Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Munnmælasögur | 10.4.2008 | Kristján Jónsson
Bolvískar munnmælasögur nr. 5

 

Margrét systir er mikil heimsmanneskja og hefur kynnt sér menningu og siði hinna ýmsu þjóða. Eitt sinn fyrir mörgum árum kom hún við í Ríó í Brasilíu á einhverju heimshornaflakki sínu og gisti þar á huggulega hóteli. Dag einn var hún við sundlaugarbakkann í hótelgarðinum og var að lesa íslenska kilju. Á bedda þar skammt frá var nokkuð vígalegur ungur maður og tók Margrét eftir því að í kringum hann var stressað starfsfólk í símhringingum og öðru stússi. Hafði hún áður tekið eftir miklum limmósínum á hótelinu og var nokkuð viss um að þarna væri einhver þekktur á ferðinni. Er hann rak augun í hið frumstæða letur á bókarkápunni, þá gaf hann sig á tal við Margréti og spurði um hvaða tungumál væri að ræða. Var hann hinn forvitnasti um Ísland, kannaðist við Sykurmolana og þess háttar. Þar sem maðurinn var síðhærður mjög og með mikið af húðflúrum taldi Margrét hverfandi líkur á því að þarna væri rithöfundur á ferðinni og spurði á sinn einlæga hátt: "Are you a famous popstar?" Var manninum nú fyrst verulega skemmt þar sem hann hafði ekki hitt konu í lengri tíma sem hvorki þekkti haus né sporð á honum. Spjallaði hann við Margréti drjúga stund og var hinn hressasti. Margrét spurði síðar starfsfólk hótelsins hver maðurinn væri: "Slash gítarleikari Guns´n Roses" var svarað. Var þetta á þeim tíma er frægðarsól þeirra var hve hæst á lofti og gelgjur eins og Viktor Hólm hlustuðu á boðskap þeirra daginn út og inn.

 


 

Sagnahefðin hefur í gegnum tíðina verið rík á meðal Víkara sem og annara Vestfirðinga. Kristján Jónsson hefur á undanförnum árum skrifað sögur á bloggsíðu sína sem hann hefur kallað Munnmælasögur. Víkari.is hefur nú fengið leyfi til þess að birta nokkrar af þessum sögum hér á síðunni en þær hafa allar birst áður á www.bolviskastalid.blogspot.com  og eru merktar eins og þær heita á bloggsíðu Kristjáns. Vonandi hafa lesendur Víkara ánægju af þessu enda er þetta einungis til gamans gert. Lifi sagnahefðin!
Ef einhverjar athugasemdir vakna vegna þessa er hægt að senda Kristjáni póst á kris@vikari.is .


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.