Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Aðsendar greinar | 20.6.2012 00:26:25 | Stefán Gíslason
Breyting breytinganna vegna?

Þurfum við nýjan forseta? Svar mitt við þeirri spurningu er „já“, en eðlilega eru skoðanir skiptar. Ég átti tal við mann um daginn, sem taldi svo ekki vera, og sagði ástæðulaust að breyta breytingarinnar vegna. Þessi ábending vakti mig til umhugsunar. Væri þetta breyting breytingarinnar vegna? Ég komst fljótt að því að svo er alls ekki. Við þurfum breytingu, nýja sýn sem dugar inn í nýja tíma.

Við stöndum á tímamótum. Kannski stöndum við alltaf á tímamótum, en þessi tímamót eru stærri en flest önnur sem við höfum upplifað sem þjóð, í það minnsta þau okkar sem fædd eru eftir miðja 20. öld. Hrunið sem varð haustið 2008 minnti okkur á að kominn væri tími til að stokka upp spilin. Leiðin sem við vorum á var ekki lengur fær! Hér þurfti nýjar leiðir.

Hrun felur í sér tækifæri til að læra eitthvað nýtt og sagan sýnir að kreppuástand er jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir. Þetta á við um heimskreppuna á árunum kringum 1930 og líka um olíukreppuna í byrjun 8. áratugar síðustu aldar. En menn geta valið hvort þeir vilja berja höfðinu við steininn og reyna að endurreisa það sem var, eða hvort þeir vilja horfa fram á veginn. Tækifærin eru alls staðar, en við þurfum að læra af reynslunni til að geta nýtt þau. Ágætur kunningi minn orðaði það svo, að nú væri tækifæri til að taka ný skref, við mættum ekki „sóa góðri kreppu“, eins og hann orðaði það.

Núna, tæpum fjórum árum eftir hrun, sýnist mér að við séum enn á sömu leið og við vorum á fyrir 2008. Í mínum huga þýðir þetta að við séum í afneitun, að við viljum ekki læra af reynslunni, að við séum komin langt með að „sóa góðri kreppu“. Þetta væri svo sem allt í lagi, nema vegna þess að gamla leiðin er ekki lengur fær. Ef við fylgjum henni verður annað hrun fyrr en síðar. Vísasta leiðin til að endurtaka mistök, er að gera allt eins og í aðdraganda fyrri mistaka. Það er ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og vandamálið var búið til með, eins og Albert Einstein orðaði það einhvern tímann.

Forsetinn leiðir okkur ekki inn á nýjar brautir upp á sitt einsdæmi, en hann gegnir afar mikilvægu hlutverki í nýsköpuninni sem sameiningartákn og framsýnn leiðsögumaður. Í því verkefni dugar ekki sama hugarfar og á árunum fyrir hrun. Þess vegna ætla ég að kjósa Þóru Arnórsdóttur sem næsta forseta Íslands. Ég treysti henni best af því góða fólki sem býður sig fram til þess að liðsinna okkur öllum í því sem framundan er.

Stefán Gíslason
Umhverfisstjórnunarfræðingur
Borgarnesi


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Vígsla snjóflóðagarðanna
Snjóflóðavarnargarðarnir Vörður og Vaki í Bolungarvík voru vígðir laugardaginn 20. september.