Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Vísnahorn Víkara | 19.1.2011 |
Þorrablótsbragur

Senn líður að þorrablóti Bolvíkinga og við hæfi að birta þorrablótsbrag sem sunginn var á blótinu 2005.

Nú fríður flokkur komin er hér saman
svo fýrugur á mannamót.
Hér skulum hafa gleði, glaum og gaman
og glaðbeitt halda þorrablót.
Og þjóðbúningum klæðumst líkt og gerðum forðum
af gagnlegum og góðum sið.
Og þorraþræla syngja skulum undir borðum,
sem lífga upp á samkvæmið.

Af þorramat nú magann skulum metta
og borða hér á okkur gat.
Úr sneysafullum trogum ýmsra rétta
er yfirfylla sérhvert fat.
Þar hákarlinn og harðfiskurinn vel sér sóma
og hangikjöt og stappa með.
Þar búðingar sem bragðast vel með þeyttum rjóma
bæta okkar góða geð.

Ef óþægindi konu fer að þjaka
þá þjóðbúningur herðist að.
Því fataskápar fyllast oft af raka
það verður víst að hafa það.
Og fötin þar í stórum stíl þá skreppa saman,
og skelfileg sú sjón að sjá,
ef daman fer við borðhaldið að blána í framan
og bolnum þarf að hneppa frá.

Hér seinna þegar dansinn hraður dunar,
sem hæfir þessum þorraþræl.
Á dansgólfið þá mannskapurinn brunar
og dillar sér við vals og ræl.
Af hjartans list í hringdansi með geði glöðu
gleður hjarta sérhvers manns.
Og undir eins þá tökum okkur aftur stöðu
alveg klár í næsta dans.

Með þrótti skulum Þorra saman þreyja
úr þrúgum drekka eðalvín.
Nú ætla kona, móðir, mær og meyja
að fara hér með góðlegt grín.
Og táp og fjör skal vera hér í þessu teiti
og taumlaus gleði nú við völd.
Með von að þessi fagnaður nú flestum veiti
fína skemmtun hér í kvöld.


Höf. Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Þorrablótið 2005


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.