Víkari.is - Fréttavefur Bolvíkinga
Menning og mannlíf | 13.10.2010 | Morgunblaðið
Bjarnabúð hefur verið fastur liður í bæjarlífinu í Bolungarvík í 83 ár

Morgunblaðið fjallaði um bolvísku verslunina Bjarnabúð síðastliðinn mánudag og er þar rætt við Stefaníu Birgisdóttur og Olgeir Hávarðarson. Frásögn Morgunblaðsins er svohljóðandi.

 

Kaupmenn með vestfirska þrjósku

 

"Við erum alltaf til staðar og reynum að veita persónulega þjónustu," segir Stefanía Birgisdóttir, kaupmaður í Verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungarvík. Bjarnabúð hefur verið starfrækt í 83 ár og er Stefanía aðeins þriðji eigandinn.

Verslun Bjarna Eiríkssonar er mikilvægur liður í bæjarlífinu í Bolungarvík. Hún er við Hafnargötu, í nánu sambýli við rækjuverksmiðjuna. Þegar líf var í verksmiðjunni, áður Íshúsfélagi Bolungarvíkur, fylltist búðin gjarnan í kaffitímum og þar hittist starfsfólkið eftir vinnu. Þetta hefur breyst. Starfsemi rækjuverksmiðjunnar liggur niðri eftir enn eitt gjaldþrotið.

Stefanía Birgisdóttir keypti Bjarnabúð fyrir fjórtán árum. Þá var yfirstaðið gjaldþrot fyrirtækja Einars Guðfinnssonar með miklu bakslagi í atvinnulífinu. Síðan hefur rækjuverksmiðjan sem tók til starfa í frystihúsinu tvisvar orðið gjaldþrota. Það hefur haft áhrif á reksturinn og ekki síður opnun Bónus inni á Ísafirði fyrir tíu árum. Bjarnabúð hefur þannig gengið í gegnum fleiri en eina "kreppu".

Opið alla daga ársins, nema tvo

"Við erum ekki í samkeppni við Bónus," tekur Stefanía fram en viðurkennir um leið að Bolvíkingar sæki mikið verslun þangað, eins og aðrir.

Stefanía segir að verslun hafi heldur verið að aukast. Fólk kunni að meta persónulega þjónustu og mikið vöruúrval. Þá hafi þau opið alla daga ársins, utan tvo þá helgustu.

Henti aldrei neinu

Stefanía og maður hennar, Olgeir Hávarðsson, stýrimaður og útgerðarmaður, gefa sér góðan tíma til að spjalla við viðskiptavinina og veita þeim leiðeiningar. Þegar blaðamaður lítur inn eru þau að segja gestum í bænum frá áhugaverðum stöðum til að heimsækja. Ekki þarf að fara langt því margt er að skoða í Bjarnabúð, fleira en vörurnar. Húsið er í sjálfu sér merkilegt. Þetta er myndarlegt timburhús sem flutt var tilsniðið frá Danmörku. Upphaflega reist af hinu Sameinaða íslenska verslunarfélagi á árinu 1920 en Bjarni Eiríksson flutti verslun sína þangað þegar hún var stofnuð 1927. Benedikt, sonur hans, tók síðar við rekstrinum.

"Benedikt henti aldrei neinu," segir Stefanía í skoðunarferð um húsið. Þar eru allar verslunarbækur og skjöl frá rekstrinum í áratugi. Tæki sem notuð hafa verið við verslunina eru enn til, svo sem vogir, fyrstu reiknivélarnar og búðarkassarnir - og upphaflegu innréttingarnar eru enn uppi á háalofti.

Njóta starfsins

"Það er vestfirska þrjóskan. Við viljum búa hér. Svo höfum við visst gaman af þessu starfi, annars stæðum við ekki í þessu," segir Olgeir þegar hann er spurður að því hvað drífi þau áfram.


Myndbandið
Næstu viðburðir
Ekkert fannst!
Nýjustu myndirnar
Smelltu til að skoða Íþróttamaður Bolungarvíkur 2019
Hóf Íþróttamanns ársins í Bolungarvík 2019 var haldið í Félagsheimilinu sunnudaginn 12.janúar 2020. Margir íþróttamenn fengu viðurkenningar og var það Mateusz Klóska sem fékk titilinn íþróttamaður ársins. Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir tók eftirfarandi myndir.