var á skanner-rörinu. Þessar ferðir fór ég þrisvar eða fjórum sinnum og í öll skiptin, þegar ég kom niður aftur og við reyndum að ná landi, var komin ísing á aftur svo við náðum aldrei að sjá hvar við vorum. Síðasta ferðin var erfið því þá var ísinn orðinn svo harður á grindverkinu að ég átti erfitt með að ná honum í sundur. 

 

Hávarður sagði mér að hann ætlaði að keyra nær Bjarnarnúpi til að ná betra sjólagi. Á meðan við vorum að dóla þessa leið var ég orðinn doldið strektur yfir vélinni og var alltaf með augun á mælunum. En ég treysti ekki mælunum út af stressi og var því alltaf að hlaupa niður í vél til að fylgjast með henni. Allan þennan tíma hafði ég ekki ráðrúm til að skipta um föt og ég held að ég hafi verið hættur að finna fyrir því hvað ég var rakur.

 

Eitt skiptið þegar ég kom upp í brú sá ég að Hávarði var ekki rótt en þá var sjórinn farinn að minnka en mér fannst það ekki betra því það var svo mikið rokið að við vorum í, hreint og beint, í skafrenningi. Mér var hætt að lítast á ísinguna og skipið var allt orðið einn ískökkull. Ég var alltaf að fylgjast með Hávarði, hvort hann ætlaði ekki að snúa skipinu inn Djúpið og svo kom allt í einu: „Jæja, drengur minn, ég held að við snúum inn, það er ekkert annað að gera, við ráðum ekki við þessa ísingu, en höfum bara saman kúplað og látum báruna hjálpa okkur“. Það var alveg öruggt að Hávarður vissi hvað hann mætti bjóða skipi sínu mikla ferð í þessu ofsaveðri. Það var ekki notaleg tilfinning þegar við snérum skipinu inn Djúpið, rokið var svo mikið að mér fannst skipið hreint og beint leggast á hliðina. 

 

Það var hálf leiðileg tilfinning að standa þarna út í horni bakborðs megin í brúnni og með aðra löppina í radarnum til að styðja sig. Ég held að við höfum ekki gert okkur grein fyrir hallanum á skipinu, ég fann það að hún var orðin dáldið svög á bárunni. Ég renndi glugganum niður til að grína út í sortann, það var hálf leiðinleg tilfinning. Rokið og ísingin var alveg orðin svo rosaleg að maður átti ekki orð yfir það. Skipið var orðið einn hvítur klaki og það var ekki hægt að sjá í grindverk. Þetta skipti þegar ég var að góna út lagðist hún svo mikið að sjórinn kom upp yfir lestarlúgu. Mér fannst þetta hálf skrítin sjón að sjá blautan sjóinn fjúka yfir skipið og verða að ísgufu sem hlóðst á skipið. Á þessari leið var lítið sagt, ég held að við höfum báðir hugsað það sama, að reyna að ná í höfn sem fyrst. 

 

Sjór sem var undir grindum í brúnni var farinn að pirra mig því þegar skipið valt kom hann upp eftir veggjum. Það var orðið þrútið loftið í brúnni svo ég fór að reyna að spyrja að einhverju. Þá sá ég að Hávarður var orðinn sveittur, hann var búin að standa við stýrið allan þennan tíma, án þess að hreyfa sig. Ég fór að segja við hann að mér finndist hún vera orðin dáldið svög á bárunni. „Já“, svaraði hann, „hún er orðin meiri en það“ og bætti við „það þýðir ekkert hjá okkur að snúa við, við verðum að vona að við lendum á réttum stað þar sem við komum“.

 

Ég man eftir því hvað ég fékk hálfgerðan hroll hvar við lentum og ég hugsaði með mér að véldruslan fengi að fara í botn ef við lentum upp í fjöru. Maður var farinn að hugsa um margt. Ég gerði mér grein fyrir því að við gerðum ekki mikið tveir hér um borð, það varð að reyna að ná í höfn sem fyrst því maður skildi ekki hvernig skipið reisti sig aftur og aftur.

 

Stuttu eftir þetta bað Hávarður mig að stýra því hann ætlaði að reyna að fá sér að pissa og segir að sér finnst við vera komnir undir Arnanes. Á þessu sést hvað þessi maður var glöggur á tilfinningar sínar gagnvart staðsetningu á skipinu. „Það er farinn að minnka sjór“. Ekki fannst mér það, mér fannst þessi ísing alltaf verða verri og verri. Það var farið að birta af degi og ég renndi niður glugganum til að grína út í sortann en sá frekar lítið. Það er erfitt að lýsa þessari ísgufu sem lá yfir okkur en mér fannst ég sjá blokkina hjá Guðjóni frænda en þorði ekki að segja Hávarði það strax. Ég hélt að ég væri orðinn vitlaus af stressi og starði en það var rétt. Í sömu andrá var eins og það væru dregin frá gluggatjöld og ég varð að beygja henni í bakborða til að ná innsiglingunni. Þá hélt ég að hún ætlaði að leggast við það en hún rétti sig rólega við. Það var nokkuð bjart á meðan við sigldum inn rennuna á Ísafirði. Ég man eftir því þegar við komum að innstu bauju að ég tók hana bakborðs megin, sem er vitlaust, þá sagði Hávarður: „Jæja vinur, þá sitjum við fastir, en það verður ekkert af okkur hér“. Það var svo skrítið að vera um borð í skipinu þegar við lónuðum um Pollinn á Ísafirði, það var eins og það væri engin kjölfesta í skipinu, því hún tók svo langar veltur. Þá tók maður fyrst eftir því hvað ísingin var orðin gífurleg á skipinu.

 

Ég held að það hafi orðið svo mikið spennufall hjá okkur þegar við náðum í höfn að við gerðum okkur ekki grein fyrir því. Ég man bara eftir því hvað ég var orðinn máttlaus í fótum út af kulda, stressi og álagi. Fötin mín voru miklu blautari en ég gerði mér grein fyrir, lopapeysan mín var alveg gegnblaut. Það var léttir þegar Hávarður setti stefnið í síðuna á Guðmundi Péturs ÍS 1 til að ná mannskap um borð til að brjóta ísinn af skipinu svo væri hægt að binda það. Ég stóð í bakborðsglugganum og starði á mennina ráðast á ísinn. Hann virtist vera mjög harður, þetta tók góðan tíma svo hægt væri að binda skipið.

 

Þetta var mikil léttir að vera kominn í höfn. Ég fór niður í vél til að litast um, það virtist vera allt í lagi þar, þá klæddi ég mig úr peysuni og skyrtunni til að vinda það. Núna fann ég hvað ég var orðinn svangur því ég hafði ekkert fengið mér að borða um morguninn svo ég fór upp og hellti upp á kaffikönnuna. Þegar ég var búinn að næra mig sagði ég við Hávarð að ég ætlaði að fara til frænda míns og fá hjá honum þurr föt. Hávarður sagði að það væri allt í lagi „en þú verður að vera um borð í nótt“. Ég klæddi mig í úlpu utan um blauta peysuna mína og arkaði af stað út í rokið. Það var ekkert of auðvelt að komast þessa leið því rokið og kuldinn var svo mikill á leiðinni. Þegar ég kom að Íshúsfélagi Ísfirðinga varð ég að hvíla mig upp við vegginn á húsinu og berja í mig hita, ég fann það að ég hafði ekki þann kraft sem ég átti að hafa í mér. Það var notalegt að koma heim til Guðjóns frænda og Eyju konu hans, ég var eitt klakastykki. Þegar Eyja sá að ég var allur svona blautur sagði hún mér að fara í bað, „ég hlýt að eiga þurr föt af frænda þínum“. Það var skrítið að leggast í heitt vatnið, það var eins og það ætlaði að líða yfir mig. Þar var ég í góðu yfirlæti hjá þeim hjónum. Þegar ég var búinn að jafna mig eftir þessa vosbúð spurði ég hvort ég mætti hringja út í Bolungarvík og láta vita af mér til vinkonu minnar sem er konan mín í dag. Það var léttara að labba um borð aftur þegar maður var búinn að fá allar þessar kræsingar og þurr föt.

 

Ég gerði mér það ljóst að ég yrði að gera við hosuna áður en við færum út í Vík aftur en ég vissi ekki þá að við áttum eftir að leita að öðrum skipum. Þegar ég kom um borð heyrði ég að það væri farið að óttast um Heiðrúnu II ÍS 12. Það leist mér ekki á, að hún væri ekki komin í höfn, svo ég dreif mig í að gera við hosuna á aðalvélinni. Þetta tók hjá mér talsverðan tíma og það var mikil ótti í manni út af Heiðrúnu, maður svaf lítið þessa nótt. Morgunninn eftir kom ég upp á bryggju og þá voru menn að tala um að það ætti að fara að leita að Heiðrúnu og fleirum skipum en þá vissi ég ekki að Hávarður hafði verið boðaður í símann um morguninn og ég sá hann koma arkandi niður bryggjuna. Hann svipti sér beint að mér og spurði hvort aðalvélin væri biluð, að sér væri bannað að fara úr höfn. Ég stamaði því út úr mér að það hefði verið í gær en það væri ekki núna. Hann gæti farið hvert sem er núna og það var gott að hafa Anders við hliðina á sér, þegar Hávarður spurði að þessu, því Anders kom niður í vél um nóttina þegar ég var að lagfæra hosuna. Anders sagði honum að hann þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur því „strákurinn er búinn að redda þessu“, hann gæti farið þess vegna úr höfn. Ég spurði Hávarð hver bannaði okkur að fara úr höfn? „Yfirvélstjórinn“, sagði Hávarður og ég varð argur og sagði að honum hefði verið nær að vera um borð í gær en ekki hlaupa í land. 

 

Við fórum í leit ásamt öðrum skipum síðar um daginn. Í þessari leit var Anders Guðmundsson fenginn til að vera mér til hægri handar ásamt öðrum mönnum sem voru með okkur. Við fórum fyrst útundir Bjarnarnúp og sigldum þar um. Þessa daga sem við vorum við leitina var maður hálfpartinn utan við sig, sporin um borð voru svo þung sem mér fannst út af sorginni sem var um borð, en bæði hjónin, Anders og Guðrún S. Þóroddsdóttir, sem misstu sextán ára son sinn, Sigurð Sigurðsson, með Heiðrúnu II, voru um borð. 


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.