Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Viðtöl við Víkara | 20.6.2009 | Kristján Jónsson
Áætlað að velta 2,5 milljörðum á ári

Agnar Ebenesersson ræðir um horfur í rækjuvinnslu hjá Bakkavík.

Agnar Ebenesersson er framkvæmdastjóri rækjuvinnslunnar Bakkavíkur. Fyrirtækið var stofnað í maí árið 2001 og keypti þá eignir þrotabús Nasco Bolungarvíkur hf sem úrskurðað hafði verið gjaldþrota í lok árs 2000. Agnar er Ísfirðingur að ætt og uppruna en flutti út í Vík fyrir rúmum áratug og hefur verið í Víkinni síðan. Agnar starfaði ekki fyrir Nasco en var áður hjá Bakka sem keypti meirihluta í Ósvör, Þuríði og Græði hf sem rekið hafði útgerð og fiskvinnslu.


,,Ég flutti út eftir árið 1995 og þá ætlaði ég mér bara að búa hérna í eitt eða tvö ár á meðan við værum að koma starfssemi Bakka af stað. En maður sér hlutina ekki alltaf fyrir. Mér hefur líkað bara mjög vel hérna og það hefur haldið manni hérna út frá. Ég hef haft nóg að gera, sem þarf náttúrulega að vera,“ sagði Agnar þegar blaðamaður Víkara settist niður með honum á Holtastígnum.


,,Bretar borða 80% af kaldsjávarrækju“


Í júlí 2002 sameinaðist félagið fiskverkuninni Vík, Kálfavík og útgerðarfélaginu Voninni. Í kjölfarið var Rekavík keypt sem síðar keypti útgerðarfélagið Ós. Árið 2007 seldi Bakkavík hluti sína í Rekavík og í kjölfarið var fiskvinnslu og útgerð hætt hjá Bakkavík. Árið 2008 var rækjuvinnslan aukin á ný og fjárfest í verksmiðjunni:


,,Við fórum í breytingar í júlí/ágúst síðastliðið sumar. Það var gert til þess að geta aukið afköstin með frekari hagræðingu. Við erum búin að ná fram hagræðingu og auka afköstin í vinnslunni. Meiningin hjá okkur var að auka vinnsluna í nóvember/desember og fara þá í sextán tíma vinnudag, þ.e. tvær átta tíma vaktir. En vegna óvissu á mörkuðum í kjölfar heimskreppunnar þá höfum við frestað þeim aðgerðum. Óvissan er frekar mikil eins og er. Sérstaklega ef kreppan hefur verulega áhrif í Bretlandi því þar er okkar markaður. Bretar eru helstu neytendur kaldsjávarrækju og þeir borða nánast 80% af allri þeirri rækju,“ sagði Agnar en Bakkavík kaupir hráefni að miklu leyti af Norðmönnum: ,,Á síðustu mánuðum höfum við keypt svona 70-80% af okkar hráefni af Norðmönnum og það er rækja sem veidd er í Barentshafi. Hitt kemur frá Kanada og Flæmska hattinum. Það hráefni er veitt annars vegar af færeyskum skipum og hins vegar skipum sem gerð eru út frá Eystrasaltslöndunum.“


Samkeppnisaðilunum hefur fækkað


Agnar óttast ekki að framboðið af hráefni muni dragast saman á næstunni og færir því ágæt rök: ,,Enn sem komið er hefur verið nóg framboð af hráefni og okkur sýnist að það verði þannig áfram á árinu 2009. Það er einfaldlega vegna þess að verksmiðjunum sem vinna þessa rækju hefur fækkað svo mikið. Það eru ekki nema þrjár verksmiðjur eftir í Noregi en þær voru átta talsins. Það eru ekki nema fimm verksmiðjur eftir í Rússlandi en þar voru þær tuttugu þegar mest var. Þessum verksmiðjum hefur fækkað verulega bara á síðustu tveimur árum. Skipunum hefur hins vegar ekki fækkað í sama hlutfalli. Þessar verksmiðjur sem eftir eru hafa frekar verið að stækka,“ bendir Agnar á og honum líst ekki illa á þessa þróun. En þá komum við aftur að óvissunni sem fylgt hefur í kjölfarið af heimskreppunni. Eins og staðan er í dag er nánast vonlaust fyrir fyrirtæki að gera áætlanir fram í tímann:


,,Frá því ég byrjaði í þessum bransa þá hefur aldrei verið eins mikil óvissa um áramót. Við vorum búin að gera okkur plön eins og við gerum alltaf þegar líða tekur á árið. Við gerðum okkar áætlanir í september/október en eftir hrunið þá voru þær áætlanir orðnar úreltar. Við leggjum þær ekki einu sinni fram. Við verðum bara aðeins að sjá til og reyna að átta okkur betur á hlutunum. Þegar við ákváðum að keyra allt á tveimur vöktum næstu árin, þá var markmiðið að fara úr sex þúsund tonna framleiðslu upp í tólf þúsund tonna framleiðslu. Núna er hins vegar óvíst hvernig það fer.“


Tæknin leysir mannshöndina af hólmi


Þó svo að störfum í landvinnslu hafi fækkað mikið á undanförnum árum og áratugum þá er Bakkavík engu að síður mikilvægur vinnustaður fyrir Bolungarvík og Bolvíkinga: ,,Í dag erum við með þrjátíu og fimm starfsmenn. Það varð veruleg breyting þegar við seldum Rekavík því áður voru um 110 – 120 starfsmenn. Stór hluti af því var í kringum útgerðina og beitninguna. En við vorum auðvitað ánægð með að salan færi fram innan bæjarins,“ segir Agnar en dótturfélag Jakobs Valgeirs, sem heitir Guðbjartur, keypti Rekavík. Agnar bendir á að tækniframfarir hafi einnig áhrif á starfsfjölda því tæknin hefur í einhverjum tilfellum leyst mannshöndina af hólmi:


,,Tæknivæðingin gerir það að verkum að fyrirtæki geta verið með færri starfsmenn. Til þess að vera samkeppnisfær í þessu, þá þurftum við að fækka fólki. Í starfsmannahaldi er helst hægt að skera niður því ýmsan annan kostnað ráðum við einfaldlega ekki við. Sem dæmi þá eru hráefniskaup um 75% af kostnaðinum og launakostnaður er aðeins um 10%. Ef við keyrum vinnsluna á tveimur vöktum eins og áætlað var þá væri veltan um 2,5 milljarður og launakostnaðurinn væri þá um 250 milljónir. En eins og staðan er í dag þá erum við að velta 1250 milljónum á ári.“

Svartsýni varðandi rækjuveiðar í Djúpinu


Agnar hefur verið lengi starfandi í rækjuiðnaði og því ekki úr vegi að spyrja hvort hann hafi trú á að rækjuveiði eigi eftir að glæðast á ný í Ísafjarðardjúpi? ,,Rækjuveiðar hafa náttúrulega ekki verið stundaðar í Djúpinu í nokkur ár. Menn hafa nú haft trú á því að það gæti komið upp aftur og reyndar kom rækjusannsókn á árinu 2007 þannig út, að ýmislegt benti til aukningar. En rannsóknin árið 2008 kom frekar illa út og í raun miklu verr en menn áttu von á. Þar af leiðandi eru menn frekar svartsýnir eins og er. Aftur á móti kom Arnarfjörðurinn þokkalega út. Ísafjarðardjúpið kemur illa út því þar er svo svakalega mikið af fiski. Miklu meira en menn hafa séð lengi. Bæði stórýsa og ógrynni af lýsu,“ segir Agnar en eins og áður hefur komið fram þá hefur rækjuveiði í Djúpinu ekki bein áhrif á Bakkavík þar sem fyrirtækið kaupir hráefni erlendis frá.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.